Innlent

Bíll valt eftir flótta undan lög­reglu og þrír slösuðust

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Veltan varð á mislægum gatnamótum í Ártúnsbrekku um hádegisbilið.
Veltan varð á mislægum gatnamótum í Ártúnsbrekku um hádegisbilið. Vísir/Vilhelm

Minnst þrír voru fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar eftir bílveltu í Ártúnsbrekkunni stuttu fyrir hádegi í dag. Bíllinn hafnaði á hvolfi utan í ljósastaur eftir að hann reyndi að stinga lögreglu af.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu staðfesta að þrír hafi verið fluttir til aðhlynningar eftir bílveltu á gatnamótum Miklubrautar og Reykjanesbrautar.

Ríkisútvarpið greinir svo frá því að lögregla hefði reynt að stöðva ökumann bílsins á Snorrabraut en að hann hafi svo gefið í og reynt að stinga lögregluna af. Bílnum hafi svo hvolft og hafnað utan í ljósastaur.

Fjórir sjúkrabílar og einn dælubíll slökkviliðsins voru sendir út en Ríkisútvarpið segir sex manns hafa verið um borð í bílnum sem hafi aðeins verið fimm sæta.

Aðgerðum er lokið á vettvangi að sögn lögreglunnar.

Veistu meira? Áttu myndir? Sendu okkur fréttaskot á visir.is/frettaskot eða tölvupóst á frettir@syn.is Fullum trúnaði er heitið auk þess sem lesendur geta sent nafnlausar ábendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×