„Hristir í stoðum“ RÚV? Hermann Stefánsson skrifar 1. september 2025 11:31 — Opið bréf til útvarpsráðs og mennta- og barnamálaráðherra Til þess að flýja menningarnótt, sem mér er ekki mikið um, ók ég áleiðis úr bænum með vini mínum og vini hans. Að vísu var menningarnóttin ekki jafn slæm og oft áður, skipulagið betra, en það borgar sig að reyna að koma sér sem lengst burt frá þessu árlega myrkri um miðdegisbil vegna alls þess umferðaröngþveitis og allrar þeirrar mannmergðar sem það hefur í för með sér, fyrir þá sem ekki hugnast slíkt almennt. Á leiðinni um og burt frá Reykjavík dunduðum við okkur við að búa til götuheiti úr heitum líffæra. „Meltingarveg“ bar á góma, „Öndunarvegur“ var nefndur, en eftir því sem ég best veit er orðið „botnlangi“ það eina þar sem þessir tveir flokkar orða skarast. Það mætti bæta úr því. Götuheiti bera sum hver vott um húmor, svo sem í Hvarfahverfinu, en heitið „Skrauthvörf“ hefur enn ekki litið dagsins ljós, jafn þarft og það væri, og „Geðhvörf“ eru engin. Í framhjáhlaupi hafði vinur minn á orði að hann hefði rekið sig, einu sinni sem oftar, á kyndugt orðalag á vef RÚV, þar sem gat að líta eftirfarandi setningu í frétt um hollensk stjórnmál: „Afsögn ráðherrans hristir enn í feysknum stoðum hollensku stjórnarinnar, sem er starfsstjórn eftir að harðlínuflokkur Geerts Wilders dró sig úr stjórninni í júní.“ Hvað merkir þetta? Er hægt að „hrista í stoðum“? Eða er einfaldlega verið að rugla saman tveimur orðatiltækjum, að „hrista upp“ í einhverju og þegar „hriktir í stoðum“ einhvers? Þekkja fréttamennirnir ekki sögnina að „hrikta“ og vita ekki hvað hún merkir og hver föst tenging hennar við „stoðir“ er? Venjulegur og starfi sínu vaxinn prófarkalesari hefði umsvifalaust lagt til að setningin yrði svofelld: „Með afsögn ráðherrans hriktir enn í feysknum stoðum hollensku stjórnarinnar, sem er starfsstjórn eftir að harðlínuflokkur Geerts Wilders dró sig úr stjórninni í júní.“ Hver hefði tapað á því? Getur verið að íslensk tunga hefði grætt agnarögn á því? Getur ekki verið að RÚV sé lögum samkvæmt hreinlega skuldbundið til að sinna íslenskri tungu? Barlómur 2, 105 Reykjavík Það er nú það. Er þetta ekki óttalegt nöldur í mér og „linnulaust væl“ um rétt málfar, eins og Helgi Hrafn Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður Pírata, komst nýlega að orði? Varla stendur Helgi Hrafn í þeirri trú að málflutningur af því tagi sem hann ástundar sé nokkur nýlunda eða til marks um róttæka og ferska hugsun? Þetta er ríkjandi skoðun, að það sé svo hundleiðinlegt að hlusta á fólk færa það í orð að til sé rétt málfar og rangt málfar og setja út á orðfæri menntamálaráðherra sem segir „mér langar“ og „ég vill“. En hvað er svona leiðinlegt við það? Hvaða málefnalegu rök standa til þess að áhugi almennings á íslenskri tungu sé væl, fremur en að ástæða sé til að kalla svör þeirra sem verður fótaskortur á tungunni í fjölmiðlum ekkert annað en einskært helvítis sífur? Nú er Helgi Hrafn fjörlegur og frjór náungi og í ofanálag fremur málefnalegur og til í að hlusta með opnum huga á hvaða málflutning sem er, sama hvaðan hann kemur. Ætti ekki að vera einkennismerki fyrir þannig mann að geta tekið því af stóískri ró og möglunarlaust þótt einhver álíti málfar hans fólks rangt? Er ekki menntun einmitt í því fólgin