Fleiri fréttir

Lykilorð bloggara birt á síðum þeirra

Lykilorð sumra bloggara á mbl.is voru birt í skamma stund á bloggsíðum þeirra nú í morgun. Um mikil mistök er að ræða því þeir sem sáu lykilorðin hefðu getað skrifað þau niður, farið inn á bloggsíðu viðkomandi og breytt henni.

Blair brýnir Abbas

Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna mun í dag eiga fund með Tony Blair, í Lundúnum, þar sem breski forsætisráðherrann mun leggja áherslu á að hin nýmyndaða þjóðstjórn Palestínumanna verði að fara að kröfum Miðausturlanda-kvartettsins svokallaða um að viðurkenna Ísraelsríki og láta af ofbeldisverkum. Abbas er á ferð um Evrópu til þess að afla stjórninni fylgis.

Food and Fun hefst í dag - bein útsending frá setningu á Stöð 2

Hin árlega matar- og skemmtihátíð "Food and Fun " hefst í Reykjavík í hádeginu en þá setja Jóni Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair, Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra og Einar Kr. Guðfinnson sjávarútvegsráðherra hátíðina formlega frá Nordica-hótelinu. Sýnt verður beint frá setningunni í hádegisfréttum Stöðvar 2.

Danskir hermenn heim frá Írak

Búist er við að forsætisráðherra Danmerkur, Anders Fogh Rasmussen, tillkynnti í dag að Danir muni fara að dæmi Breta og kalla heim einhvern hluta hermanna sinna frá Írak. Danska fréttastofan Ritzau segir ekki hversu margir hermenn verði kvaddir heim, eða hvenær.

Reynir á íslensku bankana, segir S & P

Nú reynir á íslensku bankana þegar hægir á íslensku efnahagslífi og erfiðarar verður að nálgast lánsfé á erlendum mörkuðum, segir greiningarfyrirtækið Standard & Poors í nýrri skýrslu um íslensku bankana.

Stóri nammidagurinn er í dag

Í dag er öskudagur, stærsti nammidagur ársins og börn um allt land klæðast skrautlegum búningum og ganga hús úr húsi til að kría út gotterí. Börnin fara gjarnan um í stórum hópum og taka lagið til þess að þakka fyrir sig. Fyrr á árum var það siður að krakkar hengdu öskupoka aftan í fólk, en minna er um slíkt í dag.

Segir upphaf Baugsmálsins mega rekja til kvennamála

Tryggvi Jónsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Baugs, tók í morgun undir þau orð Jóns Ásgeirs Jóhannessonar frá því í síðustu viku að upphaf Baugsmálsins hefði mátt rekja til kvennamála. Hann sagði líka að Jón Gerald hefði hótað því í símtali í júní 2002 að koma til Íslands og drepa Jóni Ásgeir.

Viðgerð að ljúka á hvalveiðiskipi

Viðgerðum er að ljúka á móðurskipi japanska hvalveiðiflotans sem hefur rekið vélarvana á Suður-Íshafinu eftir mikinn eldsvoða síðastliðinn fimmtudag. Einn skipverji fórst í eldinum. Skipstjóri hvalveiðiskipsins hafnaði aðstoð frá skipi Grænfriðunga sem buðust til að draga það til hafnar. Skip Grænfriðunga var á þessu svæði til þess að trufla hvalveiðar Japana.

Föst undir steinvegg í fjóra klukukutíma

Kona á fimmtugsaldri var flutt með sjúkrabifreið frá Húnavatnssýslu til Reykjavíkur í dag eftir að steinveggur brotnaði og féll á hana. Konan lá föst undir veggnum á bóndabæ í Vatnsdal í fjórar klukkustundir þar til hjálp barst. Konan mun hafa verið að reka hross út úr hesthúsi þegar slysið varð, en eitt hrossana sparkaði í vegginn með þessum afleiðingum.

Breskt herlið frá Írak

Búist er við að Tony Blair forsætisráðherra Breta tilkynni á morgun að flutningur herliðs Breta frá Írak hefjist innan nokkurra vikna. Þetta kemur fram á BBC og í öðrum breskum fjölmiðlum í dag. Áætlun Blairs er að fyrstu 1.500 hermennirnir úr 7.100 manna liði þeirra í Írak snúi heim á næstu vikum.

Eiturgas umlukti heilan bæ

Sex létust og tugir urðu fyrir eituráhrifum þegar tankbíll fullur af klór sprakk við veitingastað í bænum Taji í Írak í dag. Eiturgas umlukti bæinn sem er 20 km norður af höfuðborginni Baghdad. Tölur látinna voru á reiki, fyrstu tölur sögðu fimm látna og 148 sem orðið hefðu fyrir eitrun. Alls létust 20 manns í landinu í dag í nokkrum tilfellum, meðal annars í Baghdad.

Áætlun í jafnréttismálum endurskoðuð

Kynbundinn launamunur er eitt af helstu áhersluatriðum í endurskoðaðri áætlun í jafnréttismálum. Ríkisstjórnin samþykkti í dag að leggja tillöguna fram til þingsályktunar. Tillagan var unnin í félagsmálaráðuneytinu ásamt skýrslu um stöðu og horfur í jafnréttismálum.

Átak gegn sjálfsvígum í S-Kóreu

Heilbrigðisyfirvöld í Suður Kóreu segjast vera að undirbúa herferð sem beinist gegn hárri sjálfsvígstíðni í landinu. Á fimm árum hafa sjálfsmorðstilfelli tvöfaldast. Verið er að skoða ýmsa möguleika eins og að koma upp ráðgjafamiðstöðvum og fjarlægja vefsíður sem sýna leiðir til sjálfsmorða og hvetja jafnvel fólk til að taka líf sitt.

Alræmdi klósettrúlluþjófurinn varaður við

Rað-klósettrúlluþjófur í Bretlandi hefur fengið viðvörun frá lögreglu eftir að upp komst að hann hefur stolið klósettrúllum af almenningssalernum. Konan er miðaldra og hefur tekið tíu rúllur á dag í að minnsta kosti þrjár vikur. Hún var gripin glóðvolg af bæjarstarfsmönnum í vestur Bridgford í Nottingham.

Vilja virkja grasrótina

Samstaða, baráttusamtök um bætta umferðarmenningu, hvetja alla til að skrá sig í samtökin og vinna að fækkun alvarlegra umferðarslysa. Félagið var stofnað í kjölfar slysaöldu á síðasta ári. Ekkert banaslys hefur orðið í umferðinni það sem af er þessu ári og hefur alvarlegum meiðslum á fólki fækkað. Steinþór Jónsson formaður samtakanna segir í fréttatilkynningu að það sé góð byrjun á löngu verkefni.

Airbus íhugar uppsagnir tíu þúsund manns

Dominique de Villepin, forsætisráðherra Frakklands, segir að tíu þúsund starfsmönnum evrópska flugrisans Airbus verði sagt upp þegar fyrirtækið verði endurskipulagt. Illa hefur gengið að selja Airbus A-380 risaþotuna, stærstu farþegaflugvél í heimi, en framleiðsla hennar hefur tafist. Villepin sagði frönsk stjórnvöld andvíg uppsögnum. Þjóðverjar segja ekkert hæft í yfirlýsingum forsætisráðherrans.

Hægt að læra af Sömum

Samar í Norður-Noregi hafa fundið fyrir áhrifum loftslagsbreytinga í áratugi. Rannsóknir hafa leitt í ljós að áhrif þeirra eru áþreifanlegri í loftslagi norðurheimskautsins. Vísindamenn ætla nú að kanna viðbrögð Sama við breytingunum svo hægt verið að læra af þeim.

Segist geta læknað alnæmi

Forseti Afríkuríkisins Gambíu telur sig hafa fundið lækningu við alnæmi. Hann segist hafa læknað marga landa sína með jurtameðulum og fyrirbænum. Hátt í fjörutíu milljón manns í heiminum þjást af alnæmi, flestir í Afríku.

Deilt um fjölda þungana á Byrginu

Pétur Hauksson, geðlæknir, segist harma orð fyrrverandi landlæknis um að þunganir nokkurra kvenna af völdum starfsmanna Byrgisins séu sögusagnir. Landlæknir staðhæfir að aðeins ein þungun hafi átt sér stað í Byrginu.

Breikkun Suðurlandsvegar fjármögnuð beint úr ríkissjóði?

Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, segir mjög vel koma til greina að fjármagna breikkun Suðurlandsvegar beint með framlögum úr ríkissjóði. Hann segir að skuggagjaldaaðferð verði því aðeins notuð að hún reynist ríkissjóði hagstæð.

Fjármálaráðherra harmar mistök Símans og Landsvirkjunar

Fjármálaráðherra harmaði, á Alþingi í dag, þau mistök sem Símanum og Landsvirkjun urðu á með ólögmætu samráði. Þingflokksformaður vinstri grænna benti á að helstu talsmenn markaðsvæðingar, sem forðum hrópuðu báknið burt, þeir Friðrik Sophusson og Brynjólfur Bjarnason, hefðu nú verið staðnir að brotum á samkeppnislögum.

