Innlent

Opna gestastofu á gosafmæli

Guðný og Ólafur. Fréttablaðið/Valli
Guðný og Ólafur. Fréttablaðið/Valli
Gestastofa með minjum, kvikmynd og ljósmyndum tengdum gosinu í Eyjafjallajökli verður opnuð neðan við Þjóðveg 1, andspænis Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum, 14. apríl. Þann dag er eitt ár liðið frá því gosið hófst.

„Ákveðið var um síðustu áramót að fara í þetta verkefni. Við viljum gjarnan kynna fyrir fólki hvernig eldgosið hagaði sér, hvernig við lifðum með því og hver framvindan hefur verið. Það er allt að því skylda okkar, þetta var heimsatburður," segir Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri, sem stendur að gestastofunni ásamt fjölskyldu sinni.

„Já, þó svo að um litlar hamfarir væri að ræða í samanburði við það sem nú hefur gerst í Japan sköpuðust þær aðstæður í fluginu að gosið hafði áhrif úti um allan heim," bætir kona hans, Guðný A. Valberg, við.

Daglega stoppar fjöldi hópferðabíla við vegamótin á Þorvaldseyri og marga ferðamenn þyrstir í fræðslu. Mynd/Ólafur Eggertsson
Húsið sem gestastofan er í hýsti áður vélaverkstæði. Inni hefur það verið málað í svörtum, gráum og rauðum litum í stíl við gosið. Á gólfinu er aska blönduð sementi og þar ofan á Kötlusteinteppi sem framleitt er í Vík. „Við fengum til liðs við okkur Björn G. Björnsson sýningarhönnuð, Ara Trausta Guðmundsson jarðeðlisfræðing, smiði, pípara, rafvirkja og dúklagningamann," lýsir Ólafur og segir verkefnið afar skemmtilegt.

Helsta fræðsluefni stofunnar verður heimildarmynd eftir Svein M. Sveinsson í Plúsfilm sem sýnir alla helstu þætti gossins og lífið á Þorvaldseyri bæði fyrir það og eftir. Auk þess verða þar jarðfræðilegar útskýringar og ýmislegt til minja og Guðný segir tvær dætur þeirra hjóna munu taka þátt í að miðla upplýsingum.

„Húsið er hitað upp með vatni úr eldfjallinu, við framleiðum rafmagn til að lýsa það upp og fólk getur bergt á vatni úr fjallinu," segir Ólafur og bætir við: „Svo fer fólk út á hlað og þar er veröldin."

gun@frettabladid.is

Gestastofan er við Þjóðveg 1, rétt vestan við Þorvaldseyri. Mynd/Ólafur Eggertsson
.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.