Erlent

Verkfall norskra olíuverkamanna

Allt stefnir í allsherjarverkfall meðal verkamanna í norska olíuiðnaðinum og að framleiðslan lamist sem óhjákvæmilega leiddi til hækkunar olíuverðs á heimsmarkaði. Eftir að hluti verkamanna í greininni hefur verið í verkfalli í sex daga segja talsmenn þeirra að lítið sem ekkert miði í samkomulagsátt og að allsherjarverkfall blasi við. Norðmenn framleiða þrjár milljónir olíutunna á dag en til samanburðar er dagsframleiðsla OPEC olíuframleiðsluríkjanna rúmar 20 milljónir tunna á dag þannig að allsherjarverkfall í Noregi hefði óhjákvæmilega áhrif á heimsmarkaðsverð olíu. Auk áhrifa á heimsmarkaðsverðið hefði allsherjarverkfall víðtæk áhrif á norskt efnahagslíf. Í síðustu deilu norskra olíuverkamanna við vinnuveitendur var efnt til allsherjarverkfalls eftir tíu daga skæruverkföll. Þremur dögum síðar bundu stjórnvöld enda á deiluna með neyðarlögum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×