Fleiri fréttir

Nýtt ár hófst með róstum í Írak

Nýtt ár hófst með róstum í Írak í morgun. Tvær bílsprengjuárásir voru gerðar í Bagdad en til allrar lukku varð ekkert mannfall.

Áramótin gengu að mestu slysalaust fyrir sig.

Áramótin gengu að mestu slysalaust fyrir sig þetta árið og víðast um land segir lögregla áramótin óvenjugóð þetta árið. Maður situr í fangageymslum lögreglunnar í Reykjavík vegna gruns um nauðgun á skemmtistað í Austurborginni. Ungur drengur var fluttur með sjúkraflugi frá Patreksfirði til Reykjavíkur vegna áverka í andliti eftir flugeldaskot.

Mikill eldur gaus upp í flugeldasölu í Hveragerði á Gamlársdag

Mikill eldur gaus upp í flugeldasölu í Hveragerði á gamlársdag. Tjón björgunarsveitarinnar á staðnum er gríðarlegt, en húsið er ónýtt og allur búnaður hjálparsveitarinnar. Þrír fengu snert af reykeitrun og einn brákaðast á fæti þegar hann braut sér og börnum sínum leið út úr húsinu.

Fyrsta barn ársins í Reykjavík

Þrjátíu og fjórum mínútum eftir að nýja árið gekk í garð kom fyrsta barn ársins í heiminn. Barnið, sem er drengur, var sextán merkur og fimmtíu og tveir sentimetrar og gekk fæðingin vel.

Matvælaverð óviðunandi hærra að mati forsætisráðherra

Forsætisráðherra telur óviðunandi að matvælaverð hér á landi sé hærra en í nágrannalöndunum. Hann tilkynnti þjóðinni í gærkvöld að gerðar yrðu ráðstafanir til að leiðrétta það. Þá boðar forsætisráðherra að átak verði gert í málefnum öryrkja.

Búnaður björgunarsveitarinnar nær ónýtur

Mikil mildi þykir að ekki hafi farið verr þegar eldur kviknaði í flugeldum í húsnæði Hjálparsveitar skáta í Hveragerði í dag. Um tíu manns voru inni í húsinu að versla flugelda fyrir kvöldið þegar slysið varð.

Um 53% þjóðarinnar styður ríkisstjórnina

Sjálfstæðisflokkurinn nýtur stuðnings tæplega 42% kjósenda samkvæmt könnun Gallups í desember. Samfylkingin nýtur stuðnings 27% landsmanna, Vinstri hreyfingin Grænt framboð hefur tæplega 18% fylgi og um 11% styðja Framsóknarflokkinn. Þá styður um 2% þjóðarinnar Frjálslynda flokkinn. Ríkisstjórnina styðja því um 53% þjóðarinnar samkvæmt könnuninni. Íslendingar eru bjartsýnir hvað varðar atvinnuástand í landinu á komandi ári, en þó eru þeir heldur svartsýnni á efnahagshorfur en þeir voru í fyrra.

Vel gengur að ráða niðurlögum eldsins

Vel gengur að ráða niðurlögum eldsins í Hveragerði en lögreglan á Selfossi segir þó að enn sé mikil sprengihætta og að erfitt sé að segja til um hvenær hættan sé liðin hjá. Svæðið hefur verið girt af en lögreglan biður þó fólk um að halda sig í hæfilegri fjarlægð. Samkvæmt lögreglunni kviknaði í þegar verið var að undirbúa flugeldasýningu en hvaða liður það var sem fór úrskeiðis sé of snemmt að segja til um.

Að minnsta kosti einn slasaður

Eldur kviknaði í flugeldasölu í í húsnæði björgunarsveitarinnar í Hveragerði í dag. Einn maður er slasaður en lítið var af fólki á staðnum þegar eldurinn kom upp. Talsverður eldur er í byggingunni en Slökkvilið í Hveragerði og á Selfossi er á staðnum. Þá var Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sett í viðbragðsstöðu. Lögreglan hefur girt svæðið af vegna sprengihættu en eldurinn mun hafa kviknað eftir að sprenging varð í byggingunni.

