Innlent

Besti flokkurinn nær tveimur mönnum inn

Jón Gnarr.
Jón Gnarr. Mynd/Vilhelm Gunnarsson

Besti flokkurinn fengi 12,7 prósenta fylgi og tvo borgarfulltrúa yrði kosið til borgarstjórnar Reykjavíkur í dag samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins sem gerð var í gærkvöldi.

Sjálfstæðisflokkur, Samfylking og Vinstri græn halda óbreyttum fjölda borgarfulltrúa samkvæmt niðurstöðu könnunarinnar. Bæði Framsóknarflokkur og Frjálslyndir og óháðir, sem eru með einn borgarfulltrúa hvor, missa fulltrúa sína.

Sjálfstæðisflokkurinn nýtur stuðnings 39,4 prósenta kjósenda og fengi sjö borgarfulltrúa yrðu þetta niðurstöður kosninga. Samfylkingin mælist með 26,3 prósenta fylgi og fjóra borgarfulltrúa. Vinstri græn fengju 14,2 prósenta fylgi og tvo borgarfulltrúa.

Framsóknarflokkurinn nýtur samkvæmt könnuninni stuðnings 5,6 prósenta, og 1,5 prósent styðja Frjálslynda flokkinn. Nýtt framboð óháðra, undir forystu Ólafs F. Magnússonar borgarfulltrúa, mælist með stuðning 0,4 prósenta Reykvíkinga. Ekkert þessara framboða kæmi manni að samkvæmt könnuninni.

„Mér finnst þetta mjög gleðilegt," segir Jón Gnarr. „Ég hafði samt alveg búist við þessu. Við stefnum að því að ná fjórum mönnum inn. En þegar svona langt er til kosninga er bara mjög ánægjulegt að nýr flokkur fái þetta mikið fylgi. Líka af því þetta er yfirlýst grínframboð. Ég held að grínframboð hafi aldrei fengið meira en eitt prósent."

Flestir vilja sjá Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í stóli borgarstjóra að kosningunum loknum, samkvæmt könnuninni. Af þeim sem tóku afstöðu vilja 48,2 prósent að hún verði borgarstjóri áfram.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×