að geta tekið gagnrýni? Þarf Helgi Hrafn, eða hver sem er, að kippa sér nokkurn hlut upp við að einhver álíti að málfari hans eða annarra sé ábótavant? Varla er umburðarlyndið, eða óumburðarlyndisumburðarleysið, ég man ekki hvort, svo mikið að jafnt gangi yfir allt, ekkert sé til sem heiti „rétt“ og „rangt“ í einu eða neinu? Að öll viðhorf (ég flutti nýverið úr Viðhorfi 17 yfir í Fráhvarfahverfi) skuli vera svo einsleit að okkur beri beinlínis skylda til að álíta „eðlilega málþróun“ að það hreinlega „hristi“ í stoðum alls og á sama tíma samþykkja, væntanlega, möglunarlaust að það sé „eðlileg þróun“ að fólk í alræðisríkjum úti í heimi einfaldlega hverfi stöðugt oftar eða sé sprengt í tætlur í flugvélum, fremur en að það hrapi fram af svölum eins og áður gerðist um stjórnleysingjana, þótt það búi ekki við þá ágætlega nefndu götu Álfkonuhvarf? Hvarfahverfi í Hverfahvarfi Það getur varla verið neinum til meins að vita hvaða hugmyndirnar sem viðkomandi viðrar eru komnar, hver uppruni þeirra og rætur eru og hver saga, fremur en að sagan gufi sporlaust upp, líkt og álfkona í hvarfi í Hvarfahverfi, og svo skjóti hugmyndir upp kollinum og látist vera splunkunýjar. Hugmyndin um „málótta“ er komin til ára sinna. Hún felur í sér að við eilíft nöldur og skammir um málfar verði fólk hrætt við að nota tungumál sitt, fyllist svokölluðum „málótta“. Hugtakið birtist fyrst í íslenskum fjölmiðli árið 1971 og það var um þær mundir sem hugmyndin um hversu skelfilegt athæfi það væri að leiðrétta fólk festi rætur. Stefnan, sem var uppnefnd „Reiðareksstefnan“, var eðlilegt andsvar við „málhreinsunarstefnunni“ og hún hefur fyrir margt löngu orðið ríkjandi. Þarna á árinu 1973 birtist í ljóðabókinni Kvæði, ákvæði og önnur sératkvæði eftir Regínald Hrossdal úr Syðri Heykvísl eftirfarandi ferskeytla: Ég er svo hryllilega hræddur við að tala að það hristir í stoðum lífs míns. Á brag mínum bruna- er útsala og mér bregður í kút vegna máls þíns. Eða nei annars. Það birtist ekkert slíkt kvæði, ég er bara að ljúga. En það er ekkert til sem heitir „málótti“ lengur, spurning hvort mætti ekki endurvekja ögn af honum og sleppa þeirri leiðu tuggu að það sé í eðli sínu slæmt að leiðrétta málfar fólks, málfar barna sinna, málfar fólks í fjölmiðlum, málfar ráðherra, málfar allra, fyrst enn tórir áhugi almennings á íslenskri tungu. Það er ekki bara raunhæf staðreynd heldur frekar líklegt og jafnvel aðeins tímaspursmál hvenær íslenska hverfur af sjónarsviðinu. Hvaða afstöðu við tökum til þess fer eftir heimsmyndinni. Reiðarekspölur 18, Einn af þeim helstu sem hefur með réttu eða röngu verið kallaður „reiðareksmaður“ í málfarsefnum er Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emerítus í íslenskri málfræði. Eins og sést á nýlegum pistli hans er þetta þó ekki einhlítt. Þegar gengur fram af þeim allra opnustu í málfarslegum efnum er augljóslega eitthvað að. Athugasemd Eiríks er skýr og skorinorð og laukrétt. Það er ólöglegt að birta auglýsingar á ensku á skjá RÚV. Það á ekki að líðast. *** Og af hverju eru ekki til lög sem skylda eigendur veitingahúsa, kaffihúsa og kráa til þess að sjá til þess að starfsfólkið læri nægilega mikla íslensku til þess að geta afgreitt á þeirri tungu? Nú er það ekki svo til dæmis á Spáni að tyrkneskur þjónn sé til þjónustu