Sálfræðingur aðstoðar vitni í Baugsmálinu

Jóhann Ingi Gunnarsson, sálfræðingur og fyrrverandi landsliðsþjálfari í handknattleik, hefur verið vitnum í Baugsmálinu til aðstoðar en ákærðu segja málið hafa reynt mjög á sig. Í dag var dómnum sýndur tölvupóstur frá settum ríkissaksóknara, sem einn af lögmönnum Baugs hafði falsað.

Mistekist að koma á samkeppni á raforkumarkaði

Það er verið að búa til einn samansúrraðan einokunarrisa, sagði formaður vinstri grænna í þingræðu um frumvarp ríkisstjórnarinnar um að leggja Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða undir Landsvirkjun. Fjármálaráðherra segir ljóst að markaðsvæðing raforkukerfisins hafi ekki tekist sem skyldi og mistekist hafi að koma á samkeppni.

Gæsluvarðhald vegna stærsta kókaínsmygls

Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsdóm yfir fertugum karlmanni sem er í haldi lögreglu vegna gruns um að hafa smyglað fjórum kílóum af kókaíni til landsins. Áætlað götuvirði efnanna gæti numið um 50 milljónum króna, en þetta er eitt mesta magn af kókaíni sem lagt hefur verið hald á hér á landi.

Ný heimasíða um íslenska hestinn

Ný heimasíða Félags eigenda íslenskra hesta erlendis FEIF var opnuð á ársfundi félagsins sem haldinn var í Glasgow um helgina. Í félaginu eru 56 þúsund meðlimir frá 18 löndum. Á fundinum var ákveðið að færa öllum meðlimunum WorldFeng, upprunabók íslenska hestins.

10 ára fangelsi fyrir að misnota dætur sínar

Danskur maður á fimmtugsaldri var í dag dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir að hafa misnotað tvær dætur sínar kynferðislega og neytt þá eldri í vændi. Danir eru slegnir vegna málsins sem hefur vakið mikinn óhug þar í landi. Maðurinn er sagður hafa tilheyrt hópi djöfladýrkenda. Hann auglýsti dóttur sína í blöðum og á netinu. Fjórtán menn hafa verið dæmdir í allt að sex ára fangelsi fyrir að hafa misnotað stúlkuna.

007 hlerar vitlausa síma

Samkvæmt nýrri breskri skýrslu gera leyniþjónustumenn hennar hátignar alltof margar skyssur þessa dagana. Þeir hlera vitlausa síma og gramsa í gegnum póst á heimilisföngum sem löngu hafa skipt um eigendur. Njósnurunum er þó talið það til afsökunar að þeir hafa haft gríðarlega mikið að gera undanfarin ár. Verkefnum þeirra hefur fjölgað langt umfram mannskap, síðan stríðið gegn hryðjuverkum hófst.

Falsaði tölvupóst til setts ríkissaksóknara

Einn af aðstoðarlögmönnum Baugsmanna falsaði tölvupóst frá Sigurði Tómasi Magnússyni, settum saksóknara, til Tryggva Jónssonar, fyrrverandi aðstoðarforstjóra Baugs. Pósturinn var í dag sýndur dómurum í Baugsmálinu af lögmanni Tryggva til að sýna fram á óáreiðanleika tölvupósta.

Ofsakastur rannsakaður sem almannahættubrot

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar mál tveggja ökuníðinga sem létu til sín taka um síðustu helgi sem almannahættubrot og þannig brot á hegningarlögum en ekki umferðarlögum. Við slíkum brotum er allt að tveggja ára fangelsi. Lögreglustjóri segir tíma til kominn að segja hingað og ekki lengra.

Rændi glænýju fjórhjóli við verslun

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í gær afskipti af bíræfnum þjófi sem rændi glænýju fjórhjóli fyrir utan verslun í austurborginni. Hjólið var ósamsett fyrir utan verslunina þegar því var stolið en lögregla fann það á verkstæði í öðru hverfi skömmu síðar.

Oil Company To Pay Customer Reparations

In what may prove to be a pivotal ruling, Reykjavík district court recently sentenced Ker, former owners of the Esso oil company, to pay a former customer, Sigurður Hreinsson, damages to the sum of 15.00 ISK for his losses on account of the company’s illegal co-operation with other Icelandic oil distributors. Ker was also sentenced to pay Hreinsson 500.000 ISK in court costs. The company has already stated its intentions to appeal the ruling to the Supreme Court.

