Fleiri fréttir

Hermönnum fjölgað ef þurfa þykir

Bresk yfirvöld greindu frá því í dag að þau myndu fjölga hermönnum í Írak ef þörf væri á, en ótti manna við borgarastyrjöld í landinu fer vaxandi. Í sjónvarpsviðtali í dag sagði John Reid, varnarmálaráðherra Bretlands, að ekki væri þörf á meiri mannskap þessa stundina en ef ástandið í Írak versnaði yrði hermönnum fjölgað.

Blair aftur upp á kant við BBC

Svo virðist sem Tony Blair, forsætisráðherra Bretlans, sé aftur kominn upp á kant við breska ríkissútvarpið BBC og þetta sinn vegna frétta BBC af fellibylnum Katrínu. Fjölmiðlakóngurinn Rupert Murdoch, sem á meðal annars götublaðið Sun og Sky-sjónvarpsstöðvarnar, greindi frá því í ræðu í New York í gær að Blair hefði tjáð sér á dögunum að honum fyndist umfjöllun BBC um náttúruhamfarirnar í suðurríkjum Bandaríkjanna uppfull af hatri í garð Bandaríkjanna.

Vinna að ályktun vegna Írans hafin

Evrópusambandsríkin þrjú sem staðið hafa í samningaviðræðum við Írana um kjarnorkuáætlun þeirra hafa þegar hafið vinnu að ályktun um að vísa málinu til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þetta hefur Reuters-fréttastofan eftir erindreka innan ESB sem vinnur að málinu.

Lítið mannfall á kosningadag

Þingkosningar fóru fram í Afganistan í dag án þess að uppreisnarmenn næðu að valda miklum skaða. Kjörstöðum var lokað klukkan fjögur að afgönskum tíma og segja yfirvöld að kjörsókn hafi verið jöfn og stöðug allan daginn þótt ekki sé talið að jafnmargir hafi kosið og nú og í forsetakosningunum í fyrra, en þá var kjörsókn rúmlega 70 prósent.

Tala látinna nálgast 900

Tala látinna í hamförunum í suðurríkjum Bandaríkjanna nálgast nú 900 og enn finnast lík á þeim svæðum þar sem vatn flæddi yfir allt. Yfirvöld í Louisana, sem varð verst úti í hamförunum, tilkynntu í dag að 646 hefðu látist af völdum fellibylsins Katrínar, en tæplega 70 manns hafa fundist látnir síðustu tvo daga. Þá eru 218 sagðir hafa látist í Mississippi og 19 í Flórída, Alabama, Georgíu og Tennessee.

Fólk snúi ekki strax til baka

Thad Allen, yfirmaður björgunarmála á hamfarasvæðunum við suðurströnd Bandaríkjanna, ráðleggur fólki frá því að snúa strax aftur til New Orleans, en það er þvert á yfirlýsingar borgarstjórans Rays Nagins sem tilkynnti í gær að til stæði að hleypa um 200 þúsund manns aftur inn í borgina á næstu tíu dögum.

Naumur sigur stjórnarandstöðu

Kristilegir demókratar, flokkur Angelu Merkel, fá flest atkvæði í þingkosningunum í Þýskalandi en ekki nóg til þess að mynda stjórn hægri- og miðflokka, ef marka má útgönguspár sem birtar voru í Þýskalandi fyrir stundu. Stjórn Gerhards Schröders virði því fallin en möguleikar á stjórnarmyndun eru ekki margir. 

Hamas-liðar gengu um götur

Þúsundir Hamas-liða gengu um götur Gasaborgar í dag og virtu að vettugi bann palestínskra stjórnvalda um vopnaburð á götum úti. Hamas-liðarnir gengu um með riffla, eldflaugar og sprengjur og var ákaft fagnað af tugum þúsunda manna sem fylgdust með þeim. Mótmælin verða viku eftir að Ísraelar drógu sig algjörlega út af Gasaströndinni í samræmi við samkomulag Ísraela og Palestínumanna.