reiðubúinn á einhverju öðru tungumáli en spænsku. Nei, þar talar allt þjónustufólk spænsku. Þá kemur gjarnan klisjan um að það sé svo ofboðslega erfitt að læra íslensku, hún sé svo snúið tungumál. Það er bull. Það er miklu erfiðara að læra finnsku en íslensku. Á spænsku eru ótal myndbönd á Youtube þar sem þjónar geta lært að afgreiða á spænsku. Á Íslandi þykir jafn sjálfsagt og að gefa börnum í skóinn að það sé kúnninn sem skipti yfir ensku, einkum í ljósi þess að Íslendingar séu svo góðir í ensku að eiginlega sé það til skammar fyrir enskumælandi þjóðir hversu mjög enska leiki á tungu Íslendinga og þeir tali tunguna langtum betur en þeir sem hafa ensku að móðurmáli. Það er della. Íslendingar eru ekkert sérstaklega góðir í ensku. Þá má lengi japla á því að eiginlega jafngildi það rasisma að vilja fá þjónustu á íslensku. Hvílík ekkisens þvæla! Fólk kjamsar á nýyrðinu „inngilding“, sem í mínum eyrum hljómar eins og orð yfir íslenskt-þýskt kynlífsleikfang. En hvaða fjandans „inngilding“ er það að tönnlast á því við fólk sem hefur ekki íslensku að móðurmáli að það sé eiginlega ekki hægt að læra tungumálið? Það er vel hægt. Ég hef rætt við fjölmarga innflytjendur sem tala ágæta íslensku. „Inngildingahverfið“ í grennd við Geldingaholt gæti haft rauðar götur, bláar götur og gular götur og haft Geldingahnappa að afleggjurum svo tryggt yrði að fólk villtist þar. Þeyst framhjá Þarmahverfinu Ef einhver hefur misst þráðinn er sá sem hér skrifar staddur í bíltúr til þess að reyna að flýja menningarnótt og var rétt í þessu að þeysa framhjá Þarmahverfinu, en þar eru ýmis götuheiti til mikillar prýði, þótt þeir hefðu getað sleppt nafninu á einum botnlanganum eða blindgötunni, sem ekki er við hæfi að nefna hér. Við erum að ræða ýmislegt um íslenska tungu. Auðvitað er ekki hægt að prófarkalesa útvarp, þar ríkir talmálið, og ekki heldur sjónvarp, nema þegar lesinn er upp ritaður texti. En svo vill til að eitt form RÚV er nákvæmlega eins og dagblað, að öðru leyti en því að ekki er prentað á pappír heldur birt á netinu. Er sá hluti prófarkalesinn? Nei. Það getur verið vandi að aka og vandinn minnkar ekki þegar ég og ferðafélagarnir dælum upp úr okkur götuheitum sem eru ekki til og það eru áhöld um hvort nokkuð skáni þótt maður stilli leiðsögutækið á íslensku. Sú sem þar hefur orðið talar nefnilega um „afleggjara“ þegar réttara væri að tala um „afrein“ og þegar hún vill að maður beygi talar hún um að „byggja til hægri“ og „byggja til vinstri“. Að vísu væri ekki vanþörf á allri þessari byggingarstarfsemi en maður veltir fyrir sér hvort einhver skilji hvað hún á við. Blokkirnar skjótast upp og allar þessar götur sem rísa samhliða akstrinum kalla á ný heiti. Það er svo sem ekki vandinn. Frá Skjáhverfinu yfir í Arkahverfi Í Skjáahverfinu, rétt við Útvarpsráðhústorgið, kennir margra skjáa. Þar er meðal annars Skjásætið, maður situr í því þegar maður les af skjá. Þessi bílferð mun taka óratíma, ég er ekki einu sinni kominn út fyrir borgarmörkin eftir þrjá klukkutíma. Ég held að ég hafi lært mest í íslensku af prófarkalesurum. Þeir eru að vísu misjafnir. Sumir eru slettirekur og skilja ekki að þeir eru í þjónustuhlutverki, ekki einræðisherrar tungumálsins sem þiggja vald sitt frá æðri máttarvöldum, né heldur áhrifavaldar sem erfa glæsileika sinn og