Tréverkshúsið á Bíldudal illa farið eftir bruna

Miklar skemmdir urðu á Tréverkshúsinu á Bíldudal í dag þegar eldur kviknaði í húsinu. Eftir því lögreglan á Ísafirði segir var tilkynnt um eldinn um hádegisbil og var allt tiltækt lið frá Brunvörnum Vesturbyggðar og Tálknafjarðar kallað til að ráða niðurlögum eldsins.

Kartöflugeymslur fá nýtt líf á Vetrarhátíð

Gömlu kartöflugeymslurnar í Ártúnsbrekkunni ganga í endurnýjun lífdaga á föstudag og laugardag í tengslum við Vetrarhátíð 2007. Geymslunum verður breytt í listasmiðju þar sem boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá fyrir bæði unga og aldna eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Norðurlönd gegn kvikasilfri

Norðurlöndin styðja áform um alþjóðlegan samning um notkun kvikasilfurs og annarra þungmálma. Markmiðið er að semja um takmarkaða notkun málma af þessari tegund. Kvikasilfur er einkum notað við allskonar efnaframleiðslu í verksmiðjum, og í rafmagnstækjum.

Mýs eða kartöflur? - skorið úr um það í Íslandi í dag í kvöld

Nokkur umræða hefur skapast um það á bloggsíðum landsins í dag hvort tvær mýs hafi skotist yfir gólfið í verslun Bónuss í Holtagörðum í úttekt Íslands í dag á matvöruverði á landinu á Stöð 2 í gærkvöld. Tveir litlir hlutir sjást í innslaginu skjótast yfir gólfið þar sem Sölvi Tryggvason, fréttamaður Íslands í dag, er að fara yfir verð á tiltekinni kextegund.

Harma komu klámframleiðenda til landsins

Félag kvenna af erlendum uppruna á Íslandi harma það að framleiðendur kláms skuli hafa valið Ísland sem samkomustað og ætli sér að nota dvöl sína hér til að styrkja viðskiptatengsl og tækifæri. Í yfirlýsingu til fjölmiðla fordæmir félagið komu hópsins til landsins og hvetur stjórnvöld til þess að fylgjast grannt með ferðum hans og athæfi á meðan á heimsókninni stendur.

Segja dýr flegin lifandi í Kína

Dýraverndarsamtök í Ísrael, og víðar, halda því fram að loðfeldir sem koma frá Kína séu af dýrum sem séu flegin lifandi. Yfirrabbíni Ísraels hefur brugðist við með því að gefa út tilskipun um að gyðingar megi ekki íklæðast feldum sem séu flegnir af lifandi dýrum. Yona Metzger yfirrabbíni sagði að öllum Gyðingum bæri skylda til þess að koma í veg fyrir að dýr þjáist.

Breytingar á mælingu neysluverðsvísitölu

Geir H. Haarde forsætisráðherra mælti í dag fyrir frumvarpi um breytingar á lögum vísitölu neysluverðs. Með frumvarpinu er lagt til að vístalan verði reiknuð í hverjum mánuði miðað við verðlag í um það bil vikutíma um miðjan hvern mánuð en miðað við núverandi lög er vísitalan reiknuð út frá verðlagi fyrstu tveggja virkra daga í mánuði.

Ráðist á syrgjendur í jarðarför

Að minnsta kosti sjö létu lífið og 15 særðust þegar sprengjuárás var gerð á syrgjendur í jarðarför í Bagdad í dag. Athöfnin fór fram í tjaldi og þangað læddi sér einhver inn með sprengju. Árásin var gerð í hverfi sjía á Palestínustræti í norðurhluta höfuðborgarinnar. Talið er víst að súnnímúslimar hafi framið ódæðið.

Heilsuverndarstöðin verður hótel

Nýir eigendur Heilsuverndarstöðvarinnar við Barónsstíg hafa uppi hugmyndir um að breyta henni í hótel en þeir keyptu húsið af Mark-Húsum fyrir um mánuði. Mark-Hús keyptu húsið hins vegar af borginni og ríkinu í hitteðfyrra og var starfsemin sem þar var flutt í húsnæði í Mjódd og á Landspítalann.

ESB vill minnka útblástur stórlega

Umhverfisráðherrar Evrópusambandsins ætla að setja sér metnaðarfull og bindandi takmörk um minnkun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2020. Ráðherrarnir eru sammála um að minnka einhliða útblástur um 20 prósent, miðað við árið 1990, og um 30 prósent ef önnur iðnríki slást í hópinn.

Sjá næstu 50 fréttir