Erlent

Þrír létust í Írak

Þrír fórust í sjálfsmorðsárás fyrir utan ráðningarstöð hers Íraka í Baqouba í dag. Í suðurhluta Bagdad sprakk einnig sprengja við heimili starfsmanns menntamálaráðuneytisins. Árásarmaðurinn í Baqouba ók bifreið sinni upp að ráðningarstöð hersins og sprengdi þar upp sjálfan sig og tvo unga Íraka sem hugðust bjóða sig fram til herþjónustu. Að sögn vitna hrópaði bílstjórinn „Mikill er máttur Guðs!“ áður en sprengjan sprakk. Reykmökkur og eldhaf reis upp frá bílnum aðeins fáeinum metrum utan við víggirðingar ráðningarstöðvarinnar. Í suðurhluta Bagdad slösuðust tveir í dag þegar uppreisnarmenn sprengdu upp anddyri Imads Mohammeds, starfsmanns menntamálaráðuneytis Íraka. Í kjölfarið fann Mohammed hótun merkta samtökum Jihads og eingyðistrúarmanna þar sem hótað var að drepa írakska lögreglumenn og alla þá sem vinna með Bandaríkjamönnum. Talið er að samtökin sem um ræðir tengist hryðjuverkahópi Abu Musabs al-Zarqawis sem fyrir skemmstu hótaði að lífláta Iyad Allawi, forsætisráðherra Íraks.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×