Erlent

Mesta ógn frá 11. september

Ósama bin Laden hvetur fótgönguliða al-Qaeda til stórfelldra hryðjuverkaárása í Bandaríkjunum á þessu ári. Margs konar upplýsingar hafa borist sem benda til þess að ógnin hafi ekki verið meiri frá árásunum ellefta september. New York Times hefur í dag eftir ónafngreindum embættismanni að vitað sé að stjórnendur al-Qaeda séu enn á ferð í landamærahéruðum Afganistans og Pakistans, og eigi samskipti við stuðningsmenn sína víða. Ósama bin Laden hvetji fótgönguliða sína til stórfelldra hryðjuverkaárása í nafni al-Qaeda, en sé hins vegar ekki viðriðinn skipulagningu þeirra árása eins og fyrir árásirnar 11. september 2001. Gagnhryðjuverkasérfræðingar hafa undanfarnar vikur orðið varir við aukin samskipti og upplýsingar um hryðjuverkaáætlanir, sem benda eindregið til þess að al-Qaeda hafi mikinn áhuga á hryðjuverkaárásum fyrir kosningar. Í gær varaði heimavarnarráðherra Bandaríkjanna, Tom Ridge, við hættu á hryðjuverkum í aðdraganda forsetakosninganna í haust, en nefndi hvorki ákveðinn tíma né stað. Almennt er þó talið að fyrri skotmörk: New York, Washington og flugvöllurinn í Los Angeles, séu ofarlega á lista skotmarka sem hryðjuverkamenn al-Qaeda hafa augastað á. Jafnframt er talin hætta á árásum á flokksþing demókrata og repúblíkana á næstu vikum. Þingmaður demókrata, sem sat upplýsingafund leyniþjónustunnar CIA og alríkislögreglunnar FBI um hryðjuverkaógnina, sagði upplýsingarnar sem nú liggja fyrir einhverjar þær mest ógnvekjandi frá atburðunum 11. september.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×