Fleiri fréttir

Slökkvilið Akraness berst við sinueld

Slökkviliðið á Akranesi reynir nú að ráða niðurlögum sinuelds nálægt járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga. Mikinn reyk leggur í átt að Akrafjalli en hann hefur þó ekki áhrif á umferð. Lögreglan segir hvorki mannvirkjum né fólki stafa hættu af sinubrunanum. Þá má geta þess að umferð er orðin afar þung á þessum slóðum og bíll við bíl á Kjalarnesi allt að Hvalfjarðargöngum.

Verslunin Sævar Karl seld

Erla Þórarinsdóttir og Sævar Karl Ólason klæðskeri hafa selt fataverslun sína, Sævar Karl Bankastræti. Hlutur hjónanna í Bankastræti 7 sem hýst hefur verslun Sævars Karls um árabil fylgir með í kaupunum. Kaupverðið er trúnaðarmál.

Fjögurra bíla árekstur á Vesturlandsvegi

Fjögurra bíla árekstur varð nú rétt fyrir klukkan sex á Vesturlandsvegi við Þingvallaveg. Minniháttar slys urðu á fólki. Búast má við einhverjum töfum á meðan verið er að koma bílunum í burtu en þeir skemmdust mikið.

Alvarlegt umferðarslys varð við Gjábakka í dag

Alvarlegt umferðarslys varð á Gjábakkavegi skammt frá Þingvöllum um eittleytið í dag. Kallað var eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar þar sem óttast var að kona sem í slysinu lenti hefði innvortis blæðingar. Þyrlan fór með hana á Landsspítalann í Fossvogi. Ekki er vitað um ástand hennar að svo stöddu.

Gagnrýna að fyrrverandi starfsmaður Hafró meti rannsóknir

Það orkar tvímælis að sjávarútvegsráðherra hafi fengið einstakling sem starfað hefur hjá Hafró til að stýra nefnd sem meðal annars á að benda á hvaða rannsóknir á þorskstofninum skorti. Þetta segir reynslumikill skipstjóri sem segir ljóst að ráðgjöf stofnunarinnar hafi ekki skilað sér.

Slökkviliðið biður fólk að fara varlega með eld

Slökkvilið Borgarness var kallað út tvisvar í nótt vegna sinuelda og tókst í báðum tilvikum að slökkva áður en eldurinn næði útbreiðslu. Allur jarðvegur á svæðinu er mjög þurr og eldfimur og báða sinueldana má rekja til kæruleysis ferðamanna. Slökkviliðið hvetur fólk því til þess að fara varlega með allan eld á svæðinu.Annar eldurinn kviknaði út frá grilli sem skilið var eftir og hinn útfrá sígarettu sem einhver hafði kastað frá sér.

Félagsmálaráðherra gagnrýnir hávaxtastefnu Seðlabankans

Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra gagnrýnir hávaxtastefnu Seðlabankans og segir að hún gangi ekki til lengdar. Í viðtali við Morgunblaðið í dag segir hún að háir stýrivextir séu íþyngjandi fyrir almenning og smá og meðalastór fyrirtæki. Aftur á móti geti stórfyrirtækin að mestu leyti fjármagnað sig með erlendum lánum og sleppi því við háu vextina.

Flassari á ferð í Víðidal í gærkvöldi

Karlmaður var handtekinn í Víðidal í Reykjavík í gærkvöldi eftir að hafa sært blygðunarsemi konu, með því að bera kynfæri sín í þann mund að þau mættust á gangstíg í dalnum. Manninum var sleppt að yfirheyrslum loknum, en verður kærður fyrir blygðunarsemisbrot.

Óttuðust heilablóðfall

Kallað var eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar til að sækja konu að Arnarstapa á Snæfellsnesi, þar sem óttast var að hún hefði fengið heilablóðfall. Læknir var sendur frá Ólafsvík og eftir að hann hafði skoðað konuna var aðstoð þyrlunnar afturkölluð og konan flutt á heilsugæslustöð, þar sem hún náði sér.

