Fleiri fréttir

Sýknaður af ákæru um háskaakstur

Breskur lögreglumaður hefur verið sýknaður af ákæru um að aka á 256 kílómetra hraða á þjóðvegi M-54. Lögreglumaðurinn viðurkenndi greiðlega að hann hefði ekið svo hratt enda höfðu starfsbræður hans radarmælt hann á þeirri ferð. Hann viðurkenndi einnig að hafa ekið á 192 kílómetra hraða á vegarkafla þar sem hámarkshraðinn var 100 kílómetrar.

Atkvæðagreiðslu lýkur í dag

Frestur til að skila inn atkvæðum í formannskjöri Samfylkingarinnar rennur út klukkan sex í kvöld. Þeir seðlar sem berast eftir þann tíma verða ekki taldir með.

Segja söng Selmu ábótavant

Það eru margir vefir sem fjalla einungis um Eurovision og er haldið úti, oft á tíðum af sjúklegum aðdáendum þessarar keppni. Einn þeirra heitir doteurovision.com. Í umfjöllun þeirra um Selmu á æfingum í gær kemur fram að þar fari greinilega atvinnumaður í greininni, en það vanti aðeins uppá í söngnum.

Samið um víðtækt samstarf háskóla

Runólfur Ágústsson, rektor háskólans að Bifröst, og Fang Ming Lun, starfandi rektor háskólans í Shanghai, undirrituðu nú fyrir hádegi samning um víðtækt samstarf háskólanna tveggja. Sjö nemendur að Bifröst eru við nám við Háskólann í Shanghai.

Karlkennarar launahærri innan KHÍ

Karlkennarar við Kennaraháskóla Íslands eru að jafnaði með fjórum prósentum hærri laun en kvenkennarar í sambærilegum stöðum, á samsvarandi aldri, með sambærilegt rannsóknarálag og menntun. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um samanburð á launum starfsfólks við Kennaraháskóla Íslands sem unnin var af Félagsvísindastofnun.

Halonen sækist eftir endurkjöri

Tarja Halonen, forseti Finnlands, lýsti því yfir í dag að hún ætli að bjóða sig fram til endurkjörs í næstu forsetakosningum sem verða í janúar. Halonen, sem er 61 árs, hefur gegnt forsetaembættinu undanfarin fimm og hálft ár en kjörtímabilið er sex ár. Hún hefur verið afar vinsæl í skoðanakönnunum og þótt fylgi hennar hafi dalað aðeins, úr 61 prósenti í 53, þá er það engu að síður miklu meira en þeirra tveggja sem næstir koma, en þeir mælast báðir með um tuttugu prósenta fylgi.

Hafnar fullyrðingum um umframmjólk

Forsvarsmenn Mjólku, sem ætlar að framleiða osta utan styrkjakerfis landbúnaðarins, segja að fullyrðing Bændasamtakanna um að Mjólka megi ekki kaupa mjólk sem sé framleidd umfram greiðslumark fáist ekki staðist. Í yfirlýsingu sem lögmaður fyrirtækisins, Hróbjartur Jónatansson, sendi frá sér í dag fyrir hönd Mjólku, segir að engin rök séu fyrir því að takmarka framleiðslu og sölu mjólkurafurða enda sé ekki um að ræða takmarkaða auðlind sem þurfi að vernda og stjórna af hinu opinbera.

Reynt að myrða súnnítaleiðtoga

Árásum á stjórnmála- og embættismenn í Írak linnir ekki, en í dag réðust uppreisnarmenn á heimili stjórnmálaleiðtoga súnníta í Mósúl í norðurhluta landsins og skutu bílstjóra hans og þrjá öryggisverði. Maðurinn, Fawaz al-Jarba, slapp hins vegar lifandi og náði að kalla til bandarískar hersveitir sem hröktu árásarmennina á brott, en alls létust sjö manns í þessum átökum.

Segja margnota bleiur ekki betri

400 þúsund tonn eru notuð af einnota bleium á ári hverju. Rannsókn breskra umhverfissamtaka hefur þó leitt í ljós að það er ekki endilega umhverfisvænna að nota margnota bleiur. Orkan sem fer í að þvo þær og þurrka auk þvottaefnisins sem fer út í náttúruna gerir það að verkum að samtökin telja það hafa álíka slæm áhrif á umhverfið og einnota bleiurnar.

