Upp­gjörið: HK - Þróttur 4-3 | HK fer með eins marks for­skot í senini leikinn eftir rússibanareið

Hjörvar Ólafsson skrifar
HK og Þróttur skildu jöfn i fyrri leik liðanna í undanúrslitum í umspili um laust sæti í efstu deild í Kórnum í kvöld. 
HK og Þróttur skildu jöfn i fyrri leik liðanna í undanúrslitum í umspili um laust sæti í efstu deild í Kórnum í kvöld.  Vísir/Pawel

HK og Þróttur áttust við í fyrri viðureign liðanna í undanúrslitum umspils Lengjudeildar karla í fótbolta um laust sæti í efstu deild í Kórnum í kvöld. Eftir markalausan fyrri hálfleik opnuðust flóðgáttir í þeim seinni og HK fór með 4-3 sigur af hólmi.

Liðin notuðu fyrri hálfleikinn til þess að þreifa á hvort öðru og hrista úr sér taugaspennuna. Stuðningsmenn liðanna fengu svo eitthvað fyrir peninginn í þeim seinni sem var bæði kaflaskiptur og bráðfjörugur. 

Þróttarar hafa verk að vinna í seinni leiknum. Vísir/Pawel

Leikmenn Þróttar voru einkar gjafmildir í seinni hálfleiknum en Eiríkur Þorsteinsson Blöndal varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net í upphafi seinni hálfleiksins. Tumi Þorvarsson slapp þá í gegnum vörn Þróttar og framhjá Þórhalli Ísak Guðmundssyni, markverði Þróttara. Tumi ætlaði að finna samherja í vítateignum en hitti fyrir Eirík sem skoraði sjálfsmark. 

Skömmu síðar átti Bart Kooistra svo skot að marki Þróttar sem virkaði sárasaklaust og hættulaust. Þórhallur Ísak náði hins vegar ekki að handsama boltann sem lak í netið og staðan skyndilega orðin 2-0 heimamönnum í vil. 

Þórhallur Ísak slær boltann frá marki Þróttar. Vísir/Pawel

Leikmenn Þróttar létu hins vegar ekki þessar tvær blautu vatnstuskur í andlitið slá sig út af laginu og sýndu mikinn karakter í kjölfarið. Baldur Hannes Stefánsson, fyrirliði Þróttar, nældi í vítaspyrnu eftir tæplega klukkutíma leik og Viktor Andri Hafþórsson skoraði af feykilegu öryggi úr vítinu. 

Brynjar Gautur Harðarson jafnaði svo metin fyrir Þrótt skömmu síðar. Brynjar Gautur átti þá góðan sprett í gegnum miðsvæðið og fékk að komast óáreittur upp að vítateigslínu og setti boltann í fjærhornið með hnitmiðuðu skoti. 

Það var aldrei spurning um að Viktor Andri myndi skora úr vítspyrnu sinni. Vísir/Pawel

Liam Daði Jeffs kom síðan Þrótti í 3-2 með marki sínu skömmu eftir að hann kom inná sem varamaður. Aron Snær Ingason átti þá skot sem Ólafur Örn Ásgeirsson, markmaður HK, varði en Liam Daði var réttur maður á réttum stað, tók frákastið og skilaði boltanum í netmöskvana.  

Þá var komið að þætti Karls Ágústs Karlssonar en hann reyndist hetja HK-inga í þessum leik. Um það bil fimm mínútum eftir að Karl Ágúst kom inn af varamannabekknum var hann búinn að breyta stöðunni í 3-3. Þórhallur Ísak missti þá boltann frá sér eftir fyrirgjöf annars varamanns, Jóhanns Þórs Arnarssonar. Karl Ágúst þefaði uppi hættuna eins og refur í boxinu og skoraði. 

Karl Ágúst fagnar hér fyrra marki sínu. Vísir/Pawel

Þessi leikur gat aldrei endað með jafntefli og dramatíkin náði hámarki þegar Karl Ágúst kreisti fram sigurmark í uppbótartíma leiksins. Karl Ágúst komst þá inn í skalla Viktors Steinarssonar til baka á Þórhall Ísak og potaði boltanum í netið. 

Viktor var nálægt því að bæta fyrir mistök sín á lokaandartökum uppbótartímans en Ólafur Örn varði þá skot hans og niðurstaðan 4-3 sigur eftir sjö marka seinni hálfleik. Liðin leiða saman hesta sína á nýjan leik í seinni leik undanúrslitanna í Laugardalnum á sunnudaginn kemur. 

Bæði lið voru með leikmenn í banni í þessum leik en Atli Arnarson og Brynjar Snær Pálsson voru í skammarkróknum hjá HK og Kári Kristjánsson, Njörður Þórhallsson og Vilhjálmur Kaldal í liði Þróttar. Þá var Arnþór Ari Atlason fjarri góðu gamni vegna meiðsla hjá HK-liðinu. Þeir leikmenn sem voru í banni snúa aftur í seinni leikinn og spurning hvort Arnþór Ari verði orðinn heill heilsu. 

Boltinn er hér á leið í markið í sigurmarki Karls Ágústs. Vísir/Pawel

Karl Ágúst kom, sá og sigraði inn af varamannabekknum. Vísir/Pawel

Hermann: Seinni hálfleikurinn alveg lygilegur

„Þetta var í raun alveg lygilegt. Leikurinn fór rólega af stað og bæð lið voru varfærin í fyrri hálfleik. Svo fór allt bara í hvínandi botn í seinni hálfleik sem var alveg stórskemmtilegur. Við byrjum seinni hálfleikinn af krafti og setjum inn tvö mörk,“ sagði Hermann Hreiðarsson, þjálfari HK, í hálfgerðu sjokki eftir viðburðarríkan seinni hálfleik. 