Slökkviliðið tók pottinn af hellunni

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað að fjölbýlishúsi við Kjarrhólma undir morgun þar sem reykjarlykt lagði frá íbúð og barst um stigaganginn. Lögeglumenn sem komu fyrstir á vettvang brutu sér leið inn í íbúðina, sem reyndist mannlaus, en reykjarbræla stóð upp úr potti, sem gleymst hafði á logandi eldavélarhellu. Slökkviliðið reykræsti íbúðina og stigaganginn, en skemmdir urðu í íbúðinni af völdum reyks.

Þrír rotuðu einn í miðbænum í nótt

Þrír karlmenn réðust að manni fyrir utan veitingahús við Tryggvagötu í Reykjavík upp úr klukkan fimm í morgun og rotuðu hann. Lögregla kom á vettvang og náði að handtaka tvo árásarmannanna, en sá rotaði var fluttur á Slysadeild Landsspítalans, þar sem hann komst til meðvitundar og jafnaði sig. Hann mun ekki vera alvarlega meiddur.

Tveir mótmælendur enn í haldi lögreglu

Tveir mótmælendur, á vegum samtakanna Saving Iceland, eru enn í haldi lögreglunnar eftir átök milli þeirra og lögreglu í gær. Alls voru fimm handteknir eftir að hópurinn stöðvaði umferð í miðborg Reykjavíkur. Lögregla sleppti tveimur nú rétt eftir hádegið í dag.

Einar Oddur Kristjánsson látinn

Einar Oddur Kristjánsson Alþingismaður er látinn. Hann varð bráðkvaddur í fjallgöngu á Kaldbak, á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar, laust fyrir hádegi í gær. Geir H. Haarde forsætirráðherra minnist Einars Odds sem baráttumanns og áhrifamanns í stjórnmálum og atvinnulífi.

Fagnaðarfundir á Grensásdeild

Það var hógvær en tilfinningarík stund þegar þau Þráinn og Valgerður hittust á Grensásdeild í dag - í fyrsta sinn eftir slysið í vetur og Valgerður sá nú bjargvætt sinn í fyrsta sinn, svo hún muni.

Óttaðist um líf sitt vegna umferðar

Vegfarandi, sem bjargaði lífi liðlega tvítugrar konu, þar sem hún sat föst í bílflaki sínu eftir árekstur, segist sjálfur hafa verið farinn að óttast um líf sitt vegna skeytingaleysis annarra vegfarenda, sem óku hjá á fullri ferð.

Flýgur heim í kvöld í einkaflugvél

Nítján ára íslenskur karlmaður sem slasaðist þegar hann fór út um glugga á annarri hæð hótels í Amsterdam verður fluttur heim til Íslands með einkaflugvél í kvöld. Pilturinn var undir áhrifum ofskynjunarsveppa þegar atvikið átti sér stað.

Olíuhreinsistöð bjargar Vestfjörðum frá hruni

Flosi Jakobsson útgerðarmaður í Bolungarvík segir að olíuhreinsistöð geti bjargað fjórðungnum frá algjöru hruni. Vestfirðingar eru ekki á einu máli um ágæti slíks stóriðnaðar fyrir vestan.

Bónus hefur ægivald á matvælamarkaðnum

Formaður Neytendasamtakanna segir Bónus hafa ægivald á matvælamarkaðnum hér á landi og vill að betur sé fylgst með samkeppni á matvælamarkaðnum. Íslendingar greiða að meðaltali rúmlega sextíu prósent hærra verð fyrir mat- og drykkjarvörur en íbúar ríkja Evrópusambandsins greiða fyrir sömu vörur.

Starfsfólkið í Straumsvík sterkara en Rio Tinto

Starfsmenn í álverinu í Straumsvík óttast ekki nýja húsbændur frá Rio Tinto sem Andri Snær Magnason rithöfundur kallar versta fyrirtæki í heimi. Sigurjón Vigfússon, starfandi aðaltrúnaðarmaður í álverinu í Straumsvík, segir að staða Straumsvíkur breytist ekkert þótt Rio Tinto komi að rekstrinum sem nýr eigandi. Sigurjón segir að starfsfólk í álverinu sér sterkara en Rio Tinto.

