Fleiri fréttir

Picasso-málverkum stolið

Tveimur málverkum eftir Pablo Picasso hefur verið stolið af heimili barnabarns málarans í París. Verðmæti myndanna er rúmlega fjögur hundruð milljónir íslenskra króna. Sky fréttastofan hefur þetta eftir lögreglu á staðnum en hún vinnur nú að rannsókn málsins.

Sérsveit kölluð til vegna hótana manns á sveitabæ

Lögreglan á Hvollsvelli fékk í morgun liðsauka frá Ríkislögregustjóra og Lögreglunni á Selfossi til þess að handtaka mann á sveitabæ í Rangárþingi ytra. Hann hafði haft í hótunum við fyrrverandi sambýliskonu sína sem óttaðist um sinn hag.

Tíu létust í bílasprengju í Baghdad

Tíu manns létust og 21 slasaðist nálægt grænmetismarkaði í Baghdad í Írak í dag. Þetta er haft eftir lögreglu sem segir að sprengjan hafi sprungið við verslunargötu í Bayaa hverfi írösku höfuðborgarinnar. Í hverfinu búa bæði síjar og súnnar og mikil mannmergð er vanalega á verslunargötunni.

Sex enn á sjúkrahúsi eftir strætisvagnaslys við Uppsali

Sex manns eru enn á Háskólasjúkrahúsinu í Uppsölum eftir alvarlegt umferðarslys nærri borginni í gær. Þá létust sex og á fimmta tug slasaðist þegar tveir strætisvagnar rákust saman skammt fyrir utan borgina.

Rafmagnslaust í Lindahverfi og á Smáratorgi

Rafmagnslaust er nú í Lindahverfi, Hagasmára og á Smáratorgi eftir að háspennustrengur var grafinn í sundur um klukkan tíu. Þær upplýsingar fengust hjá Orkuveitu Reykjavíkur að verið væri að gera við strenginn og að rafmagn kæmist á innan skamms.

Bandaríkjamenn ætla ekki að framselja njósnara

Bandaríkjamenn ætla ekki að framselja 26 Bandaríkjamenn til Ítalíu vegna réttarhalda um mannrán. Flestir mannanna eru taldir vera útsendarar CIA en þeir eru sakaðir um að ræna múslímaklerki af götu á Ítalíu, fljúga honum til Egyptalands þar sem klerkurinn segir að hann hafi verið pyntaður.

Bandarískum háskóla lokað vegna sprengjuhótunar

Loka þurfti háskóla í Kansas borg í Missouri ríki í Bandaríkjunum í dag eftir að nemandi þarf sagðist hafa sprengju og miltisbrand meðferðis. Lögregla þar skýrði frá þessu í dag.

Þrír franskir hjálparstarfsmenn myrtir í Brasilíu

Þrír franskir hjálparstarfsmenn voru stungnir til bana á hótelherbergi sínu í Rio de Janeiro, höfuðborg Brasilíu, í dag. Lögreglan sagði að brasilískur samstarfsmaður þeirra, Tarsio Wilson Ramires, hefði játað að eiga þátt í morðunum.

Tekinn á 155 kílómetra hraða

Tveir ökumenn voru teknir fyrir of hraðan akstur á Reykjanesbrautinni í kvöld. Var það á þeim kafla þar sem hún er tvöföld. Annars þeirra ók á 121 kílómetra hraða og má búast við sekt. Hann var einn á ferð. Annar var síðan tekinn á 155 kílómetra hraða og var með farþega í bílnum. Sá má búast við því að missa ökuleyfi í einhvern tíma og fá einnig sekt að sögn lögreglu Suðurnesja.

Bandaríkin munu sitja ráðstefnu í Írak

Bandaríkin hafa staðfest að þau muni sækja ráðstefnu sem stjórnvöld í Írak ætla sér að halda í Apríl. Á henni verða meðal annars fulltrúar frá Íran og Sýrlandi.

För Atlantis frestað

Geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, skýrði frá því í kvöld að hún yrði að fresta skoti geimskutlunnar Atlantis. Henni átti að skjóta upp þann 15. mars næstkomandi. Ástæðan fyrir þessu eru skemmdir á ytra byrði hennar.

Súdan framselur ekki grunaða stríðsglæpamenn

Stjórnvöld í Súdan ætla sér ekki að framselja þá tvo einstaklinga sem saksóknarar alþjóðaglæpadómstólsins í Haag nefndu í ákærum sínum vegna rannsókna á stríðsglæpum í Darfur. Súdan sagði að dómstóllinn hefði enga lögsögu í landinu og að þeirra eigin dómstólar væru fyllilega hæfir til þess að sjá um málsóknir af þessu tagi.