Neitar aðild að blóðbaði

Nur-Pashi Kulayev, 24 ára gamall tsjetsjenskur smiður, neitaði í dag að eiga sök á blóðbaðinu í barnaskólanum í Beslan í Suður-Rússlandi í fyrra. Kulayev er sá eini árásarmannanna 30 sem hertóku barnaskólann sem náðist á lífi, en 330 manns dóu í skólanum, flestir í sprengingum árásarmannanna. Þar af var helmingurinn skólabörn.

Harðari aðgerðir gegn veiðiþjófum

Indversk stjórnvöld verða að grípa til harðari aðgerða til þess að stemma stigu við tígrisdýradrápum í landinu. Þetta segir nefnd sem skipuð var til þess að kanna ástand tígrisdýrastofnsins í landinu. Fréttir bárust af því í mars að veiðiþjófar hefðu hugsanlega drepið öll tígrisdýrin, eða 16-18 dýr, á verndarsvæði í vesturhluta landsins og var í kjölfarið skipuð nefnd til að fara yfir málið.

Þrjú af fjórum undir lögaldri

Stúlkurnar sem stöðvaðar voru í Leifsstöð í gær voru allar undir lögaldri. Karlmaður sem stýrði för þeirra og ungs drengs var í dag úrskurðaður í viku gæsluvarðhald. Hann er frá Singapúr en ungmennin frá Kína. Talstöðin greindi frá þessu.

Lægst skattbyrði á Norðurlöndum

Skattbyrði á Íslandi er lægri en annars staðar á Norðurlöndum en hærri en í sumum öðrum ríkjum Vestur-Evrópu. Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu OECD um skattbyrði einstaklinga á árinu 2004, sem vefrit fjármálaráðuneytisins fjallar um í dag. Skattar á meðaltekjur einstaklinga á Íslandi, að frádregnum tekjutilfærslum, mældust 25,7 prósent af heildartekjum.

Fékk ekki bætur vegna ökklabrots

Ríkið var í dag sýknað af skaðabótakröfu konu sem datt og ökklabrotnaði á göngustíg við Fjölbrautaskólann í Breiðholti í janúar árið 2000. Krafðist konan tæplega 2,4 milljóna króna fyrir sjúkrakostnað og þjáninga-, miska-, og örorkubætur, en læknir mat varanlegan miska konunnar 15% og varanlega fjárhagslega örorku hennar 7%.

Nefnd áminnir fjárfesta í Símanum

Fjárfestar sem bjóða í Símann voru í gær áminntir bréflega um að virða trúnaðarsamning. Brot á honum geti "leitt til þess að hugsanlegir fjárfestar verði útilokaðir frá þátttöku í söluferlinu". </font /></b />

Lögregla skaut mann á götu úti

Lögreglumaður í bænum Larvik í Noregi skaut víetnamskan mann til bana í gær. Atburðurinn gerðist á aðalgötu bæjarins.

27% þreyttu öll samræmd próf

Aðeins 27 prósent tíundu bekkinga þreyttu öll sex samræmdu prófin en rúm 40 prósent þreyttu fimm próf. Aðeins tæp tvö prósent tóku ekkert samræmt próf. Yfir 90 prósent nemenda þreyttu próf í íslensku, ensku og stærðfræði en mun færri ákváðu að takast á við náttúrufræði, samfélagsgreinar og dönsku. Um þrjú hundruð nemar í níunda bekk tóku að minnsta kosti eitt samræmt próf.

Mótmælir tilefnislausum uppsögnum

Trúnaðarráð verkalýðsfélaga starfsmanna í álveri Alcan í Straumsvík sendi nú áðan frá sér ályktun þar sem það mótmælir harðlega tilefnislausum uppsögnum fimm starfsmanna. Sérstaklega er gagnrýnt að starfsmönnunum var vísað fyrirvaralaust af vinnustað. Þar segir að engar ástæður hafi verið gefnar fyrir uppsögnunum þótt eftir þeim hafi verið leitað.

Fékk alvarlegt hjartaáfall

Augusto Pinochet, fyrrverandi einræðisherra í Chile, fékk alvarlegt hjartaáfall í dag og var fluttur á sjúkrahús. Þetta hefur Reuters-fréttastofun eftir heimildarmanni sem er nátengdur fjölskyldu Pinochets. Einræðisherrann fyrrverandi hefur sætt ákærum fyrir grimmdarverk í stjórnartíð sinni, 1973-1990, en hann hefur verið heilsuveill undanfarin ár og fengið nokkur minni háttar hjartaáföll.

