Upp­gjörið: Tinda­stóll - FH 0-4 | Öruggur sigur gestanna

Arnar Skúli Atlason skrifar
fh ernir
vísir/Ernir

FH vann öruggan 0-4 á Tindastóli í dag í Bestu deild kvenna en bæði lið eru í harði baráttu á sitthvorum enda deildarinnar.

Heimakonur byrjuðu betur og voru nálægt því að skora í upphafi leiks sem Birgitta Rún Finnbogadóttir átti skot rétt framhjá marki gestanna.

Eftir þetta tók FH öll völd á vellinum og fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós á 17. mínútu þegar Thelma Karen Pálmadóttir geystist upp vænginn og setti boltann inn á teig þar sem Berglind Freyja Hlynsdóttir mætti og þrumaði boltanum í netið.

FH hélt áfram og þremur mínútum seinna voru þær búnar að skora annað mark. Hálfgert „deja vu“ en í þetta skiptið braust Margrét Brynja Kristinsdóttir upp hægri vænginn og setti boltann inn á teiginn þar sem Thelma Lóa Hermannsdóttir var fyrst á boltann og kom honum í netið.

FH bætti við þriðja markinu á 25. mínútu leiksins þegar Maya Hansen vann boltann eftir lélega sendingu til baka hjá Tindastóli og Maya keyrði í átt að markinu. Hún fékk frábært utan á hlaup frá Margréti Brynju þar sem Maya lagði boltann fullkomlega til hliðar fyrir hana og Margrét setti boltann örugglega í hornið og staðan 3-0 á átta mínútna kafla.

FH hélt áfram að vera sterkari út hálfleikinn án þess þó að bæta við marki og staðan því 3-0 í hálfleik.

Svipað var upp á teningnum í seinni hálfleiknum, FH var betra liðið og skapaði sér fleiri færi.

FH bætti svo við marki á 55. mínútu þegar Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir lék frábært þríhyrningsspil við Maya Hansen fyrir framan vítateig Tindastóls og komst í gegnum miðja vörnina, var ein á móti markmanni Tindastóls og setti boltann örugglega framhjá markmanninum.

Eftir þetta fjaraði leikurinn út og lítð var um opinn færi eftir þetta. FH sigldi þessu þægilega heim 4-0.

FH endar í 2. sæti deildarkeppninnar með 38 stig sem er það mesta í sögu kvennadeildar FH.

Tindastóll hins vegar endar í 9. sæti og er fjórum stigum frá öruggu sæti þegar neðra umspilið byrjar.

Atvikið

Klárlega fyrsta mark FH, þetta kom upp úr engu. Jafnræði var á milli liðina þegar Thelma Karen keyrði upp vænginn og þetta var frábærlega klárað hjá Berglindi.

Stjörnur

Allt FH liði var gott í dag frá fremsta til aftasta manns. Andrea Rán stjórnaði spilinu vel á miðjunni. Thelma og Thelma geggjaðar á köntunum. Maya Hansen sífellt ógnandi.

Dómarar [8]

Auðveldur leikur að dæma. Lítið í gangi mest allan leikinn.

Viðtöl

Guðni Eiríksson þjálfari FH var gríðarlega ánægður með sigur liðsins í dag á móti Tindastóli.

„Bara sáttur. Góð frammistaða hjá FH liðinu. Heilsteypt. Góðir hálfleikar báðir. Sanngjörn þrjú stig.“

FH þjarmaði vel að Tindastól í dag og var sigurinn öruggur.

„Við komum okkur í góðar stöður og góð upplegg hjá FH liðinu. Gott „build up“ frá öftustu línu upp í fremstu línu. Fjögur góð mörk og þau hefðu getað verið fleiri.“

FH endir í 2. sæti í deildinni, tveimur stigum á undan Þrótti.

„Gríðarlega ánægður. 38 stig eftir venjulega fyrri og seinni umferð sem er met í sögu kvennadeildar FH. Mjög sáttur. Nú tekur við ný barátta, fimm leikir eftir úrslitakeppni. Við þurfum heldur berjast fyrir því að halda þessu 2. sæti sem við erum í í dag.“

Halldór Jón Sigurðsson þjálfari Tindastóls var svekktur með leik dagsins.

„Svekktur. Já svekktur.“

Tindastóll byrjaði vel en FH tók yfir leikinn eftir um fimmtán mínútur í dag.

„Við byrjuðum vel og hefðum getað skorað. Það hefði kannski breytt einhverju í leiknum í dag. FH tók völdin hægt og bítandi og sýndi styrk sinn. Við vorum varfærnislegar sem var uppleggið okkar í dag og ætluðum að nýta föst leikatriði og skyndiupphlaup. Það gekk engan veginn. Það gengur ekki sérstaklega þegar þær ná skora. Þá þarf að breyta einhverju. Þá gengur ekki að vera varnfærnislegur lengur því þá halda þær bara boltanum. Við breyttum aðeins hálfleik og seinni hálfleikurinn skömminni skárri. Rauninni bara ferskar í seinni hálfleik og átti hann í rauninni að fara 1-1.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira