Fleiri fréttir

Rifist um stjórnarskrána

Stjórn og stjórnarandstaða tókust á um það, á Alþingi í dag, hvort stjórnarskrárfrumvarp formanna stjórnarflokkanna tryggði eignarhald útgerðarinnar á auðlindum sjávar eða ekki. Forsætisráðherra segir frumvarpið afstýra þessu en formaður Samfylkingarinnar segir frumvarpið eins og óútfylltan tékka fyrir dómstóla landsins að skera úr um.

Forsætisráðherra gagnrýnir veitingamenn

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, lýsir miklum vonbrigðum með að veitingastaðir hafi ekki lækkað verð í samræmi við lækkun virðisaukaskatts um mánaðamótin. Matvöruverslanir virðast hins vegar hafa skilað skattalækkuninni vel út í verðlagið, að mati Hagstofunnar.

Íran næst

Íraksstríðið var ólöglegt að mati Hans Blix, fyrrverandi yfirmanns vopnaeftirlits Sameinuðu þjóðanna í Írak. Hann segir Bandaríkjamenn hafa verið á nornaveiðum í aðdraganda stríðsins og margt sé líkt með honum og stöðunni í kjarnorkudeilunni við Írana nú.

Enn barist við skógarelda

Slökkviliðsmenn, í Suður-Kaliforníu, gera sér vonir um að í kvöld eða nótt verði hægt að ná tökum á skógareldum sem hafa logað í Orange-sýslu síðan snemma í gær. Um 1.200 manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Erfiðlega hefur gengið að berjast við eldana því vindasamt er á svæðinu, miklir þurrkar og hiti óvenju mikill miðað við árstíma.

45 ára ferli að ljúka

Jacques Chirac, Frakklandsforseti, ætlar ekki að sækjast eftir endurkjöri. Þetta tilkynnti hann formlega í gærkvöldi. Þar með lýkur 45 ára ferli eins litríkasta stjórnmálamanns Frakklands.

Nýmjólk frjósemisvænni en undanrenna

Mikil neysla á fituskertum mjólkurvörum getur aukið líkur á ófrjósemi um allt að áttatíu og fimm prósent, samkvæmt nýlegri bandarískri rannsókn.

30 þúsund fyrir kortersvinnu

Er eðlilegt að borga tæpar þrjátíu þúsund krónur fyrir kortersvinnu? Ekki finnst staðarhaldara Iðnó, sem blöskrar okrið á útkalli hjá tölvufyrirtæki í höfuðborginni.

Danir skammaðir fyrir fiskveiðistjórnun

Evrópusambandið hefur gagnrýnt fiskveiðistjórnun Dana harðlega, og sjávarútvegsráðherra landsins viðurkennir að sú gagnrýni eigi rétt á sér. Stikkprufur sem gerðar voru hjá dönskum fiskimönnum leiddi í ljós að 13 prósent sinntu ekki skráningarskyldu sinni og lönduðu framhjá eftirlitskerfinu.

Eiríkur fimmti í röðinni í Helsinki

Eiríkur Hauksson, fulltrúi Íslendinga í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í ár, verður fimmti keppandi á svið í undankeppninni sem fram fer 10. maí í Helsinki í Finnlandi. Búlgara ríða á vaðið og á eftir þeim koma Ísraelar en þar á eftir koma svo Kýpur og Hvít-Rússland áður en Eiríkur þenur raddböndin.

Lífeyrissjóðir Austurlands og Norðurlands sameinast í Stapa

Stapi lífeyrissjóður er nýtt nafn sameinaðs sjóðs Lífeyrissjóðs Austurlands og Lífeyrissjóðs Norðurlands en samþykkt var að sameina sjóðina á ársfundum þeirra fyrir helgi. Sameinaður sjóður á 84 milljarða króna og í honum verða um 21 þúsund lífeyrisþegar sem þýðir að hann verður fimmti stærsti lífeyrissjóður landsins.

Lögmenn mótmæla í Pakistan

Lögmenn í Pakistan mótmæltu víða um landið og sniðgengu réttarsali í dag í mótmælaskyni við brottvikningu æðsta dómara landsins úr embætti. Musharaf forseti tók ákvörðunina vegna misnotkunar dómarans í embætti. Meira en 20 lögmenn slösuðust í átökum við lögreglu í Lahore og hundruðir lögmanna í svörtum jakkafötum fylktu liði í öðrum borgum.

Fíkniefnahundar úr K-9 sanna gildi sitt

Lögregluhundar á höfuðborgarsvæðinu sönnuðu gildi sitt um helgina en þá fundu þeir fíkniefni á þremur stöðum í Reykjavík. Á föstudag þefaði einn af hundum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu uppi talsvert af fíkniefnum við húsleit en efnið er talið vera hass.

Smáralindardeila á Spáni

Auglýsing frá Giorgio Armani junior hefur vakið athygli á Spáni. Auglýsingin sýnir litla stúlku í bikiníi. Fyrir skemmstu þurfti Dolce og Gabbana að hætta við auglýsingu sem sýndi mann halda konu niðri við jörðina á meðan aðrir karlmenn horfðu á.

Auðlindafrumvarp lagt fram í ósætti

Geir H. Haarde forsætisráðherra mælti fyrir stundu fyrir frumvarpi að nýju ákvæði um náttúruauðlindir í stjórnarskrá. Geir sagði í hádegisviðtali Stöðvar 2 í dag að verra væri að leggja fram frumvörp í ósætti, en hann sagði ekki fullreynt að ekki næðist sátt um málið. Aðdragandinn að frumvarpinu var mjög óvenjulegur.

ESSO hækkar verð á eldsneyti

Olíufélagið ESSO hefur ákveðið að hækka bensínlítrann um tvær krónur í dag og þá hækkar dísil-, gas-, flota-, flotadísil- og svartolía um eina krónu á lítra. Að því er fram kemur á heimasíðu ESSO má rekja hækkunina til hækkandi heimsmarkaðsverðs að undanförnu

Landsvirkjun hagnast um rúmlega 3,5 milljarða

Landsvirkjun hagnaðist um rúma 3,5 milljarðar króna á síðasta ári samkvæmt ársreikningi sem birtur er í dag á vef Kauphallar Íslands. Hagnaður fyrirtækisins minnkaði um nærri 2,8 milljarða á milli ára en hann nam um 6,3 milljörðum árið 2005.

Samningur um kjarnorkuþróun milli Líbýu og Bandaríkjanna

Bandaríkin munu undirrita samstarfsyfirlýsingu við Líbýu um þróun kjarnorku til orkunota. Líbýska fréttastofan Jana greindi frá þessu í dag. Í yfirlýsingu segir að Líbýsk nefnd um alþjóðlegt samstarf hafi verið falið að skrifa undir samstarfssamning við Bandaríkin um friðsamlega notkun kjarnorku.

Fréttamanni BBC rænt

Alan Johnston fréttaritara breska ríkisútvarpsins BBC í Palestínu var rænt á Gaza í dag. Lögreglan segir ekki ljóst hverjir standa á bakvið ránið. Heimildarmenn staðfestu að maðurinn væri Alan Johnston, en bílaleigubíll hans fannst í Gasaborg. Lögreglan vinnur nú að rannsókn mannránsins.

Atvinnuleysi minnkar milli ára

Atvinnuleysi í febrúar síðastliðnum reyndist 1,3 prósent og jókst um þrjú prósent milli mánaða. Þetta leiða tölur Vinnumálastofnunar í ljós. Atvinnuleysi er töluvert minna en á sama tíma fyrir ári þegar það var 1,6 prósent og hefur fækkað í hópi atvinnulausra um rúmlega 300 manns á tímabilinu.

Reykingabanni í Danmörku frestað fram á sumar

Reykingabanni á bæði opinberum og almennum vinnustöðum í Danmörku sem taka átti gildi um næstu mánaðamót hefur verið frestað til 15. ágúst. Flestir flokkar á danska þinginu samþykktu fyrir áramót að styðja slíkt frumvarp en það er þó ekki enn þá komið fram eftir því sem segir á vef Jótlandspóstsins.

Sjálfsmorðsárás á Internet kaffihúsi

Maður sem var meinaður aðgangur að hryðjuverkasíðu á Internet kaffihúsi í Casablanca í Marokkó sprengdi sjálfan sig í loft upp á staðnum í gærkvöldi. Þrír særðust í sjálfsmorðsárásinni, þar á meðal kaffihúsaeigandinn. Atvikið átti sér stað þegar maðurinn kom inn ásamt félaga sínum og lenti í deilu við eigandann út af aðgangi að vefsíðu íslamskra öfgamanna.