Ræddust við aftur eftir mánaða hlé

Bandarísk og norðurkóresk yfirvöld ræddust við á föstudaginn og þar hvöttu Bandaríkjamenn Norður-Kóreumenn til að hefja aftur viðræður við fimm ríki, þar á meðal Bandaríkin, um kjarnorkuvopnaáætlun sína. Frá þessu greindi einn talsmanna Hvíta hússins í dag. Viðræðurnar voru óformlegar og fóru fram í New York en slíkar viðræður hafa ekki farið fram síðan í desember.

Barnungar stúlkur seldar mansali

Grunur leikur á skipulögðu mansali í máli kínverskra ungmenna sem stöðvuð voru á Keflavíkurflugvelli í vikunni. Ungmennin komu hingað með vegabréf frá Singapúr á leið til Bandaríkjanna. </font /></b />

Launamunur í Kennaraháskólanum

Samkvæmt nýrri skýrslu Félagsvísindastofnunnar Háskóla Íslands um samanburð á launum karla og kvenna sem kenna við Kennaraháskóla Íslands þá hallar þar óvenju lítið á konur. Meðallaun karla eru rétt um 407 þúsund krónur á mánuði á meðan laun kvenna eru að meðaltali 349 þúsund krónur á mánuði eða 86% af launum karlanna. Þessi munur skýrist af einhverju leiti af því að karlar eru fleiri í prófessors- og dósentastöðum.

Lögreglumaður þurfti hjálp

Lögreglumaður á Eskifirði stöðvaði í fyrrakvöld mann við reglubundið eftirlit. Þegar maðurinn steig út úr bílnum stafaði frá honum megn áfengislykt og upphófust átök þegar hann streittist á móti handtöku.

Hæstiréttur dæmir Maitslandbræður

Hæstiréttur mildaði dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir tvíburabræðrunum Rúnari Ben og Davíð Ben Maitsland. Þeir höfðu áður verið dæmdir í fimm ára og fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir smygl á 27 kílóum af kannabisefnum frá Þýskalandi hingað til lands í ellefu ferðum.

Samstarfssamningur í Kína

Viðskiptaháskólinn á Bifröst og Háskólinn í Shanghai undirrituðu í gær samstarfssamning að viðstöddum forseta Íslands og borgarstjóra Shanghai. Í máli borgarstjórans kom meðal annars fram að efnahagur Shanghai hefði áttfaldast á síðustu 11 árum.

Aðeins eitt álver vegna mengunar

Aðeins er svigrúm fyrir eitt stórt álver í viðbót á Íslandi til ársins 2012 samkvæmt íslenska sérákvæðinu í Kyoto-bókuninni. Þetta er talið ýta undir álverskapphlaupið sem nú er hafið. Valdið til að úthluta mengunarkvótanum er í höndum iðnaðarráðherra.

Ákæra gefin út vegna banaslyss

Ríkissaksóknari hefur gefið út ákæru vegna banaslyss sem varð við Kárahnjúkastíflu í mars á síðasta ári. Ekki fæst gefið upp hverjir eða hve margir hafa verið ákærðir. Maðurinn sem lést í slysinu var 25 ára. Hann var við störf ofan í Hafrahvammagljúfri um hánótt þegar gríðarstór grjóthnullungur féll á hann.

Átelur vinnubrögð ráðuneytis

"Það viðhorf gagnvart umbjóðanda mínum einkennir málsmeðferð dómsmálaráðuneytisins, að hún sé með einhverju öðrum hætti heldur en annað fólk," sagði Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður, sem fór með mál Lilju Sæmundsdóttur, fyrir Héraðsdómi í gær.

Banamein hnífstungur í brjóst

Tvær hnífstungur í brjóstkassann drógu Vu Van Phong, Víetnamann sem ráðist var í Kópavogi á hvítasunnudag, til dauða. Þetta sýnir frumniðurstaða krufningar.

Dómur styttur vegna ónógra sannana

Hæstiréttur stytti í dag fangelsisdóm yfir Rúnari Ben Maitsland og tvíburabróður hans, Davíð Ben Maitsland, vegna ónógra sönnunargagna. Þeim er gefið að sök að hafa smyglað til landsins um 30 kílóum af hassi, sem aldrei var lagt hald á. Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari vildi sýkna þá bræður.

