Erlent

Lítill áhugi og mótmæli almennings

George Bush, forseti Bandaríkjanna, er kominn til Evrópu til fundar við leiðtoga álfunnar. Hann vonast eftir stuðningi í Írak en mætir litlum áhuga stjórnmálamanna og mótmælum almennings. Bush hittir í dag leiðtoga Evrópusambandsins á fundi á Írlandi, og er fjöldi mála á dagskrá: Miðausturlönd, Súdan, baráttan gegn hryðjuverkum, gjöreyðingarvopn, alnæmisváin, og styrking efnahagstengsla á Atlantshafsásnum. En það er einkum gangur mála í Írak sem búist er við að verði ofarlega á baugi. Bush hyggst leita stuðnings Sambandsins við uppbyggingarstarf og öryggisgæslu í Írak. Hann segir mikilvægt að alþjóðasamfélagið aðstoði Íraka við að byggja upp ríki þar sem sé stöðugleiki, og að tímabært sé að gleyma deilum um gjöreyðingavopn Íraka, sem hafa ekki fundist ennþá. Ekki er talið líklegt að beiðni hans hljóti miklar undirtektir, þar sem leiðtogar Sambandsins telja öryggisástandið of viðkvæmt til að geta blandað þegnum sínum og hersveitum í málið. Almenningur á Írlandi hefur einnig tekið Bush fálega. Ólíkt þeim viðtökum sem forverar Bush í embætti hafa mátt venjast voru 600 manns mætt á Shannon-flugvöll til að mótmæla þegar forsetavélin lenti, og á milli fimm og tíu þúsund manns mótmæltu í Dyflinni í gærkvöldi. Til að bæta gráu ofan á svart hafa vandræðalegar myndir af Bush komist í umferð. Svo virðist sem myndatökuvél írska sjónvarpsins hafi verið stillt á glugga herbergis Bush í Dromoland-kastala þegar hann ákvað að gægjast út, klæddur stuttermabol einum. Írska forsetaskrifstofan hefur beðið fjölmiðla að birta ekki myndskeiðið, þar sem það hafi orðið til fyrir misskilning.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×