Erlent

Erfitt gæti orðið að mynda stjórn

Í Þýskalandi óttast menn skammlífa stjórn og erfiðar og langvinnar stjórnarmyndunarviðræður eftir kosningarnar í gær, en ljóst er að stjórn jafnaðarmanna og græningja er fallin. Kjörsókn var svipuð og síðast, eða undir 80 prósentum, þannig að jöfn staða stóru fylkinganna náði ekki að draga fólk á kjörstað. Angela Merkel náði ekki meirihlutanum sem hún vonaðist eftir og þó svo að hún fái umboð til stjórnarmyndunar er óvíst að henni gangi vel að fá aðra flokka til samstarfs. Tölur í gær sýndu að bæði meirihlutasamstarf hægri og miðjuflokka og miðju- og vinstriflokka er út úr myndinni. Því þyrfti að fara nýjar leiðir í stjórnarmyndun, eða þá að mynduð yrði minnihlutastjórn, en sú staða hefur ekki komið upp áður á landsvísu í Þýskalandi. Gerhard Schröder kanslari var í gær ófáanlegur til að játa sig sigraðan og sagðist enn myndu geta leitt næstu ríkisstjórn. Helst er horft til þess að stóru fylkingarnar tvær með Merkel og Schröder í broddi fylkingar nái saman um stjórnarsamstarf, en þó telja margir að það gæti tekið nokkurn tíma að ná þeirri lendingu. Búist er við að Merkel byrji með stjórnarmyndunarumboð, en til að Schröder fái kanslaraembættið, þyrfti henni fyrst að mistakast og hann tæki þá við umboðinu. Þá eru uppi nokkrar efasemdir um að flokkarnir gætu náð saman í stórum málum og gæti slík stjórn þýtt að frestur yrði á aðgerðum til efnahagsumbóta í landinu. Vinstristjórn með jafnaðarmönnum, græningjum og nýja Vinstriflokknum þykir hins vegar ólíkleg þar sem Óskar Lafontaine hefur alfarið hafnað því að geta unnið með Schröder. Þá hafa Merkel og Schröder bæði sagt samstarf við Lafontaine útilokað. Þá hefur verið talað um mögulega "umferðarljósastjórn" en þar er vísað til flokkslista jafnaðarmanna, græningja og frjálslyndra demókrata (rauður, grænn og gulur). Guido Westerwelle, leiðtogi frjálslyndra, hefur hins vegar frekar sagst vilja vera í minnihluta en taka þátt í slíku samstarfi. Þá væri möguleg hægristjórn með vinstrisveiflu þar sem kristilegir demókratar og frjálslyndir nytu stuðnings græningja. Frjálslyndir og græningjar hafa lengi eldað grátt silfur, en í slíkri stjórn hefðu þó báðir smáflokkarnir möguleika á að vera í stjórn, hversu ólíklegt sem slíkt samstarf annars kynni að vera.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×