Svipað veður fram á þorra

Félagar í Veðurklúbbi Dalbæjar telja að veður verði svipað og það er nú fram á þorra. Þeir segja að það gæti kólnað dálítið frá 20. janúar og jörð hvítnað eitthvað en telja ekki ástæðu til að búast við vonskuveðri.

Freyðivín fyrir börn selst vel

Freyðivín fyrir börnin rokselst í verslunum Hagkaupa fyrir áramótin. Framkvæmdastjóri Hagkaupa segir freyðivínið á boðstólum til gamans svo börnin geti skálað með fullorðnum og fagnað nýju ári. Taka skal fram að freyðivínið er óáfengt.

Afli íslenskra skipa hefur ekki verið minni í tíu ár.

Afli íslenskra skipa hefur ekki verið minni í tíu ár. Aflinn er áætlaður 1.667 þúsund lestir en svo lítill hefur hann ekki verið síðan 1995 þegar hann var 1.605 þúsund lestir. Mestur var aflinn árið 1997 eða 2.199 þúsund lestir

40 manns sem fengu meðferð á Vogi létust á árinu

Fjörutíu manns sem fengu meðferð á Vogi á árinu létust fyrir aldur fram á fyrstu átta mánuðum ársins vegna ofneyslu vímuefna. Þar af létust níu fyrir fertugt. Margt þessa fólks hlaut voveiflegan dauðdaga að sögn yfirlæknis á Vogi. Þá bendir hann á að því fjölgi nú ört fullorðnu fólki, komið yfir þrítugt, sem leiti sér hjálpar vegna dagdrykkju.

Fer enn í reglulegar lýtaaðgerðir

Piltur sem slasaðist í andliti þegar flugeldur sprakk framan í hann fyrir þremur árum fer enn reglulega í augnaðgerðir til þess að laga lýti í kringum augun. Hann var svo heppinn að halda sjóninni og vill hann minna fólk á að fara varlega því allir geti lent í slysi sem þessu.

Kaldur vetur blasir við Úkraínumönnum

Kaldur vetur blasir við Úkraínumönnum ef svo fer sem horfir og skrúfað verður fyrir gas sem þeim berst með leiðslum frá Rússlandi. Þá er einnig óvíst um sölu á gasi til Evrópusambandslanda, því leiðslurnar frá Rússlandi fara um Úkraínu og í dag boðaði Evrópusambandið til neyðarfundar vegna þess

Niðurstaða komin í leikskólakennaradeiluna

Kjaradeila leikskólakennara og borgaryfirvalda tók á sig nýja mynd í dag á fundi deilenda í Ráðhúsinu. Niðurstaðan varð sú að deilendur fá þriggja vikna andrými til að leysa deiluna og móta hugmyndir um kjör leikskólakennara sem lagðar verði fyrir Launamálaráðstefnu sveitarfélaga þann 20. janúar næstkomandi.

Stjórnarandstaðan segir ríkisstjórnina hafa farið illa með tímann

Laun embættismanna hækka um tvö og hálft prósent eftir mánuð, en fram að því gildir úrskurður Kjaradóms. Stjórnarandstaðan segir ríkisstjórnina hafa farið illa með tímann og leysa hefði mátt málið fyrir áramót. Forseti ASÍ fagnar niðurstöðunni en skilur ekki hvers vegna beðið er með að láta hana taka gildi.

ALCAN svarar ásökunum starfsmanna

Forsvarsmenn Alcan hafa sent frá sér fréttatilkynningu þar sem þeir mótmæla fullyrðingum og ásökunum starfsmanna í garð fyrirtækisins og segja þær einfaldlega rangar.

Tvöfalda stærri hluta Reykjanesbrautar

Vegagerðin hefur boðið út tvöföldun Reykjanesbrautar milli Kópavogs og Hafnarfjarðar en verkið er unnið í samráði við bæjaryfirvöld í Kópavogi og Garðabæ.

Má heita Súla og Þrastar en ekki Arnsted

Súla og Beníta eru tvö nýjustu nöfnin í mannanafnaskrá. Mannanafnanefnd ákvað á síðasta fundi sínum að nöfnin tvö uppfylltu skilyrði laga um mannanöfn þar sem þau fallbeygjast og bætti þeim því í mannanafnaskrá.