Hægri- og miðstjórn ekki mynduð

Angela Markel, leiðtogi Kristilegra demókrata, sagðist búast við því að henni yrði falið að mynda nýja ríkisstjórn í Þýskalandi, en samkvæmt útgönguspám virðist stjórn Gerhards Schröders kanslara fallin. Hún viðurkenndi þó að kristilegir demókratar virtust ekki ætla að ná markmiði sínu um meirihlutastjórn hægri- og miðflokka því samkvæmt útgönguspám fá Kristilegir demókratar og Frjálslyndir demókratar aðeins 47 prósent atkvæða.

Vara við hugsanlegum fellibyl

Veðurfræðingar við Mexíkóflóa fylgjast nú með hitabeltislægð sem hugsanlega getur orðið að hitabeltisstormi síðar í dag og jafnvel að fellibyl á næstu dögum. Lægðin gæti breyst í hitabeltisstorminn Ritu í kvöld og fellibyl á þriðjudag þegar hún fer á milli Florida Keys eyjanna og Kúbu, eftir því sem Fellibyljastofnun Bandaríkjanna greinir frá.

Sharon og Abbas funda 2. október

Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, greindi frá því í ræðu í New York í dag að hann myndi hittast Mahmoud Abbas, leiðtoga Palestínumanna, 2. október næstkomandi. Þar sagðist Sharon ætla hvetja Abbas til að standa við þær skuldbindingar sem kveðið væri á um í hinum svokallaða vegvísi til friðar, ellegar myndi ekkert þokast í friðarátt og ekki hylla undir sjálfstætt ríki Palestínu.

Sökuð um aðskilnaðarstefnu

Forseti Írans segir þjóð sína hafa fullan rétt til að framleiða kjarnorku. Hann sakar vesturveldin um kjarnorkuaðskilnaðarstefnu, þar sem sumum löndum sé heimilt að auðga úran og öðrum ekki.

Skýstrókur í München

Nokkuð óvenjuleg sjón blasti við íbúum í grennd við München í Þýskalandi í dag. Skýstrókur gekk yfir svæðið við Starnberger-vatn og reyndist það töluvert sjónarspil. Þrátt fyrir að strókurinn væri nokkuð öflugur á tímabili olli hann ekki alvarlegu tjóni. Veðurfræðingar höfðu varað við að skýstrókur kynni að ganga yfir vegna slæms veður.

Fyrstu þingkosingar í um 30 ár

Um tugur manna féll í átökum sem brutust út við kjörstaði í Afganistan í dag. Kosið var til þings í landinu í fyrsta skipti í um þrjá áratugi.

Erfitt verður að mynda stjórn

Yfir 60 milljónir kjósenda höfðu kost á að greiða atkvæði til klukkan sex að staðartíma og metfjöldi nýtti sér það. Fyrstu útgönguspár benda til að niðurstaðan verði önnur en menn bjuggust við og það gæti reynst erfitt að mynda stjórn.

Merkel bíða mörg verkefni

Angela Merkel, leiðtogi Kristilegra demókrata, verður næsti kanslari Þýskalands ef marka má útgönguspár eftir þingkosningar. Hennar bíða mörg verkefni.

Hætta ekki kjarnorkuframleiðslu

Forseti Íran, Mahmoud Ahmadinejad, nýtti sér vettvang þings Sameinuðu þjóðanna til þess að lýsa því yfir að Íranar myndu ekki þiggja tilboð Evrópuþjóða um efnahagsaðstoð samþykki Íranar að hætta framleiðslu á auðguðu úraníumi sem nota má til framleiðslu kjarnorkuvopna.

Erfitt gæti orðið að mynda stjórn

Samsteypa stóru fylkinganna tveggja þykir eftir þýsku kosningarnar í gær líklegri en þriggja flokka stjórn. Tíma gæti þó tekið að ná þeirri lendingu. Nýi Vinstriflokkurinn vill frekar vera í minnihluta en styðja stjórn jafnaðarmanna og græningja.