Lönduðu tólf hákörlum

Átta og hálft tonn af þorragóðgæti næsta árs kom í troll togarans Sundabergs við Grænland. Skipverjar lönduðu tólf hákörlum í gær.

Ók á lögreglumann í hálku

Það var enginn skortur á sönnunargögnum þegar ekið var á lögreglumann við skyldustörf í Minnesota í Bandaríkjunum í gær. Myndbandstökuvél í lögreglubílnum var í gangi og náði myndum af því þegar jeppi varð stjórnlaus í hálku og ók á lögreglumanninn á mikilli ferð. Hann hafði numið staðar til að aðstoða konu sem einnig hafði ekið út af í hálkunni.

Starfsmenn rísa gegn stjórnendum

Trúnaðarráð verkalýðsfélaga starfsmanna hjá Alcan mótmæla harðlega tilefnislausum uppsögnum fimm starfsmanna sem unnið höfðu lengi og farsællega fyrir fyrirtækið.

Stúlkur líklega ekki kærðar

Þrjár kínverskar stúlkur sem voru stöðvaðar ásamt ungum kínverskum manni og fylgdarmanni á fimmtugsaldri frá Singapúr eru 15 til 17 ára. Fylgarmaðurinn hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Fjölskylduhundur stökk í hver

"Þetta var hræðileg lífsreynsla," segir Berglind Ágústsdóttir en hundur hennar stökk ofan í hver og drapst á Flúðum í síðustu viku. Þegar eiginmaður Berglindar náði svo tíkinni úr hvernum hlaut hann annars stigs bruna á fæti.

Strandaði á hættulegu skeri

Smáey varð fyrir mun meiri skemmdum en talið var í fyrstu. Kafarar könnuðu ástand skipsins í gær og kom þá í ljós að um það bil metra löng rifa er á kilinum fyrir neðan stafn skipsins.

Neitað um ættleiðingu vegna offitu

Kona, sem dómsmálaráðuneytið neitaði um að ættleiða barn vegna offitu, hefur höfðað mál gegn íslenska ríkinu. Málið, sem var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, er það fyrsta sinnar tegundar hér á landi.

Rúmlega 11 þúsund kusu formann

Frestur til að kjósa formann Samfylkingarinnar og skila atkvæðinu rann út nú klukkan sex. Alls bárust rúmlega 11 þúsund atkvæði en úrslit verða birt á hádegi á laugardaginn.

Reyni að svæla fjölmiðla burt

Lögfræðingar rússneska auðjöfursins Míkhaíls Khodorkovskís segja að dómararnir séu að reyna að svæla af sér fjölmiðla með því að draga dómsuppkvaðninguna á langinn.

Ákærður fyrir Omagh-tilræði

Saksóknari á Norður-Írlandi hefur birt Sean Hoey sem talinn er vera félagi í hinum svonefnda Sanna írska lýðveldisher 61 ákæru fyrir margvísleg afbrot, þar á meðal sprengjutilræði í bænum Omagh árið 1998 sem kostaði 29 mannslíf.

Frekari andspyrna barin niður

Stjórnarherinn í Úsbekistan hertók síðastliðna nótt smáþorpið Korasuv og barði niður alla andspyrnu þar. Ekki er vitað um mannfall.

Heimsfaraldur tímaspursmál

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir að aðeins sé tímaspursmál hvenær fuglaflensan breiðist út um allan heim. Veiran er talin geta smitast á milli manna en þó er hún ekki talin bráðsmitandi ennþá.

Chirac fær liðsstyrk

Leiðtogar Þýskalands og Póllands hvöttu í gær franska kjósendur að leggja blessun sína yfir stjórnarskrársáttmála Evrópusambandsins.

Biður nágrannana um hjálp

Ibrahim al-Jaafari, forsætisráðherra Íraks, skoraði á ríkisstjórnir nágrannalandanna að herða landamæragæslu svo að hryðjuverkamönnum tækist ekki að komast inn í landið. Í það minnsta þrettán manns féllu í árásum í Írak í gær.

Ökuníðingar hvergi óhultir

Reykvískir ökuníðingar verða hvergi óhultir í sumar. Lögreglan í Reykjavík ætlar að beita sér sérstaklega gegn hraðakstri í íbúðahverfum og koma hraðamyndavélum fyrir í ómerktum lögreglubílum.

Sjá næstu 50 fréttir