Innlent

Starfsmenn Ísal/Alcan lýsa yfir andstyggð á starfsmannastefnu fyrirtækisins

Starfsmenn á aðalverkstæði Ísal/Alcan funduðu í morgun vegna þess að einum starfsmanni fyrirtækisins var sagt upp fyrirvaralaust. Starfsmaðurinn sem hefur unnið hjá fyrirtækinu í mörg ár var kallaður fyrirvaralaust til yfirmanns og tilkynnt um brottrekstur án skýringa að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá fundinum.

Í tilkynningunni segir orðrétt:

Í gær var enn einum vinnufélaga okkar sagt upp störfum fyrirvaralaust og án þess að hann fengi nokkra skýringu á ástæðu uppsagnar þó eftir því væri leitað. Aðferðin sem Ísal / Alcan hefur beitt frá því að samningar voru gerðir við uppsagnir gagnvart þeim sem ekki eru þóknanlegir yfirmönnum er þessi:

Starfsmaður er boðaður fyrirvaralaust á fund yfirmanns og starfsmannastjóra og tilkynnt um brottrekstur sem komi tafarlaust til framkvæmda. Starfsmaður fær enga skýringu á uppsögn þó eftir því sé leitað. Starfsmanni er bannað að fara á vinnustað sinn til að sækja persónulega muni og kveðja vinnufélaga. Starfsmanni er skipað að yfirgefa umráðasvæði fyrirtækisins þegar í stað og það er framkvæmt undir eftirliti fulltrúa þess.

Þessi framkoma stjórnenda fyrirtækisins hefur valdið miklum ugg meðal starfsmanna um atvinnuöryggi og að þeir verði einnig meðhöndlaðir sem brotamenn ef skoðanir þeirra falla ekki í geð yfirmanna.

Fundurinn bendir á að með þessari uppsagnaraðferð er fyrirtækið að ganga þvert á skrifaða stefnu fyrirtækisins og þar að auki að brjóta gerðan kjarasamning. Með gerðum sínum hefur fyrirtækið brotið gegn eftirfarandi yfirlýsingu sem er hluti af kjarasamningi milli aðila.

 

Ekki náðist í forsvarsmenn Alcan vegna málsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×