Þurftu samþykki Fjármálaeftirlitsins

Sú ákvörðun Sparisjóðs Svarfdæla að gefa Dalvíkurbyggð eitt stykki menningarhús er einstæð í sögu fjármálafyrirtækis. Leita þurfti samþykkis Fjármálaeftirlitsins áður en ákvörðunin var tekin.

Kílómetra á eftir tímaáætlun

Búið er að grafa tæpan fimmtung af Héðinsfjarðargöngum, milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar. Verkið er þegar þúsund metrum á eftir tímaáætlun en verktakar vona að þær tafir verði hægt að vinna upp.

Íslendingar og Danir funda öðru sinni um varnarmál

Íslenskir og danskir embættismenn áttu í dag öðru sinni fund um samstarf þjóðanna um öryggismál. Fundurinn var haldinn í Reykjavík og var áfram fjallað um mögulegar leiðir til að auka samstarf á sviði öryggismála og ákveðið að hefja vinnu við nánari útfærslu þess. Ennfremur var öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli heimsótt og aðstæður þar skoðaðar.

Tekist á um konur

Tekist var á um það á Alþingi í dag hvaða stjórnmálaflokkur hefði á að skipa flestum konum fyrir kosningarnar í vor. Þingmenn Framsóknarflokksins sögðust hafa vinninginn hvað varðar leiðtogasæti en fulltrúar stjórnarandstöðunnar bentu á að til að halda jöfnu hlutfalli kynjanna, mætti flokkurinn ekki fá fleiri en einn þingmann í hverju kjördæmi.

Hinsti hvílustaður frelsarans sagður fundinn

Jesús átti í ástarsambandi við Maríu Magdalenu og þau áttu son. Þetta er staðhæft í nýrri heimildarmynd bandaríska leikstjórans James Cameron þar sem segir að hinsti hvílustaður frelsarans sé fundinn.

Átta ára og tæp 100 kíló

Bresk yfirvöld íhuguðu það að taka átta ára dreng frá móður sinni og setja í öryggisgæslu vegna offitu. Drengurinn er rétt tæp 100 kíló, rúmlega þrefalt þyngri en jafnaldrar hans.

Sveitarfélögum að blæða út

Verst settu sveitarfélögunum er að blæða út vegna aðgerðarleysis ríkisstjórnarinnar, að mati þingmanna Samfylkingarinnar, og vinstri grænir segja að frelsa þurfi landsbyggðarmálin undan Framsóknarflokknum. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra sagði hins vegar á Alþingi í dag, að ríkisstjórnin hefði gripið til fjölþættra aðgerða til að bæta atvinnumál á landsbyggðinni.

Lögreglumenn hafa fengið á sig 117 kærur en aðeins 5 dóma síðastliðin ár

Lögreglan hefur hundrað og sautján sinnum verið kærð fyrir meint harðræði við handtöku á síðustu árum en aðeins fimm dómar hafa fallið í þessum málum. Dalvískri konu, sem segir lögregluna hafa beitt sig miklu harðræði, var ráðlagt af lögmanni að hætta við kæru; ómögulegt væri að vinna mál gegn lögreglunni.

Írakar ætla að funda með G8

Stjórnvöld í Írak ætla sér að koma á fundi háttsettra ráðamanna nágrannaríkja sinna ásamt fulltrúum G8 hópsins svokallaða. Þau ætla að reyna að halda fundinn strax í byrjun Apríl og á tilgangur hans að vera að koma á ró í landinu. Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, skýrði frá þessu í kvöld.

Íbúar í Uppsölum slegnir

Sex létust þegar tveir strætisvagnar á leið í gagnstæða átt rákust saman rétt utan við borgina Uppsali í Svíþjóð í morgun. Á fimmta tug til viðbótar slösuðust, þar af nokkrir lífshættulega. Ekki er vitað til þess að nokkrir Íslendingar hafi verið í vögnunum þegar slysið varð.

Bandaríkjamenn sprengja og slasa 30 Íraka

Talsmenn bandaríska hersins í Írak sögðu að þeir hefðu sprengt upp sprengju í námunda við fótboltavöll í borginni Ramadi og að 30 hefðu slasast. Þar á meðal voru níu börn. Enginn hefði þó látið lífið. Írösk lögregla og ættbálkaleiðtogar sögðu frá því í dag að sprengjuárás nálægt knattspyrnuvelli hefði banað 18 manns og að meirihluti þeirra hefðu verið börn.

