Erlent

Berjast við sjóræningja

Malasía, Singapúr og Indónesía ætla að senda sérstakar flotadeildir út á Malakka-sund til þess að berjast gegn sjóræningjum. Meira en eitt sjórán á dag var framið þar á síðasta ári. Malakka-sund er ein mikilvægasta sjóleið heimshafanna en um það fer um fjórðungur sjóflutninga í heimsviðskiptum. Sjórán eru vaxandi vandamál víða um heim og ekki síst á þessum slóðum. Alþjóða siglingamálastofnunin segir að á síðasta ári hafi verið framin 445 sjórán á Malakka-sundi. Indónesía, Malasía og Singapúr hafa nú loks ákveðið að skera upp herör gegn þessari vá og senda flotadeildir út á sundið en gallinn er sá að ekkert þessara ríkja á öflugan flota og samvinna á milli þeirra er takmörkuð vegna margvíslegra sérhagsmuna. Flotadeildirnar verða því ekki undir sameiginlegri stjórn og samhæfing milli þeirra verður í lágmarki. Þá hafa löndin hafnað því að önnur ríki komi að þessari gæslu en Bandaríkjamenn hafa boðist til að leggja fram herskip.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×