Sex yfir þúsund tonnin

Sex krókaaflamarksbátar veiddu meira en þúsund tonn á árinu samkvæmt upplýsingum á vef Landssambands smábátaeigenda. Guðmundur Einarsson ÍS veiddi mest, alls 1.360 tonn, en næstur kom Hrólfur Einarsson ÍS með 1.346 tonn.

Keyptu fasteignir fyrir 300 milljarða

Landsmenn keyptu og seldu fasteignir fyrir um 300 milljarða króna á árinu sem nú er að líða að mati Fasteignamats ríkisins. Veltan í ár er sú mesta sem hefur nokkru sinni verið skráð hjá Fasteignamati ríkisins á einu ári. Í fyrra seldust fasteignir fyrir 226 milljarða króna en aukningin milli ára nemur 76 milljörðum eða þriðjungi heildarsölunnar í fyrra.

Erill hjá slökkviliði

Erill hefur verið hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins í dag. Dælubílar hafa fimm sinnum verið kallaðir út, slökkva hefur þurft eld í tveimur blaðagámum og bíl í Kirkjuteigi auk þess sem eldur kom upp í íbúð við Kambsveg en íbúa tókst að slökkva hann áður en slökkviliðið kom á staðinn.

Ríkisstjórnin klúðraði málinu

Klúður er orðið sem stjórnarandstæðingar nota yfir viðbrögð ríkisstjórnarinnar við úrskurði kjaradóms. Þeir eru afar ósáttir við að forystumenn ríkisstjórnarinnar vildu ekki kalla þing saman til að fresta gildistöku launahækkunar þingmanna og ráðherra.

Nýr kjarasamningur Vélstjórafélagsins, LÍÚ og SA

Vélstjórafélag Íslands, Landssamband íslenskra útvegsmanna og Samtök atvinnulífsins gerðu í dag nýjan kjarasamning um kjör vélstjóra á fiskiskipum. Kjarasamningurinn kemur í stað samnings aðilanna frá 2001 sem rennur út þann 31. desember 2005. Gildistími er til 31. maí 2008.

Fimmtán gefa kost á sér

Prófkjör sjálfstæðismanna í Kópavogi vegna framboðslista flokksins við bæjarstjórnarkosningar á komandi vori, verður haldið 21. janúar næstkomandi. Fimmtán manns gefa kost á sér í prófkjörinu.

Nýtt útgáfufélag tekur við Vikudegi

Hildingur ehf. sem er dótturfélag KEA, Kristján Kristjánsson, Birgir Guðmundsson og Ásprent Stíll hafa stofnað útgáfufélag sem keypt hefur allar eignir Vikudags á Akureyri og mun félagið hefja rekstur blaðsins frá og með áramótum. Kristján verður ritstjóri blaðsins og framkvæmdastjóri útgáfunnar.

Bréf í Dagsbrún rjúka upp

Hlutabréf í Dagsbrún hafa hækkað um rúmlega níu prósent í dag, eftir að tilkynnt var um breytingar í stjórn fyrirtækisins í morgun.

BUGL fær 1,5 milljónir

Ein og hálf milljón króna söfnuðust á styrktartónleikum sem haldnir voru af Lýsingu dagana 29. og 30. nóvember í Grafarvogskirkju. Allur ágóðinn rennur óskiptur til Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans.

Borgarstjóri skipar nefnd með leikskólakennurum vegna kjaramála

Á fundi Steinunnar Valdísar Óskarsdóttir borgarstjóra í dag með Björgu Bjarnadóttur formanni og Þresti Brynjarssyni varaformanni Félags leikskólakennara vegna kjaramála leikskólakennara var ákveðið að fela hópi skipuðum fulltrúum Reykjavíkurborgar, Félags leikskólakennara, samráðs leikskólastjóra í Reykjavík auk fulltrúa frá Launanefnd sveitarfélaga að móta hugmyndir sem lagðar verði fyrir Launamálaráðstefnu sveitarfélaga sem haldin verður 20. janúar nk. Jafnframt beina aðilar þeim tilmælum til leikskólakennara, sem sagt hafa upp störfum eða hafa ákveðið að segja upp, að endurskoða hug sinn og gefa vinnuhópnum kost á takast á við þá stöðu sem uppi er.