Spenna í Þýskalandi vegna kosninga

Mikil spenna ríkir í Þýskalandi vegna kosninganna til sambandsþingsins sem haldnar verða á morgun. Á lokasprettinum fyrir kosningarnar hefur dregið töluvert saman með stjórn og stjórnarandstöðu og samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum er ljóst að á brattan verður að sækja, bæði fyrir Gerhard Schröder, kanslara og leiðtoga Jafnaðarmanna, og Angelu Merkel, leiðtoga Kristilegra demókrata, þar sem gríðarlega margir kjósendur hafa ekki enn gert upp hug sinn.

Boðar niðurskurð vegna hamfara

George Bush, forseti Bandaríkjanna, segir að stjórnvöld í Bandaríkjunum verði að grípa til niðurskurðar á einhverjum sviðum til að geta greitt kostnaðinn sem hlýst af uppbyggingunni á hamfarasvæðunum í suðurhluta Bandaríkjanna. Forsetinn segir ljóst að uppbyggingin komi til með að kosta gríðarlega mikla peninga, en hann gefur að svo stöddu ekki upp hvar verði skorið niður í efnahagslífinu til að mæta þeim kostnaði.

Fundu níu lík í Bagdad í morgun

Lögregla í Bagdad hefur í morgun fundið lík af níu manns á þremur stöðum í borginni, en fólkið virðist allt hafa verið tekið af lífi með skoti í höfuðið og brjóstið. Þá lést einn Íraki og 17 særðust, þar af þrír hermenn, þegar sjálfsmorðsárásarmaður sprengdi bíl sinn í loft upp nærri hermönnum á eftirlitsferð í bænum Bakúba.

Niðurskurður vegna uppbyggingar

George Bush, forseti Bandaríkjanna, segir að stjórnvöld í Bandaríkjunum verði að grípa til niðurskurðar til að geta greitt kostnaðinn sem hlýst af uppbyggingunni á hamfarasvæðunum í suðurhluta Bandaríkjanna.

Blaðamaður handtekinn á Spáni

Lögregla á Spáni hefur nú fréttamann á vegum arabísku sjónvarpsstöðvarinnar Al-Jazeera í haldi vegna gruns um að hann tengist al-Qaida hryðjuverkasamtökunum. Fréttamaðurinn Tayseer Alouni, sem hefur bæði sýrlenskan og spænskan ríkisborgararétt, er sakaður um að hafa nýtt sér stöðu sína í Afganistan og útvegað al-Qaida liðum þar í landi fé til að halda uppi árásum.

Kenna fluguveiði í barnaskóla

Grunnskólinn í Shrop-skíri í Englandi hefur tekið upp fluguveiði sem eina af skyldugreinunum í skólanum og er þar með fyrstur ríkisskóla í landinu til að setja þá iðju inn í námsskrána. Það eru nemendur á aldrinum ellefu til þrettán ára sem fá að sækja fluguveiðitíma, en kennarar telja að veiðinámið hafi jákvæð áhrif á krakkana og hjálpi þeim að þróa með sér eldmóð og ákafa.

Bjó með látinni móður í fimm ár

Það blasti heldur ófögur sjón við lögreglumönnum í Marseille í Frakklandi á dögunum þegar þeir bönkuðu upp á hjá manni þar í borg vegna uppsafnaðra ógreiddra reikninga. Innan um hauga að drasli fundu þeir lík sem reyndist vera af látinni móður mannsins, en hún hafði verið látin í fimm ár.

Mjótt á mununum í Þýskalandi

Stemningin á lokasprettinum fyrir kosningar í Þýskalandi virðist heldur vera stjórnarandstöðunni í hag. Munurinn er þó ekki mikill og enn óvíst að hægt verði að mynda starfhæfa stjórn eins og staðan er. Nokkur þúsund atkvæði gætu skipt sköpum.

