Erlent

Mikið mannfall í Írak

Tugir manna létust og hundruð særðust í samræmdum árásum skæruliða í borgunum Ramadí, Bakúba og Mósúl í morgun. Meðal fallinna eru að minnsta kosti tveir bandarískir hermenn. Harðir bardagar standa einnig yfir í borginni Fallujah. Fyrstu árásirnar áttu sér stað í borgunum Ramadi og Bakúba snemma í morgun þar sem sprengjuárásir voru gerðar á lögreglustöðvar. Skömmu síðar varð röð bílasprenginga í borginni Mósúl þar sem meðal annars þrjár árásir voru gerðar á lögreglustöðvar og ein sprengja sprakk fyrir utan sjúkrahús. Að minnsta kosti 40 manns létust og 60 særðust í árásunum í Mósúl, sjö féllu í Ramadí og ellefu í Bakúba, þar á meðal tveir bandarískir hermenn. Ekki er vitað um mannfall í Fallujah en þar brutust út bardagar þegar bandarískt herlið ætlaði sér inn í iðnaðarhverfi borgarinnar. Bandarískum skriðdrekum hefur verið ekið inn í borgina og árásir hafa verið gerðar á stöðvar uppreisnarmanna. Bandarísk herþyrla var skotin niður en áhöfnina sakaði ekki. Samræming árásanna í morgun er óvenjuleg og virðast aðgerðir uppreisnarmanna sífellt harðna eftir því sem nær dregur valdaskiptum í Írak sem fara eiga fram 30 júní. Yfirvöld í Írak óttast að sprengingarnar í morgun marki aðeins upphafið að þeim aðgerðum sem framundan eru til að reyna að spilla fyrir valdaskiptunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×