Vaxtaokur bankanna skelfilegt

Vaxtaokur bankanna er skelfilegt, segir framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, og launafólk situr í skuldasúpunni. Hann frábiður sér skýringar Péturs Blöndal um að háir vextir séu afleiðing af eyðslugleði almennings. Prófessor í hagfræði segir fákeppni ríkja á neytendalánamarkaði.

Ný sjónvarpsstöð í loftið

Ný íslensk sjónvarpsstöð fór í loftið í dag. ÍNN heitir hún. Stjarna stöðvarinnar er landsins þekktasti strigakjaftur, Ingvi Hrafn Jónsson.

Dagur vinnur í feðraorlofinu

Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi fór í fæðingarorlof þann fimmtánda þessa mánaðar og vék úr borgarstjórn um tíma. Í morgun, þann 27. febrúar, fór Dagur hins vegar í vinnuferð með skipulagsráði til Skandinavíu á vegum borgarinnar.

Lenti heilu og höldnu

Fokker flugvél Flugfélags Íslands var snúið við skömmu eftir flugtak á Reykjavíkurflugvelli upp úr klukkan hálf fimm í dag, vegna þess að nefhjól hennar fór ekki upp eftir flugtakið. Tuttugu og sex manns, farþegar og áhöfn, voru um borð í flugvélinni sem var á leið til Ísafjarðar. Vélin lenti síðan án vandkvæða og viðbúnaðarstigi aflýst.

Valgerður fundar með utanríkisráðherra Suður-Afríku

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, átti í dag fund með Nkosazana Dlamini Zuma, utanríkisráðherra Suður-Afríku. Á fundinum voru tvíhliða samskipti ríkjanna rædd. Stjórnvöld í Suður-Afríku lýstu einnig yfir áhuga á loftferðasamningi, tvísköttunarsamningi og fjárfestingarsamningi.

Kjarvalsmyndin seld á 25 milljónir króna

Málverkið Hvítasunnudagur eftir Jóhannes Kjarval var slegið hæstbjóðanda, sem bauð 1,3 milljónir danskra króna í verkið hjá danska listaverkasalanum Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn núna á sjötta tímanum. Fulltrúi Gallerí Foldar keypti myndina fyrir hönd óþekkts kaupanda. Heildarverð með þóknun og sköttum telst um 25 milljónir íslenskra króna. Þetta er hæsta verð sem greitt hefur verið fyrir íslenskt listaverk á uppboði.

Togarinn kominn á flot

Dala-Rafn VE 508, 237 brúttótonna togari, sem sat fastur í Grindavíkurhöfn eftir að hafa tekið niðri er nú laus. Reynt var að draga hann niður á meira dýpi til þess að reyna að losa hann og tókst það vel. Engar skemmdir voru sjáanlegar á skipinu. Liggur Dala-Rafn nú við bryggju.

Áhugaleysi gagnvart hagsmunum Serba

Rússar hafa áhyggjur af áhugaleysi vesturlanda gagnvart hagsmunum Serba í framtíðaráætlunum um sjálfstæði Kosovo. Sergei Lavror utanríkisráðherra Rússa sagði áætlanir undir forystu Martti Ahtisaari ekki taka tillit til málefna í Belgrad og áhyggjur Serba. Þetta sagði hann á fréttamannafundi í dag.

Viðbúnaðarstig vegna flugvélar á Reykjavíkurflugvelli

Viðbúnaðarstigi var komið á Reykjavíkurflugvelli nú á fimmta tímanum þegar Fokker-vél kom þar til lendingar. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu var um að ræða vandræði með lendingarbúnað en 26 manns voru um borð í vélinni. Hún lenti nú fyrir nokkrum mínútum heilu og höldnu og hefur viðbúnaðarstig því verið aflýst eftir því sem lögreglan segir. Ekki liggur fyrir hvað varð til þess að viðbúnaðarstigi var lýst en að sögn Hjördísar Guðmundsdóttur, upplýsingafulltrúa Flugmálastjórnar, lenti vélin fyrir nokkrum mínútum.

Vill hlutkesti fremur en útboð á tollkvótum

Talsmaður neytenda telur hlutkesti vænlegri kost en útboð við úthlutun tollkvóta til innflutnings á landbúnaðarvörum. Með þeirri leið sé ólíkegra að neytendur gjaldi fyrir með hætta verði á landbúnaðarvörum.

