Skoðun

Gervi­greindin er risi á brauð­fótum: Hve tæpt stöndum við í raun?

Björgmundur Örn Guðmundsson skrifar

Við tölum oft um gervigreind eins og hún sé andi sem svífur yfir vötnum, óháð efnislegum takmörkunum. Við köllum hana „skýið“ eða „algrímið“ en það er grundvallarmisskilningur því gervigreind er, þegar allt kemur til alls, þungaiðnaður. Hún er grafin upp úr jörðinni, brædd í ofnum og prentuð á sílikon. Og það sem meira er, þessi iðnaður hvílir á einhverri brothættustu og hættulegustu birgðakeðju mannkynssögunnar. Ef við horfum bak við tjöldin á ChatGPT eða Gemini, sjáum við ekki bara snjalla forritara í Kísildal heldur flókinn vef þar sem allir þræðir liggja í gegnum örfáa, landfræðilega flöskuhálsa.

Hjarta gervigreindarinnar

Ef þú ætlar að byggja gervigreind í dag, þá liggur leiðin til eyju í Kyrrahafinu sem er undir stöðugri hernaðarógn. Taívan er ekki bara land, það er hjarta stafræna heimsins þar sem fyrirtækið TSMC framleiðir um 90% af öllum háþróuðum gervigreindarflögum í heiminum. Hvort sem það er Nvidia, Apple eða AMD, þá eru þau öll háð einni verksmiðju á einni eyju. Þetta er landfræðileg samþjöppun sem á sér enga hliðstæðu. Ef olía finnst víða og hveiti má rækta í mörgum löndum, þá „rækta“ menn gervigreindarflögur nánast eingöngu í Taívan. Ef hafnbann yrði sett á eyjuna, eða náttúruhamfarir riðu yfir, myndi gervigreindarbyltingin ekki bara hægja á sér, hún myndi stöðvast. Við erum með öll eggin í einni körfu og sú karfa hangir á bláþræði pólitískra átaka.

Fjárhættuspil Bandaríkjanna

Hér komum við að stærsta þversögninni. Bandaríkin eru óumdeildur leiðtogi í hönnun og þróun gervigreindar og fyrirtæki eins og Nvidia, Microsoft, Google og OpenAI eru bandarísk. Hlutabréfamarkaðurinn í New York hefur tekið gífurlegt stökk byggt á þeirri trú að gervigreind sé nýja iðnbyltingin og stóru tæknifyrirtækin áætla að eyða hundruðum milljarða dollara í gervigreindarinnviði bara árið 2025. En þetta er risavaxið fjárhættuspil því þótt Bandaríkjamenn teikni flögurnar, geta þeir ekki framleitt þær. Þeir eru arkitektarnir sem kunna ekki að steypa. Ef aðfangakeðjan til Taívans rofnar, þá standa Bandaríkin eftir með verðmætustu hugverkaréttindi í heimi, en enga leið til að breyta þeim í veruleika. Ef gervigreindarbólan springur vegna skorts á vélbúnaði, verður höggið þyngst í Bandaríkjunum og gæti þurrkað út verðmæti sem jafnast á við heilar þjóðir. Bandarísk stjórnvöld átta sig á þessu og hafa dælt milljörðum dollara í að reyna að flytja framleiðsluna heim (CHIPS Act), en verksmiðjur verða ekki byggðar á einni nóttu. Það mun taka mörg ár, ef ekki áratugi, að minnka þessa áhættu og þangað til er stærsta hagkerfi heims háð aðfangakeðjum hinum megin á hnettinum.

Hollenska einokunin

En keðjan er veikari en svo. Til að framleiða þessar flögur þarf vélar sem eru svo flóknar að þær jaðra við vísindaskáldskap. Þær skjóta leysigeislum á bráðið tin 50.000 sinnum á sekúndu til að búa til ljós sem er beint með sléttustu speglum jarðar. Það er aðeins eitt fyrirtæki í heiminum sem getur smíðað þessar vélar, ASML í Hollandi. Enginn annar framleiðandi kemur til greina. Kína hefur reynt í áratugi að leika þetta eftir en án árangurs. Ef ASML hættir framleiðslu, eða ef útflutningsleiðir lokast, þá er engin leið til að búa til nýjustu kynslóð gervigreindar. Heimurinn treystir á eitt fyrirtæki í litlum bæ í Hollandi til að halda framtíðinni gangandi.

Er hægt að byrja upp á nýtt?

Er einhver að reyna að rjúfa þessa keðju? Já, heimurinn er að klofna í tvær fylkingar. Kína vinnur markvisst að því að smíða algjörlega óháða birgðakeðju, með eigin hönnun og framleiðslu (eins og hjá Huawei og SMIC). Sú keðja notar eldri og dýrari tækni, en hún er óháð Vesturlöndum. Á móti reyna Bandaríkin að flytja framleiðsluna „heim“, en eru enn háð vélum frá Hollandi og efnum frá Japan. Ef framleiðsla í Taívan eða Hollandi myndi stöðvast skyndilega, tæki það heiminn áratug að jafna sig. Það er ekki nóg að byggja verksmiðjur, það þarf þá sérfræðiþekkingu sem verkfræðingar búa yfir. Við myndum ekki sjá nýjan iPhone eða nýjar gervigreindarflögur í mörg ár.

Róbótar í vanda

Þessi veikleiki nær lengra en í tölvurnar. Ný kynslóð vélmenna (humanoid robots), sem eiga að bylta iðnaði, er sérstaklega viðkvæm. Þau þurfa tvennt: „Heila“ (gervigreindarflögur frá Taívan) og „vöðva“ (rafmótora með öflugum seglum). Vöðvarnir eru búnir til úr sjaldgæfum málmum, og þar situr Kína á trompunum. Róbótaiðnaðurinn er því tvöfalt háður, hann þarf heilann frá eyju sem Kína gerir tilkall til, og vöðvana frá Kína sjálfu. Einfaldari iðnaðarróbótar sleppa betur, en framtíðardraumurinn um vitsmunaverur úr stáli er algjörlega háður þessari brothættu keðju.

Hernaðarlist auðlindanna og Grænland

Það er ekki bara tæknin sem er flöskuháls, heldur jörðin sjálf. Gervigreind þarf sjaldgæfa málma til að virka. Gallíum og Germaníum eru efni sem hljóma eins og eitthvað úr lotukerfinu í efnafræðitíma, en án þeirra eru engin hröð samskipti og engir ljósleiðarar. Kína stjórnar um 98% af framleiðslu á gallíum og 60% af germaníum. Þegar Kína setti útflutningsskorður á þessi efni nýverið, var það áminning um að þótt Bandaríkin hanni flögurnar, þá situr Kína á hráefninu.

Hér kemur skýringin á skyndilegum og miklum áhuga Bandaríkjanna á Grænlandi. Þetta snýst ekki bara um landfræðilega legu, heldur um þá staðreynd að undir ísnum leynast einar stærstu birgðir heims af sjaldgæfum málmum utan Kína. Grænland er í framtíðinni lykillinn að því að rjúfa hráefnis-einokun Kína. Ásamt því að bráðnun íssins opnar siglingaleiðir sem stytta flutningstíma frá Asíu verulega, er Grænland orðið að „plan B“ í hinu stóra gervigreindarkapphlaupi. Viðskiptastríð stórveldanna snýst ekki lengur um tolla á bíla, heldur um að tryggja aðgang að námum norðurslóða til að halda kísildalnum gangandi.

Sjálfseyðingarhnappurinn

Viðkvæmni kerfisins er svo mikil að við erum farin að sjá nýlegan fréttaflutning um „kill switch“ eða sjálfseyðingarhnappa. Skýrslur herma að ASML og TSMC hafi komið sér upp ferlum til að óvirkja framleiðsluvélar með fjarstýringu ef til innrásar kæmi. Þetta segir okkur allt sem við þurfum að vita um stöðuna. Tæknin sem á að leiða okkur inn í nýja gullöld er svo verðmæt og svo hættuleg í röngum höndum, að framleiðendurnir eru tilbúnir að breyta dýrustu vélum heims í málmhrúgur á einu augabragði.

Hvað þýðir þetta fyrir okkur?

Fyrir Ísland er þetta grafalvarlegt mál. Við erum að byggja upp gagnaver og innviði sem treysta á að þessi alþjóðlega keðja haldi. Við höfum orkuna, matinn sem gervigreindin borðar, en við erum algjörlega háð innflutningi á „maganum“ sem meltir hana. Gervigreindin er öflugasta tækni samtímans, en hún er risi á brauðfótum. Hún hvílir á samspili námugraftar í Kína, hönnunar og fjármagns í Bandaríkjunum, vélaverkfræði í Hollandi og framleiðslu í Taívan. Ef einn hlekkur brestur, hrynur keðjan. Draumurinn um sjálfbæra, stafræna framtíð verður að taka mið af þessum veruleika. Í heimi vaxandi þjóðernishyggju og viðskiptahindrana er gervigreindin ekki bara hugbúnaður, hún er jarðefni, flutningaleiðir og pólitík. Og sú blanda er eldfimari en nokkru sinni fyrr.

Höfundur er ráðgjafi í nýsköpun og gervigreind.




Skoðun

Sjá meira


×