Erlent

Lofa mikilli aðstoð við Írak

Leiðtogar NATO lofuðu miklum stuðningi við ný stjórnvöld í Írak á fundi sem nú stendur yfir í Istanbul. Leiðtogarnir samþykktu meðal annars að veita hjálp við þjálfun hersveita Íraka. Þá mun NATO íhuga frekari aðgerðir til að auka öryggi Íraka. "Við styðjum Íraka af heilum hug og bjóðum nýjum stjórnvöldum þar í landi fulla samvinnu í viðleitni þeirra við að auka öryggi borgaranna," segir í yfirlýsingu frá leiðtogunum. Þá var ákveðið að stækka hóp friðargæsluliða í Afganistan og munu 10.000 hermenn á vegum bandalagsins verða í Afganistan þegar kosningar verða haldnar í landinu í september. Þá var ákveðið að binda enda á níu ára verkefni NATO á Balkanskaga en Evrópusambandið hefur samþykkt að taka við verkefninu. Hundruð mótmælenda köstuðu eldvörpum og steinum að lögreglu er þeir gerðu tilraun til þess að komast að ráðstefnuhúsnæðinu þar sem leiðtogarnir funda. Lögregla notaði táragas og vatnsbyssur til þess að hafa hemil á mannfjöldanum og særðust tugir manna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×