Gæsluvarðhald yfir síbrotamanni

Hæstiréttur Íslands staðfesti í dag gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur yfir síbrotamanni. Maðurinn er grunaður um þjófnaði og innbrot. Maðurinn var í byrjun janúar dæmdur í níu mánaða fangelsi, þar af sex mánuði skilorðsbundið, fyrir rán.

18 börn létust í bílasprengju

Bílasprengja varð 18 börnum að bana á fótboltavelli í vesturhluta Ramadi borgar í Írak í dag. Þetta er haft eftir sjónvarpsstöðinni Iraqiya. Börnin voru að leik á vellinum þegar sprengjan sprakk, en ekki er ljóst hver er ábyrgur fyrir tilræðinu.

Stjórnin vildi skýrari línur milli Baugs og Gaums

Hans C. Hustad, stjórnarmaður í Baugi, sagði umræður hafa farið fram í stjórn Baugs vorið 2002 um að draga þyrfti skýrari línur milli Baugs og Gaums. Hann vissi af lánveitingum til Gaums en þekkti þær þó ekki í smáatriðum enda hans mat að reksturinn ætti að vera í höndum stjórnenda fyrirtækisins.

Sextán mánaða fangelsi fyrir brotahrinu á síðasta ári

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í dag karlmann í sextán mánaða fangelsi fyrir margvísleg brot á síðasta ári, þar á meðal líflátshótanir, eignaspjöll, vörslu og sölu á fíkniefnum, steravörslu og akstur undir áhrifum fíkniefna.

Eldgos á Ítalíu

Eldgos er hafið á Stromboli eynni nálægt norðurströnd Sikileyjar á Ítalíu. Tveir gígar hafa myndast við tind eldfjallsins og hraun rennur í sjóinn. Almannavarnir hafa sett af stað viðbragðsáætlun og strandgæslan hefur sent tvo báta á staðinn. Ekki er talin hætta á ferðum, en samkvæmt heimildum BBC hefur íbúunum, sem telja 750 manns, verið sagt að halda sig frá ströndinni.

Uppsagnir hjá Símanum

Tveimur starfsmönnum Símans á Ísafirði hefur verið sagt upp. Ástæðan er verkefnaskortur, en mennirnir voru í sex manna hópi sem sá meðal annars um jarðvegsvinnu og lagningu strengja. Að sögn upplýsingafulltrúa Símans hefur uppbygging á staðnum verið að dragast saman og því þörf á að aðlaga deildina verkefnum sem fyrir liggja.

Vill að Wilson Muuga verði fjarlægt hið fyrsta

Hákon Magnússon, eigandi jarðarinnar Nýlendu í Sandgerði, vill að Wilson Muuga verði fjarlægt af strandstað án tafar. Fram kemur á vef Víkurfrétta að Jónas Þór Guðmundsson, héraðsdómslögmaður, hafi sent bréf fyrir hönd Hákonar þess efnis til útgerðar, umboðsaðila og vátryggingarfélags skipsins, en bréfið hefur einnig verið lagt fram til kynningar hjá bæjarráði Sandgerðis.

Tilraunir með rykbindingu sagðar lofa góðu

Tilraunir á vegum framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar með rykbindingu á helstu umferðaræðum borgarinnar lofa góðu og virðast slá verulega á rykmyndun að því er segir á vef framkvæmdasviðs.

Öllum starfsmönnum skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins sagt upp

Öllum sex fastráðnum starfsmönnum Skíðasvæða höfuðborgarsvæðinsins hefur verið sagt upp störfum í kjölfar rekstarúttektar á starfseminni. Að sögn Önnu Kristinsdóttur, formanns stjórnar skíðasvæðanna, var ráðist í úttektina í haust og henni skilað eftir áramót.

Skriðufall í miðborg San Francisco

Klettar hrundu af hæð í miðborg San Francisco nú rétt í þessu og skemmdu næstu byggingar. 150 manns voru fluttir úr þremur byggingum við skriðuna. Engin slys hafa verið tilkynnt á fólki, en lögregla og slökkvilið hafa lokað næstu götu af. KTVU sjónvarpsstöðin hefur eftir talsmanni slökkviliðsins að nokkrir klettar úr hlíðinni hafi fallið niður við Broadway stræti og skemmt íbúðarhús og verslunarbyggingu.

Sjá næstu 50 fréttir