300 stöður lagðar niður hjá Danmarks Radio

Stjórnendur danska ríkisútvarpsins, Danmarks Radio, hafa uppi áform um að leggja niður allt að 300 stöður innan stofnunarinnar til þess að spara í rekstri hennar. Eftir því sem fram kemur á vef Jótlandspóstsins þarf að spara í rekstri stofnunarinnar eftir að kostnaður við uppbyggingu á húsnæði DR í Örestad fór mikið fram úr áætlun.

Skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás

Karlmaður var í Héraðsdómi Suðurlands í dag dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa á heimili sínu ráðist að konu og slegið hana að minnsta kosti tvisvar í andlitið þannig að hún nefbrotnaði meðal annars og hlaut heilahristing.

Færeyskir feðgar yfirheyrðir í Baugsmálinu

Yfirheyrslum yfir feðgunum Niels H. Mortesen og Hans Mortensen, framkvæmdastjórum færseyska fyrirtækisins SMS, í Baugsmálinu lauk nú fyrir hádegi en þeir voru spurðir um samskipti SMS og Baugs í tengslum við 16. ákærulið Baugsmálsins.

Amma í fallhlífarstökki

Það er ekki oft sem áttatíu og níu ára gamlar konur stökkva í fallhlíf úr þrjú þúsund metra hæð en það gerði Hilda Person í Ástralíu í gær. Hilda vildi með stökkinu safna fé til krabbameinsrannsókna. Dóttir Hildu varð krabbameini að bráð fyrir ári og vildi Hilda leggja sitt af mörkum til að fé fengist til frekari rannsókna. Hilda stökk út úr flugvélinni með lokuð augun og þjálfara sinn á bakinu. Bæði lentu þau heilu og höldnu. Hilda segir þetta hafa verið skemmtilega upplifun og ætlar í fleiri ævintýraferðir til styrktar krabbameinsrannsóknum.

Rannsaka ástæðu rafmagnstruflana

Enn er óljóst hver var ástæða rafmagnstruflana á Suðvesturlandi í fyrrinótt, sem olli sumstaðar tjóni. Stjórnendur orkufyrirtækja á svæðinu ætla að fara saman yfir atburðarásina. Orkuveita Reykjavíkur mun bæta það tjón, sem rakið verður til hennar vegna rafmagnstruflananna í fyrrinótt, segir í tilkynningu frá fyrirtækinu. Ein afleiðing þessa var sú að loka þurfti fyrir heitt vatn í Árbæjarhverfi fram eftir degi í gær og dælustöð við Ánanaust varð óvirk.

Chirac styður engan

Jacques Chirac, Frakklandsforseti, lýsti því formlega yfir í gærkvöldi að hann ætlaði ekki að sækjast eftir endurkjöri í forsetakosningunum í næsta mánuði. Hann lýsti ekki yfir stuðningi við neinn frambjóðanda líkt og búist var við.

Verð á veitingum mikil vonbrigði

Geir Haarde forsætisráðherra segir það mikil vonbrigði að verð á veitingahúsum skuli ekki hafa lækkað meira en raun ber vitni. Hagstofan hafði reiknað með lækkun hjá veitingahúsum upp á tæplega 9 prósent, en raunlækkun er einungis rúmlega þrjú prósent. Geir sagði í hádegisviðtali Stöðvar 2 að það væri algjört lágmark að veitingaþjónustan skilaði sínu í átaki um að lækka matarverð: „Mér finnst þetta ekki gott.“

3-400 störf á landsbyggðina

Þrjú til fjögurhundruð störf gætu lagst landsbyggðinni til á ári að mati formanns Samfylkingarinnar ef störf óháð staðsetningu væru auglýst sem slík.

Tsvangirai laminn af lögreglu

Morgan Tsvangirai leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Simbabve hefur verið laminn af lögreglu sem heldur honum í varðhaldi. Þetta segir lögmaður Tsvangirai. Hann var handtekinn í gær ásamt fimm samherjum sínum eftir að óeirðalögregla leysti upp mótmælafund. Lögmenn leita nú leiða til að fá aðgang að sexmenningunum en enn er óvíst hvort þeir hafi verið ákærðir fyrir einhverjar sakir.

Hús í Bolungarvík rýmd vegna snjóflóðahættu

Fimm íbúðarhús voru rýmd í Bolungarvík í morgun vegna snjóflóðahættu. Eftir samráð snjóflóðasérfræðinga Veðurstofunnar og lögreglustjórans á Vestfjörum var tekin ákvörðun um þetta vegna óstöðugra snjóalaga og snjóflóða, sem fallið hafa á norðanverðum Vestfjörðum undanfarna daga. Þau flóð hafa öll fallið utan við byggð. Húsin sem voru rýmd i mrogun eru unmdir Traðargili, en nokkur snjór er í giljum, þótt ekki sé hægt að tala um fannfergi vestra, að sögn heimamanna.