Reyndu að sprengja upp stíflu

Tuttugu uppreisnarmenn voru handteknir í Suður-Afganistan í morgun þegar þeir reyndu að sprengja stíflu í loft upp. Stíflan er sú strærsta í landinu og við hana er virkjun sem sér einni stærstu borg Afganistans, Kandahar, fyrir raforku. Að sögn lögreglu voru vopn og sprengiefni gerð upptæk við handtökurnar.

Einn lést í sprengingu í Beirút

Einn lést og meira en tuttugu særðust í sprengingu í hverfi kristinna í Beirút, höfuðborg Líbanons, í gærkvöld. Sprengjunni var komið fyrir í tösku undir bíl í hverfinu og var hún svo öflug að spengingin heyrðist um allan borg. Þetta er í sjöunda sinn sem sprengja springur í hverfi kristinna í Beirút frá því í febrúar en alls hafa fjórir látist í tilræðunum og um hundrað slasast.

Októberfest hafin í Þýskalandi

Þúsundir bjórþyrstra Þjóðverja streyma nú til München þar sem hin árlega Októberfest hófst í dag. Áhyggjur af atvinnuleysi og efnahagsstöðnun í aðdraganda í þingkosninga sem fram fara á morgun voru látnar víkja fyrir miðinum í dag en gestir á hátíðinni segjast engu að síður ætla að neyta atkvæðisréttar síns á morgun.

Íbúum brátt leyft að snúa aftur

Yfirvöld í New Orleans munu leyfa fyrstu íbúunum að snúa til síns heima á mánudag, þremur vikum eftir yfirreið fellibylsins Katrínar þar um slóðir. Algjör eyðilegging blasir víða við og þá ganga hermenn um götur borgarinnar til þess að koma í veg fyrir rán og gripdeildir.

Mótmæltu kapítalisma í Moskvu

Um þúsund ungir róttæklingar gengu um götur Moskvu í dag og mótmæltu kapítalisma og kröfðust sósíalisma og frelsis í landinu. Það voru hópar kommúnista og þjóðernissinna sem skipulögðu mótmælin, en þeim líkar illa hvernig málum er komið í Rússlandi. Þess var auk þess krafist að Vladímír Pútín, forseta Rússlands, færi frá völdum.

Vann 5,6 milljarða í lottói

Atvinnulaus Frakki í Val d´Oise nærri París datt heldur betur í lukkupottinn í dag þegar hann vann andvirði um 5,6 milljarða króna í Evrópulottóinu ásamt einu af sjö börnum sínum. Peningarnir koma eflaust að góðum notum, en tölurnar á lottóseðlinum voru valdar út frá aldri fjölskyldumeðlima.

Varaði við útbreiðslu kjarnavopna

Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, varaði í dag við útbreiðslu kjarnavopna og hryðjuverka í ávarpi sínu á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í New York. Annan sagði að hættan á því að kjarnorkuvopn kæmust í hendur hryðjuverkamanna ykist með degi hverjum og því mætti ekki tefla á tæpasta vað með það að leita diplómatískra lausna.

Mannskæð árás í Bagdad

Að minnsta kosti 30 létust og 38 særðust í bílsprengjuárás á markaði í hverfi fátækra í Bagdad fyrir stundu. Ekki er ljóst hver stóð fyrir árásinni en <em>Reuters</em>-fréttastofan hefur eftir lögreglu í Bagdad að ekki hafi verið um sjálfsmorðsárás að ræða heldur hafi bíl verið lagt á torgi og hann sprengdur í loft upp.

Reyndi að fljúga á turn í Auckland

Flugmaður, sem stal lítilli flugvél í Auckland í Nýja-Sjálandi í dag, endaði ferðina í sjónum fyrir utan borgina eftir að hafa hótað að fljúga vélinni á Sky Tower, eitt helsta kennileiti borgarinnar. Maðurinn stal vélinni á flugvelli suður af borginni og þegar flugmálayfirvöld náðu sambandi við hann hótaði hann að fljúga á hinn 328 metra háa turn þar sem m.a. er að finna spilavíti og hótel.

