Innlent

Sextán mánaða fangelsi fyrir brotahrinu á síðasta ári

MYND/GVA

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í dag karlmann í sextán mánaða fangelsi fyrir margvísleg brot á síðasta ári, þar á meðal líflátshótanir, eignaspjöll, vörslu og sölu á fíkniefnum, steravörslu og akstur undir áhrifum fíkniefna.

Sjö ákærur á hendur manninum voru sameinaðar í málinu en honum var meðal annars gefið að sök að hafa í mars í fyrra komið fyrir svokölluðum molotov-kokkteil fyrir undir bíl manns og kveikt í honum og að hafa hótað manninum ofbeldi og lífláti með skilaboðum í farsíma. Þá var hann gripinn með nærri 290 steratöflur í júní í fyrra.

Fram kemur í dómnum að afbrotaferill mannsins nær allt aftur til ársins 1996 en með brotunum nú rauf hann skilorð. Auk þess að dæma manninn í sextán mánaða fangelsi var hann sviptur ökuréttindum ævilangt og þá var talsvert af fíkniefnum sem fundust í fórum hans í fyrra gerð upptæk samkvæmt dómnum. Þá var hann dæmdur til að greiða rúmlega 650 þúsund krónur í sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×