Erlent

Niðurskurður vegna uppbyggingar

MYND/AP
George Bush, forseti Bandaríkjanna, segir að stjórnvöld í Bandaríkjunum verði að grípa til niðurskurðar til að geta greitt kostnaðinn sem hlýst af uppbyggingunni á hamfarasvæðunum í suðurhluta Bandaríkjanna. Aðeins einum degi eftir að George Bush, forseti Bandaríkjanna, hét einhverri mestu uppbyggingu sögunnar á hamfarasvæðunum við Mexíkóflóa segir hann að til slíkra aðgerða verði ekki gripið nema með víðtækum niðurskurði annars staðar. Á sama tíma og áhyggjur repúblikana fara vaxandi yfir kostnaðinum vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar undirstrikar forsetinn að hægt verði að standa við gefin loforð án þess að grípa til skattahækkana. Bush segir ljóst að það kosti mikla peninga að endurreisa eyðilagðar borgir og byggðir en hann segist sannfærður um að stjórnvöldum takist að halda utan um það mikilvæga verkefni. Skynsemin verði látin ráða í þessum efnum og að ekki verði farið út í nokkrar aðgerðir nema að vel athuguðu máli. Fundist hafa um 800 lík á flóðasvæðunum í suðurhluta Bandaríkjanna þar sem fellibylurinn Katrín reið yfir. Þótt Bandaríkjaforseti hafa ekki sett verðmiða á kostnaðinn vegna uppbyggingarinnar telja fulltrúar á Bandaríkjaþingi að það kosti á endanum í kringum 200 milljarða bandaríkjadala, jafnvirði tólf þúsund milljarða íslenskra króna, að hreinsa og byggja upp heilbrigðiskerfi, heimili og skóla á svæðunum. Karl Rove, starfsmannastjóri Hvíta hússins, Claude Allen, helsti ráðgjafi Bush í innanríkismálum, og Michael Chertoff, heimavarnaráðherra, hafa nú uppbyggingaráform forsetans til skoðunar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×