„Svo kemur bara frekar skrýtinn kafli þar sem það eru sex til sjö leikmenn hjá okkur haltrandi inni á vellinum og ég þurfti að velja hverja af þeim ég myndi taka út af. Það var óþarfi að leka inn þremur mörkum á þeim kafla en við vorum laskaðir um tíma,“ sagði Hermann um þann tæpa tíu mínútna kafla þar sem Þróttur skoraði þrjú mörk. 

„Við sýndum hins vegar alvöru karakter að snúa taflinu aftur okkur í hag og tryggja okkur sigurinn á lokakaflanum. Það hefði verið auðvelt að koðna eftir að hafa lent undir en við komum aftur á móti grjótharðir til baka og náðum okkur í forskot fyrir seinni leikinn,“ sagði hann stoltur af leikmönnum sínum. 

„Þeir sem komu inná mættu sprækir til leiks og við fengum innspýtingu með þeim. Þetta var galopið og sem betur fer náðum við að innbyrða sigur. Ólafur Örn varði vel undir lokin og tryggði okkur sigur. Nú þurfum við að sjá hverjum við getum tjasslað saman fyrir seinni leikinn. Það væri gott að hafa reynsluboltana með í þeim leik,“ sagði Hermann um seinni rimmu liðanna. 

Hermann Hreiðarsson þurfti að pússla liði sínu saman í seinni hálfleik vegna mikilla meiðsla hjá lærisveinum sínum. 

Sigurvin: Færum þeim fjögur mörk á silfurfati

„Þetta var ekkert endanlega sú leikmynd sem ég bjóst við fyrir leikinn. Það var 0-0 í hálfleik en svo fór bara að hellirigna í seinni hálfleik og mörkunum rigndi inn. Við búum til sjö mörk í seinni hálfleiknum sem er svekkjandi,“ sagði Sigurvin Ólafsson, þjálfari Þróttar, svekktur. 

„Leikmenn geta alltaf gert mistök og ég get ekki álasað þeim fyrir það að mistakast inni á vellinum. En að lenda í því að öll fjögur mörkin koma eftir mistök af okkur hálfu er bagalegt. Það er hins vegar bara hálfleikur og staðan er 4-3. Við höfum fulla trú á að við munum klára þetta verkefni og fara áfram,“ sagði Sigurvin borubrattur. 

„Strákarnir eiga hrós skilið fyrir að hafa ekki misst móðinn eftir að hafa lent í mótlæti. Það er margt sem á eftir að gerast í þessu einvígi og mikilvægt að missa ekki andann þrátt fyrir að á móti blási. Við hefðum viljað landa sigri eftir að hafa komist í 3-2 og það var lítið að frétta hjá þeim. Við klárum þetta bara í staðinn á heimavellinum okkar,“ sagði hann þar að auki. 

„Mér fannst við spila þennan leik vel og ef við sleppum því að gefa þeim mörk í seinni leiknum þá fer þetta vel. Við endurheimtum sterka leikmenn í seinni leikinn sem er auðvitað jákvætt. Þeir sem komu inn í þennan leik stóðu sig vel og nú leggjumst við allir saman á eitt að ná í jákvæð úrslit í seinni leiknum,“ sagði Sigurvin um komandi viðureign. 

Sigurvin Ólafsson, þjálfari Þróttar, fyglist með leiknum af hliðarlínunni í Kórnum í kvöld. Vísir/Pawel

Atvik leiksins

Sigurmark Karls Ágústs var jarðarberið ofan á kökuna á hreint út sagt stórkostlegum seinni hálfleik í Kórnum í kvöld. Seinni hálfleikurinn hafði upp á allt að bjóða og ég sárvorkenni þeim sem misstu af þessum frábæra fótboltaleik. 

Stjörnur og skúrkar

Brynjar Gautur batt saman miðjuspil Þróttar með Hrafni Tómassyni og Unnari Steini Ingvarssyni. Baldur Hannes var öflugur í varnarleik Þróttar og gerði vel að sækja vítið sem hóf viðspyrnu Þróttara. Aron Snær var handfylli í framlínu Þróttara og ógnaði sífellt með hraða sínum. Liam Daði Jeffs átti svo góða innkomu í sóknarleikinn. 

Aron Kristófer Lárusson lék vel bæði í stöðu vinstri bakvarðar og seinna miðvarðar hjá HK. Ívar Örn Jónsson stjórnaði spilinu hjá HK-liðinu af myndarbrag. Tumi Þorvarsson var lúsiðinn allan þann tíma sem hann spilaði og gerði varnarmönnum Þróttar lífið leitt. Karl Ágúst tók svo við af honum og skoraði mörkin sem skildu liðin að.  

Þróttarar fagna laglegu marki Brynjars Gauts. Vísir/Pawel

Dómarar leiksins

Dómarar leiksins, þeir Helgi Mikael Jónasson, Egill Guðvarður Guðlaugsson, Brikir Sigurðarson og Aðalbjörn Heiðar Þorsteinsson, sáu til þess að leikur þar sem spennustigið var hátt fór vel fram. Leikurinn fékk að flæða vel án óþarfa inngripa og allar stórar ákvarðnir voru réttar að mínu mati. Þeir fá því átta í einkunn fyrir vel unnin störf. 

Stemming og umgjörð

Það var afar vel mætt í Kórinn í kvöld og liðin fengu bæði góðan stuðning í þessum mikilvæga leik. Skemmtileg kvöldstund í Kórnum en bæði lið mega þó að ósekju beina sjónum sínum aðeins meira að því að hvetja sín eigin lið í stað þess að leiðbeina dómurum leiksins og veita þeim misgóðar ráðleggingar. 

HK-liðið er einu marki yfir eftir fyrri helming einvígisins. Vísir/Pawel

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira