Erlent

Ástandið hvergi jafnslæmt

Í 21 ár hefur borgarastyrjöld verið ríkjandi í Súdan, á milli arabískra múslima í norðurhluta landsins, sem einnig eru í meirihluta ríkisstjórnar landsins og svartra afríkubúa í suðurhlutanum, sem eru að megninu til andatrúar eða kristnir. Á þessum tíma hafa rúmlega tvær milljónir manna látið lífið, meirihlutinn úr hungri. Alþjóðlegir eftirlitsmenn telja nú að ástandið í Darfur-héraði, sem er í vesturhluta Súdan sé slíkt að hvergi í heiminum búi íbúar við jafnmikla ógn. Talið er að um milljón manna hafi flúið til flóttamannabúða, líf hundruð þúsunda er ógnað vegna hungurs og um 30.000 manns hafa látið lífið á síðustu 16 mánuðum vegna árása arabísku herflokkana. Þrátt fyrir samkomulag um vopnahlé eru vopnuð átök enn daglegt brauð í Darfur-héraði. Jan Egeland, fulltrúi neyðaraðstoðar Sameinuðu þjóðanna, segir í samtali við BBC að hann hafi upplýsingar um sprengingar í þorpum í norðurhluta Darfur og að nýlega hafi fjórir vörubílar neyðaraðstoðarinnar hafi verið rændir. Bandarísk stjórnvöld hafa hótað að taka upp refsiaðgerðir gegn Súdan ef ekki tekst að stöðva átökin og eru vangaveltur uppi um frekari afskipti Bandaríkjamanna. Ekki síst eftir að Colin Powell heimsótti héraðið í lok síðustu viku, en svo háttsettur Bandaríkjamaður hafði ekki heimsótt landið í 25 ár. Samkvæmt kröfu Bandaríkjamanna er nú komið uppkast af ályktun Sameinuðu þjóðanna sem bannar stjórninni að vopna eða þjálfa arabísku herflokkana. Einnig er þar krafa um að leiðtogar herflokkanna verði settir í farbann og er stjórninni í Súdan gefinn 30 daga frestur til að stöðva alla starfsemi herflokkanna. Stjórnvöld í Súdan hafa samþykkt að fjarlægja allar hindranir sem standa í vegi mannúðarsamtaka, en þau höfðu áður ákveðið að einungis súdönsk mannúðarsamtök mættu ferðast um átakasvæðið. Mannréttindasamtök segjast eiga erfitt með að taka loforð ríkisstjórnarinnar trúanleg, þar sem hún styðji við bakið á arabísku herflokkunum en súdönsk stjórnvöld þvertaka fyrir það. Súdan er enn á lista Bandaríkjamanna yfir þau lönd sem styðja hryðjuverk og eru diplómatísk samskipti ríkjanna tveggja mjög lítil.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×