Baldvin Halldórsson látinn

Baldvin Halldórsson, leikari og leikstjóri er látinn, 85 að aldri. Hann var einn af vinsælustu leikurum þjóðarinnar í rúma fjóra áratugi og lék nær tvö hundruð hlutverk á sviði Þjóðleikhússins. Þá var hann leikstjóri þar í rúm tuttugu ár. Eftirlifandi eiginkona hans er Vigdís Pálsdóttir og lætur hann eftir sig þrjú uppkomin börn.

Iðnaðarráðherra ekki hrifinn af olíuhreinsistöð

Iðnaðarráðherra er ekki hrifinn af þeim hugmyndum sem fram hafa komið um að setja niður olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Bæjarstjórinn á Ísafirði vill að kannað verði til þrautar hvort þessi iðnaður sé heppilegur.

Slapp ómeiddur úr brennandi íbúð

Maður slapp ómeiddur út um glugga á bakhlið á brennandi íbúð við Miklubraut, á móts við Miklatún, laust fyrir klukkan átta í morgun. Allt húsið var rýmt til öryggis.

Mikil aukning á akstri undir áhrifum fíkniefna

Lögreglan á Selfossi tók fjóra ökumenn úr umferð í nótt grunaða um akstur undir áhrifum fíkniefna eða lyfja, en aðeins einn vegna ölvunar. Þetta eru fleiri svona atvik á einni nóttu á Suðurlandi en nokkru sinni fyrr og til samanburðar var aðeins einn tekinn grunaður um ölvunarakstur á svæði lögreglunnar í Árnessýslu í nótt.

Skagfirðingar leggja til mótvægisaðgerðir

Skagfirðingar hafa þungar áhyggjur af þeim búsifjum sem sveitarfélagið verður fyrir við niðurskurð þorskkvóta. Byggðaráð sveitarfélagsins hefur því lagt fram lista yfir mótvægisaðgerðir sem það vill að ríkisvaldið grípi til og eru þær í 26 liðum. Lagt er til að háskólanám verði eflt í Skagafirði, að þar verði komið upp aðstöðu til kvikmyndagerðar og athugað verði hvort sveitarfélagið geti hýst netþjónabú.

Fjórir teknir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna

Lögreglan á Selfossi tók fjóra ökumenn úr umferð í nótt grunaða um akstur undir áhrifum fíkniefna eða lyfja. Þetta er óvenju mikill fjöldi slíkra atvika á einni nóttu á Suðurlandi og til samanburðar var aðeins einn tekinn grunaður um ölvunarakstur á svæði lögreglunnar í Árnessýslu í nótt.

Slapp ómeiddur úr brennandi íbúð

Maður slapp ómeiddur út um glugga á bakhlið á brennandi íbúð við Miklubraut, á móts við Miklatún, laust fyrir klukkan átta í morgun. Reykur meinaði honum útgöngu um dyrnar. Óttast var að tveir til viðbótar væru í íbúiðnni og voru sjö reykkafarar sendir inn en fundu engan.

Unglingapartý í Hafnarfirði leyst upp

Lögreglumenn handtóku tvær fimmtán ára stúlkur eftir að þær réðust á lögregluþjóna við skyldustörf í Hafnarfirði í nótt. Lögreglan hafði verið kölluð að húsi þar sem mikið fjölmenni var í unglingapartíi, sem olli nágrönnum ónæði. Húsráðandi reyndist vera 15 ára stúlka, sem umsvifalaust sló lögreglumann.

Fimm líkamsárásir í nótt

Fimm líkamsárásir komu til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt, þar af fjórar í miðborginni. Í einni þeirra var maður barinn með öflugu barefli, og var hann fluttur á Slysadeild, meðal annars með áverka á höfði. Árásarmaðurinn var handtekinn og gistir fangageymslur. Í hinum tilvikunum komust árásarmennirnir undan og fórnarlömbin meiddust minna.