Reyna að heilla óákveðna kjósendur

Nú þegar aðeins einn dagur er til þingkosninga í Þýskalandi keppast flokksleiðtogarnir við að vinna óákveðna kjósendur á sitt band. Gerhard Schröder, kanslari, segir Jafnaðarmannaflokki hans best treystandi fyrir framtíð landsins, en Angela Merkel, leiðtogi Kristilegra demókrata, sakar hann um svikin loforð.

Talibanar mótmæla kosningum

Glæpa- og ofbeldisalda hefur gengið yfir Afganistan að undanförnu vegna kosninganna sem haldnar eru í dag. Tuttugu Talibanar voru staðnir að verki þegar þeir reyndu að koma fyrir sprengju hjá stíflu. Hefði hún sprungið hefði mörgum þúsundum mannslífa verið stofnað í hættu.

Talinn tengjast al-kaída

Spænska lögreglan hefur handtekið fréttamann Al-Jazeera fréttastöðvarinnar. Hann hefur verið ákærður fyrir að tengjast hryðjuverkasamtökunum al-kaída.

Fluguveiði gegn námsleiða

Námsleiði hrjáir ekki lengur nemendur í grunnskólanum í bænum Wem í Shrop-skíri á Englandi. Eftir að fluguveiði var gerð að skyldugrein, hlakka þeir til hvers skóladags.

Fjórðungur kjósenda óákveðinn

Þýskir stjórnmálamenn héldu ótrauðir áfram kosningabaráttunni í gær. Mjótt er á mununum en 25 prósent kjósenda eru enn óákveðin. Kosið verður í dag.

Lýsti yfir framboði Íslands til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna

"Að endingu, herra forseti, er það trú okkar að Ísland geti lagt sitt af mörkum til friðar og velferðar allra aðildarríkjanna. Þess vegna sækist Ísland í fyrsta skipti eftir sæti í öryggisráðinu á kjörtímabilinu 2009-2010," sagði Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra í ávarpi sem hann flutti leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í New York í kvöld.

Viðurkenndi mistök stjórnvalda

George Bush Bandaríkjaforseti viðurkenndi í gær að öll stig stjórnkerfisins hefðu brugðist eftir hamfarirnar við Mexíkóflóa. Hann sagði í sjónvarpsræðu í gærkvöldi að vandinn hefði reynst yfirþyrmandi fyrir þunglamalegt kerfi sem þyrfti að bæta. Hann bæri á endanum sjálfur ábyrgðina sem forseti landsins og það væri einnig í hans höndum að finna lausnina.

Ráðist á verkamenn í Írak

Uppreisnarmenn í Írak skutu þrjá verkamenn til bana í Bagdad í morgun og særðu fimmtán til viðbótar. Aðeins tveir dagar eru síðan sjálfsmorðsárásarmaður ók að hópi verkamanna á svipuðum slóðum í höfuðborginni með þeim afleiðingum að meira en hundrað létu lífið. Hrina árása er hafin í landinu eftir að Abu Musab al-Zarqawi, yfirmaður al-Qaida í Írak, lýsti yfir stríði á hendur sjítum í fyrradag.

Minnihluti hyggst snúa aftur

Minna en helmingur íbúa New Orleans sem hefst við í öðrum borgum ætlar að snúa aftur. Samkvæmt nýrri könnun sem unnin var fyrir dagblaðið <em>Washington Post</em> ætla aðeins 43 prósent íbúanna að snúa aftur en 44 prósent þeirra ætla að koma sér upp heimili annars staðar. Þrátt fyrir að hafa misst heimili sín sögðust níu af hverjum tíu vongóðir um bjarta framtíð.

Sjá næstu 50 fréttir