Erlent

Fjöldamorðingi vísar á lík

Lögregla í Frakklandi leitar að líkum tveggja fórnarlamba franska fjöldamorðingjans Michels Fourniret undir gömlu sveitasetri í Norður-Frakklandi. Fourniret, sem viðurkenndi í liðinni viku að hafa framið níu morð, benti lögreglu sjálfur á staðinn. Belgar eru felmtri slegnir yfir máli Fournirets enda aðeins rúm vika síðan réttað var yfir barnaníðingnum og morðingjanum Marc Dutroux í landinu. Í belgískum fjölmiðlum er talað um hinn franska Dutroux eða óvættinn frá Ardenne þegar Fournieret ber á góma. Hinn 62 ára gamli morðingi, sem flutti til Belgíu árið 1987, var handtekinn fyrir ári síðan eftir mislukkaða tilraun til ráns á 13 ára gamalli stúlku í Suður-Belgíu. Áður en Fourniret flutti til Belgíu hafði hann setið í fangelsi fyrir kynferðisafbrot á börnum í heimalandi sínu, Frakklandi. Í júní síðastliðnum kom hins vegar alvarleiki brota hans fyrst fyrir alvöru í ljós þegar kona hans, Monique Olivier, lýsti því yfir að maður hennar gæti hafa orðið að minnsta kosti níu manns að bana. Olivier upplýsti lögreglu um brot manns síns í kjölfar réttarhaldanna á Marc Dutroux. Hún á nú yfir höfði sér ákæru fyrir að hafa ekki hjálpað einstaklingi í hættu og gæti átt yfir höfði sér alvarlegri ákærur þegar fram líða stundir. Í síðustu viku játaði Fourniret að hafa orðið níu manns að bana, þar af sjö unglingsstúlkum eftir komu sína til Belgíu. Líkin sem nú er verið að leita gróf Fourniret árið 1989 undir sveitasetri sem hann sjálfur átti. Fourniret fór ásamt lögreglu á staðinn í dag eftir að hafa samþykkt að hjálpa til við að finna líkin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×