Mikil umferð á þjóðveginum

Ljóst er að margir hafa ákveðið að nýta góða veðrið til að ferðast. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hefur umferð verið mjög mikil það sem af er degi. Bæði um Suðurlandsveg og Vesturlandsveg. Lögreglan segir að umferðin hafi gengið mjög vel en töluvert sé um hraðakstur. Í dag hafa hátt í þrjátíu ökumenn verið stöðvaðir fyrir að kitla pinnan í umdæmi lögreglunnar á Hvolsvelli.

Rio Tinto er verst í heimi

Andri Snær Magnason rithöfundur segir að Rio Tinto, nýr eigandi álversins í Straumsvík, sé versta fyrirtæki í heimi. Hann segir að það sé vel hugsanlegt að það komi á daginn að Íslendingar hafi fórnað miklum náttúruverðmætum fyrir þessa vondu menn. Oddur Ástráðsson ræddi við Andra Snæ í Íslandi í dag.

Lögreglan stöðvaði skapstóran ökumann

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði tvítugan ökumann á Hafnarfjarðarvegi í gær. Á bíl hans vantaði skráningarnúmer að framan. Hann hafði einnig trassað að færa ökutækið til skoðunar.

Matarveisla hjá fuglunum

Á meðan mávarnir sækja inn í land og ergja gesti við Reykjavíkurtjörn, var kríum og múkkum boðið til mikillar veislu í höfninni í Bolungarvík. Ufsastorfa barðist við kríur og múkka um sandsíli sem gengið hafði inn í höfnina. Sílastofninn virðist hruninn á við sunnan og suð-vestanvert landið.

Nauðsynlegt að draga úr brauðgjöfum á tjörninni

Ófrjósemislyf leysa ekki vandann af ágangi máva á Reykjavíkurtjörn að mati fuglafræðings. Eina leiðin er að draga úr brauðgjöfum yfir sumartímann. Borgaryfirvöld hafa ekki viljað banna brauðgjafir við tjörnina.

Fornleifarannsóknir á svæði álversins í Reyðafirði

Fornleifarannsóknir standa nú yfir á lóð álversins í Reyðarfirði, nánar tiltekið á hafnarsvæðinu. Fornleifarnar komu í ljós þegar framkvæmdir hófust á svæðinu, og hefur þeim því verið frestað á meðan rannsókn stendur yfir.

Þarf að halda sig inni vikum saman

Um tuttugu prósent ungmenna hér á landi þjást af mis alvarlegu grasfrjókornaofnæmi. Sumartíminn getur verið þeim afar erfiður. Í sumum tilfellum þarf fólk að halda sig inni svo vikum skiptir.

Hæl- og ristarbrotnaði þegar hann fór út um glugga

Nítján ára íslenskur karlmaður, sem var undir áhrifum ofskynjunarsveppa, hæl- og ristarbrotnaði á báðum fótum þegar hann fór út um glugga á annarri hæð hótels í Amsterdam. Ungi maðurinn er nú á sjúkrahúsi í Hollandi en faðir hans vonast til að hægt verði að flytja hann heim til Íslands um helgina.

Hemmi Gunn vill skapa 25 ný störf í Dýrafirði

Hermann Gunnarsson vill starfrækja sumarbúðir fyrir krakka á Núpi í Dýrafirði þar sem komið hefur til tals að setja niður olíuhreinisstöð. Bæjarstjórarnir á Ísafirði og í Bolungarvík eru mjög hlynntir hugmyndum Hermanns og vilja hrinda þeim í framkvæmd.

Rio Tinto skilur eftir sig blóði drifna slóð

Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi iðnaðarráðherra, segir að fyrirtækið RIO Tinto hafi blóði drifna slóð að baki sér en fyrirtækið er að sameinast kanadíska álfélaginu Alcan sem stendur að rekstri álversins í Straumsvík.

Árekstur á Vogavegi

Einn var fluttur á slysadeild Landspítalans eftir árekstur við Vogaveg hjá Vogum á Vatnsleysuströnd um fjögurleytið í dag. Að sögn lögreglunnar rákust tveir bílar saman er þeir komu úr gagnstæðri átt. Ökumaður annars þeirra var fluttur með sjúkraflutningum til Reykjavíkur. Talið er að meiðsli hans séu minniháttar.

Sjá næstu 50 fréttir