Uppgjörið: KR - Grindavík 68-85 | Gestirnir á toppinn Andri Már Eggertsson skrifar 5. nóvember 2025 22:09 Vísir/Anton Brink Það var frábær stemning þegar KR fékk Grindavík í heimsókn í toppslag. Leikurinn fór fjörlega af stað og liðin skiptust á körfum. Gestirnir enduðu leikhlutann á 3-9 áhlaupi og voru fimm stigum yfir eftir fyrsta leikhluta 22-27. Rebekka Rut Steingrímsdóttir, leikmaður KR, varð fyrir því óláni að snúa sig snemma í öðrum leikhluta. Rebekka lét teipa sig, beit á jaxlinn og var mætt aftur inn á undir lok fyrri hálfleiks. Grindvíkingar voru í tómum vandræðum með að stöðva Molly Kaiser, leikmann KR, sem var komin með 13 stig um miðjan annan leikhluta. Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, tók leikhlé eftir að heimakonur jöfnuðu 33-33. KR-ingar gerðu aðeins eina körfu síðustu fimm mínútur fyrri hálfleiks og Grindvíkingar gengu á lagið og voru níu stigum yfir í hálfleik 35-44. Daníel Andri Halldórsson, þjálfari KR, tók leikhlé eftir aðeins tvær mínútur í seinni hálfleik þar sem hans lið var ekki komið á blað. KR-ingar fóru í svæðisvörn og það fór að ganga betur á báðum endum vallarins. Heimakonur gerðu ellefu stig í röð og minnkuðu muninn niður í tvö stig og þá tók Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, leikhlé. Abby Claire Beeman endaði þriðja leikhluta á þriggja stiga körfu tveimur metrum frá þriggja stiga línunni og Grindavík var fimm stigum yfir þegar haldið var í fjórða leikhluta. Grindvíkingar sýndu klærnar í fjórða leikhluta og heimakonur gerðu aðeins tíu stig í leikhlutanum á meðan þriggja stiga skot gestanna fóru ofan í. Grindavík vann að lokum 17 stiga sigur 68-85. Atvik leiksins Abby Claire Beeman, leikmaður Grindavíkur, setti niður þriggja stiga skot tveimur metrum fyrir aftan þriggja stiga línuna í þann mund sem þriðji leikhluti kláraðist og það reyndist of þungur hnífur fyrir KR-inga. Stjörnur og skúrkar Abby Claire Beeman fór á kostum í liði Grindavíkur og gerði 35 stig. Hún tók einnig 6 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Ellen Nystrom, leikmaður Grindavíkur, var með tvöfalda tvennu en hún gerði 23 stig og tók 11 fráköst. Þriggja stiga nýting KR var ekki góð en liðið tók 24 þriggja stiga skot og aðeins þrjú fóru ofan í. Dómararnir Dómarar kvöldsins voru Davíð Kristján Hreiðarsson, Stefán Kristinsson og Ingi Björn Jónsson. Línan var oft á tíðum mjög sérstök. Dómararnir voru að flauta mikið á skref en mestmegnis á leikmenn KR sem gerði Daníel Andra Halldórsson, þjálfara KR, foxillan. Stemning og umgjörð Stemningin var frábær í KR heimilinu og mætingin var til fyrirmyndar. Það var skemmtileg athöfn fyrir leik þar sem heiðursgestir leiksins voru Íslandsmeistarar kvenna árið 2010 en það eru 15 ár frá því KR varð Íslandsmeistari í kvennaflokki. „Abby fór að hitta úr ótrúlegum þristum“ Þorleifur Ólafsson þjáflari Grindavíkur, var ánægður eftir sigur kvöldsinsErnir Eyjólfsson/Vísir Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, var ánægður með sigur kvöldsins gegn KR. „Tilfinningin í hálfleik var fín. Mér fannst við byrja síðari hálfleik vel en síðan fóru þær í svæðisvörn og þá fórum við að hugsa. Abby Beeman fór að hitta úr ótrúlegum þristum sem sleit okkur frá þessu og þá var restin fín,“ sagði Þorleifur eftir leik. KR fór í svæðisvörn í þriðja leikhluta sem skilaði liðinu ellefu stigum í röð og að mati Þorleifs dripplaði liðið of mikið. „Gegn svæðisvörn þarftu að senda en ekki drippla og við drippluðum allt of mikið. Það opnuðust fullt af glufum sem við vorum ekki að sjá.“ Þorleifur var ánægður með Abby undir lok þriðja leikhluta og í síðasta fjórðungi sem kláraði leikinn. „Þetta var hennar kafli og hún var að setja stór skot og þá kom sjálfstraust í liðið og hennar einstaklingsframtak var frábært fyrir okkur í kvöld,“ sagði Þorleifur að lokum. Bónus-deild kvenna Körfubolti KR Grindavík
Það var frábær stemning þegar KR fékk Grindavík í heimsókn í toppslag. Leikurinn fór fjörlega af stað og liðin skiptust á körfum. Gestirnir enduðu leikhlutann á 3-9 áhlaupi og voru fimm stigum yfir eftir fyrsta leikhluta 22-27. Rebekka Rut Steingrímsdóttir, leikmaður KR, varð fyrir því óláni að snúa sig snemma í öðrum leikhluta. Rebekka lét teipa sig, beit á jaxlinn og var mætt aftur inn á undir lok fyrri hálfleiks. Grindvíkingar voru í tómum vandræðum með að stöðva Molly Kaiser, leikmann KR, sem var komin með 13 stig um miðjan annan leikhluta. Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, tók leikhlé eftir að heimakonur jöfnuðu 33-33. KR-ingar gerðu aðeins eina körfu síðustu fimm mínútur fyrri hálfleiks og Grindvíkingar gengu á lagið og voru níu stigum yfir í hálfleik 35-44. Daníel Andri Halldórsson, þjálfari KR, tók leikhlé eftir aðeins tvær mínútur í seinni hálfleik þar sem hans lið var ekki komið á blað. KR-ingar fóru í svæðisvörn og það fór að ganga betur á báðum endum vallarins. Heimakonur gerðu ellefu stig í röð og minnkuðu muninn niður í tvö stig og þá tók Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, leikhlé. Abby Claire Beeman endaði þriðja leikhluta á þriggja stiga körfu tveimur metrum frá þriggja stiga línunni og Grindavík var fimm stigum yfir þegar haldið var í fjórða leikhluta. Grindvíkingar sýndu klærnar í fjórða leikhluta og heimakonur gerðu aðeins tíu stig í leikhlutanum á meðan þriggja stiga skot gestanna fóru ofan í. Grindavík vann að lokum 17 stiga sigur 68-85. Atvik leiksins Abby Claire Beeman, leikmaður Grindavíkur, setti niður þriggja stiga skot tveimur metrum fyrir aftan þriggja stiga línuna í þann mund sem þriðji leikhluti kláraðist og það reyndist of þungur hnífur fyrir KR-inga. Stjörnur og skúrkar Abby Claire Beeman fór á kostum í liði Grindavíkur og gerði 35 stig. Hún tók einnig 6 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Ellen Nystrom, leikmaður Grindavíkur, var með tvöfalda tvennu en hún gerði 23 stig og tók 11 fráköst. Þriggja stiga nýting KR var ekki góð en liðið tók 24 þriggja stiga skot og aðeins þrjú fóru ofan í. Dómararnir Dómarar kvöldsins voru Davíð Kristján Hreiðarsson, Stefán Kristinsson og Ingi Björn Jónsson. Línan var oft á tíðum mjög sérstök. Dómararnir voru að flauta mikið á skref en mestmegnis á leikmenn KR sem gerði Daníel Andra Halldórsson, þjálfara KR, foxillan. Stemning og umgjörð Stemningin var frábær í KR heimilinu og mætingin var til fyrirmyndar. Það var skemmtileg athöfn fyrir leik þar sem heiðursgestir leiksins voru Íslandsmeistarar kvenna árið 2010 en það eru 15 ár frá því KR varð Íslandsmeistari í kvennaflokki. „Abby fór að hitta úr ótrúlegum þristum“ Þorleifur Ólafsson þjáflari Grindavíkur, var ánægður eftir sigur kvöldsinsErnir Eyjólfsson/Vísir Þorleifur Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, var ánægður með sigur kvöldsins gegn KR. „Tilfinningin í hálfleik var fín. Mér fannst við byrja síðari hálfleik vel en síðan fóru þær í svæðisvörn og þá fórum við að hugsa. Abby Beeman fór að hitta úr ótrúlegum þristum sem sleit okkur frá þessu og þá var restin fín,“ sagði Þorleifur eftir leik. KR fór í svæðisvörn í þriðja leikhluta sem skilaði liðinu ellefu stigum í röð og að mati Þorleifs dripplaði liðið of mikið. „Gegn svæðisvörn þarftu að senda en ekki drippla og við drippluðum allt of mikið. Það opnuðust fullt af glufum sem við vorum ekki að sjá.“ Þorleifur var ánægður með Abby undir lok þriðja leikhluta og í síðasta fjórðungi sem kláraði leikinn. „Þetta var hennar kafli og hún var að setja stór skot og þá kom sjálfstraust í liðið og hennar einstaklingsframtak var frábært fyrir okkur í kvöld,“ sagði Þorleifur að lokum.