Forsetahjónin heimsóttu Ártúnsskóla

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands og Dorrit Moussaieff forsetafrú komu í heimsókn í Ártúnsskóla í Reykjavík í morgun. Skólinn hlaut íslensku menntaverðlaunin 2006 fyrir nýsköpun og farsælt samhengi í fræðslustarfi.

Bretar settu upphrópunarmerki í stað spurningamerkja

Bretar tóku skýrslu um gereyðingarvopn í Írak og skiptu út spurningamerkjum fyrir upphrópunarmerki til að rökstyðja innrás í landið. Þetta segir Hans Blix fyrrverandi yfirmaður Vopnaeftirlits Sameinuðu þjóðanna í viðtali við Sky-sjónvarpsstöðina.

Skildu eftir marijúana fyrir 1,4 milljarða

Farmur af marijúana, að verðmæti allt að 1,4 milljörðum íslenskra króna, fannst í yfirgefnum sendiferðabíl í Kaliforníu. Bifreiðin var ólæst og vélarhlífin heit en enginn var ökumaðurinn.

Simbabve nálgast suðumark

Yfirvöld í Simbabve handtóku í dag einn af leiðtogum stjórnarandstöðunnar í landinu fyrir að rjúfa bann við pólitískum samkomum. Ástandið er afar viðkvæmt í landinu enda er atvinnuleysi mikið og efnahagurinn því sem næst í rúst.

Ströng stefna gagnvart innflytjendum

Íslendingar hafa ströngustu innflytjendastefnu í lýðfrjálsum heimi. Þetta fullyrðir Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði sem segir tómt mál að tala um að takmarka flæðið frá Evrópu til landsins á grundvelli undantekninga frá EES samningi.

Snaraði þrettán fílakálfum

Indverski spekingurinn Sri Chinmoy er enn í fullu fjöri þótt hann sé kominn hátt á áttræðisaldur. Í vikunni brá hann sér til Taílands þar sem hann gerði sér lítið fyrir og lyfti 13 fílakálfum á þremur dögum.

Rændi 101 árs gamla konu

Myndband sem sýnir óprúttinn ræningja hrinda hundrað og eins árs gamalli konu í gólfið og ræna svo handtösku hennar hefur vakið mikla reiði í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir mikla leit er ræninginn enn ófundinn

Ísfirðingar vilja aðgerðir í atvinnumálum

Fullt var út úr dyrum á almennum borgarafundi á Ísafirði í dag þar sem þess var krafist að gripið yrði til sértækra aðgerða til að bjarga atvinnulífi á staðnum. Þingmenn og sveitarstjórnarmenn voru hvattir til að leggja flokkspólitísk ágreiningsefni til hliðar og sameinast um brýn úrlausnarefni í atvinnu- og byggðamálum.

Saksóknari og Samkeppniseftirlitið gegn breytingartillögum Sjálfstæðismanna

Saksóknari efnahagsbrota segir í bréfi til efnahags og viðskiptanefndar að breytingar sem sjálfstæðismenn vilja gera á nýju frumvarpi til samkeppnislaga, hefðu bein áhrif á mál olíuforstjórana sem er fyrir dómstólum. Þetta kemur fram í bréfi hans til efnahags og viðskiptanefndar, þar sem hann leggst gegn breytingunum.

Vatnstjón vegna eldingar

Gríðarlegt tjón varð í morgun vegna mestu flóða í íbúðarhúsnæði sem slökkviliðið í Reykjavík hefur þurft að kljást við. Orsökina virðist mega rekja til dæla á vegum borgarinnar sem urðu óvirkar þegar eldingu laust niður í raflínur í grennd við borgina. Skammhlaupið olli hitavatnsleysi í Árbæ og sló út rafmagn í álverunum í Straumsvík og á Grundartanga.

Stóraðgerð lögreglu á Suðurnesjum

Tugir lögreglumanna og tollvarða á Suðurnesjum tóku þátt í stórri aðgerð í gærkvöld til að stemma stigu við vaxandi umsvifum fíkniefnasala í umdæminu. Farið var í sex húsleitir, tólf voru handteknir og hald lagt á talsvert af fíkniefnum.

Sjá næstu 50 fréttir