Erlent

Bretarnir í Íran fá frelsi

Átta breskum sjóliðum, sem haldið hefur verið föngnum í Íran síðan á mánudag, verður sleppt í dag eða á morgun. Yfirvöld í Íran hættu við að sækja mennina til saka fyrir að fara inn í íranska landhelgi eftir að ljóst var að þeir höfðu einfaldlega villst. Síðdegis stóðu yfir viðræður milli breskrar sendinefndar og stjórnvalda í Íran um lausn sjóliðanna, sem ætti að verða í kvöld eða á morgun. Sjóliðarnir sigldu inn í íranska landhelgi á mánudag á þrem bátum og voru handsamaðir í kjölfarið. Töluverð spenna var vegna málsins í fyrstu og myndir sem birtust af sjóliðunum, sitjandi með krosslagða fætur og bundið fyrir augu, fóru mjög fyrir brjóstið á Bretum. Stjórnvöld í Íran lýstu því yfir að mennirnir yrðu sóttir til saka og útlit var fyrir að atvikið myndi draga dilk á eftir sér. Eftir viðræður utanríkisráðherra landanna símleiðis í gær virðast hins vegar öldurnar hafa lægt og nú er útlit fyrir að sjóliðarnir komist til síns heima von bráðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×