Ákvörðun LSH felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur felldi í dag úr gildi ákvörðun Landspítala háskólasjúkrahúss um að stöðu Tómasar Zoega geðlæknis yrði breytt úr stöðu yfirlæknis á geðsviði í starf sérfræðilæknis. Þá var Landsspítalanum einnig gert að greiða Tómasi 950 þúsund krónur í málskostnað. Ákvörðunin var tekin í lok apríl á þeim forsendum að Tómas hefði neitað að samþykkja að hætta rekstri á eigin læknastofu. Hún hafði í för með sér launalækkun fyrir Tómas og eins minni ábyrgð. Hann ákvað þegar í stað að kæra ákvörðunina og krafðist ógildingar. Í dómnum frá í morgun segir að engin ástæða hafi verið til að víkja Tómasi úr starfi eða áminna hann, enda hafi hann í engu vanrækt skyldur sínar.

Mikil hálka á Mosfellsheiði

Vegagerðin varar við mikilli hálku á Mosfellsheiði en þar er unnið að hálkuvörnum. Á Vesturlandi og vestfjörðum er hálka og hálkublettir og þá eru hálkublettir sömuleiðis víða á Norður- og Suðurlandi. Á Norðaustur- og Austurlandi er hálka, hálkublettir og snjóþekja en greiðfært er um Suðausturland.

Starfsmenn Ísal/Alcan lýsa yfir andstyggð á starfsmannastefnu fyrirtækisins

Starfsmenn á aðalverkstæði Ísal/Alcan funduðu í morgun vegna þess að einum starfsmanni fyrirtækisins var sagt upp fyrirvaralaust. Starfsmaðurinn sem hefur unnið hjá fyrirtækinu í mörg ár var kallaður fyrirvaralaust til yfirmanns og tilkynnt um brottrekstur án skýringa að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá fundinum.

Ætti að stuðla að friði á vinnumarkaði

Geir H. Haarde utanríkisráðherra sagði að loknum fundi með formönnum stjórnarflokkanna í Ráðherrabústaðnum í hádeginu, að niðurstaða ríkisstjórnarinnar um að setja lög til að ógilda úrskurð Kjaradóms, ætti að stuðla að ró á vinnumarkaði.

Stjórnarandstaðan ekki tilbúin að skipa fulltrúa í nefnd enn sem komið er

Stjórnarandstaðan er ekki tilbúin til að skipa fulltrúa í nefnd til að fara yfir úrskurð Kjaradóms, fyrr en Alþingi hefur fjallað um málið. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra segir að ríkisstjórnin muni engu að síður kalla til sérfróða aðila til að hefja könnun á þessum málum og formleg nefnd með fulltrúum stjórnarandstöðunnar verði svo skipuð eftir að Alþingi hefur afgreitt málið fyrir sitt leyti.

Falsaðar beiðnir í umferð frá Og Vodafone

Upp hefur komist um falsaðar beiðnir frá Og Vodafone. Grunur leikur á að óprúttnir aðilar hafi þær undir höndum og nýti þær til þess að taka út vörur hjá birgjum fyrirtækisins. Málið hefur verið kært til lögreglu. Og Vodafone beinir þeim tilmælum til afgreiðslufólks að það sýni varúð þegar beiðnum frá fyrirtækinu er framvísað.

3000 ferðamenn á Íslandi um þessi áramót

Samkvæmt upplýsingum frá Samtökum ferðaþjónustunnar dvelja um 3000 ferðamenn á Íslandi um þessi áramót. Erna Hauksdóttir framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir ferðamenn vera 15 prósentum fleiri um þessi áramót en þau síðustu.

Fiskafli hefur minnkað um 5% frá því í fyrra

Fiskafli hefur minnkað ár frá ári og er nær 5% minni á þessu ári en í fyrra. Rækjuafli hefur ekki verið minni í aldarfjórðung. Heildarafli ár er um 500 þúsund tonnum minni en hann var árið 2002 og hefur stigminnkað undanfarin ár. Verðgildi aflans hefur þó ekki dregist saman sem þessu nemur þar sem stöðugt er reynt að auka verðmæti þeirra tonna sem þó eru veidd.

Sjá næstu 50 fréttir