hlutverk sitt frá gömlum sögum um álfa. Ég gæti nefnt nokkra framúrskarandi prófarkalesara. Einn þeirra sat þarna með mér í bílnum. Ég er sjálfur prófarkalesari. Hver einasta auglýsingastofa með sjálfsvirðingu er með prófarkalesara. Öll bókaforlög nota prófarkalesara. Allar helstu stofnanir landsins eru með prófarkalesara. Hver einasta ræða á Alþingi er prófarkalesin margsinnis. Það er ekki þar með sagt að prófarkalesarar séu hálfguðir sem aldrei geri villur sjálfir og hafi alltaf á réttu að standa. Þeir eru mennskir, vinna við það sem mætti kalla afskiptasemi, getur orðið á í messunni eins og öllum öðrum, því allir gera villur, og þeir bestu hreykja sér ekki af störfum sínum heldur vilja vera ósýnilegir. Prentuðum dagblöðum hefur farið fækkandi á Íslandi, eins og víðar. Þetta væri eðlileg þróun ef það vinnulag sem tíðkast á prentmiðlum erfðist yfir á netið. Þannig er Morgunblaðið prófarkalesið. Nú má fólk skattyrðast út í Morgunblaðið að vild mín vegna en staðreyndin er óneitanlega sú að miðað við vef RÚV er staðan í prófarkalestri tíu-núll fyrir Morgunblaðinu. Stoðgata Af hverju ætli þetta sé? Af hverju „hristir í stoðum“ RÚV? Hugsanlega er ástæðan sú að vefur RÚV á engar rætur í prentuðu máli, hann er vefútgáfa miðla sem að miklu leyti eru talmál en ekki ritmál. Enda þótt það sé óvenju spaugileg villa að það „hristi“ svona í stoðum RÚV er langt frá því að hún sé einsdæmi. Suma daga má lesa allar fréttir á RÚV-vefnum og hver einasta þeirra er með villum, sumar með mörgum. Ég hirði ekki um þann sparðatíning sem þyrfti til að sanna mál mitt, það hafa aðrir margsinnis gert og sömuleiðis ég sjálfur. Villurnar á vef RÚV eru slíkur mýgrútur að engu tali tekur. Eitt sinn spurðist ég fyrir og var sagt með nokkrum þjósti að vefurinn væri víst prófarkalesinn, sem breyttist síðan yfir í að hann væri prófarkalesinn eftir á. Til hvers? Er það ekki svolítið eins og að fara í reiðtúr og söðla svo hrossið á eftir? Gæða sér á lambahrygg og slátra því næst lambinu? Það blasir við að vefurinn er ekki prófarkalesinn fyrir fimm aura. Sú staðreynd er einfaldlega smánarleg. Eins og segir í málstefnu RÚV, sem Eiríkur Rögnvaldsson getur um í pistlinum sem vísað er til hér að ofan, hefur RÚV „ríkar skyldur við íslenskt mál og því ber, samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið nr. 23/2013, að leggja rækt við íslenska tungu.“ Með því að vefur RÚV er ekki prófarkalesinn eru brotin lög. Það hriktir í raun og veru í sjálfum stoðum RÚV. Öllvelkomin-hverfið Eitt það lúalegasta sem fyrir ber og notað er til varnar ríkjandi ástandi er að beita fyrir sig kynjapólitískum atriðum íslenskunnar og segja þá sem andmæla slælegri frammistöðu RÚV í málefnum íslenskunnar bara ekki vilja nota kynhlutlaust orðfæri á borð við „öll velkomin“, nýyrði um kynsegin fólk og þvíumlíkt. Þannig er allri hugsun um íslenska tungu þröngvað inn í litla kompu í Skotgrafahverfinu. Álitamál af þessum toga eru örfá prósent af þeim villukræsingum sem RÚV ber á borð á vef sínum. Lítið þýðir að bera umkvartanir og nöldur undir málfarsráðunaut RÚV, því í þeirri sömu málstefnu og getið er um hér að ofan segir að málfarsráðunautur fari „með aðgengismál í miðlum RÚV“. Nú hef ég að vísu ekki minnstu hugmynd um hvað því orði er ætla að merkja, ef nokkuð, en í öllu falli er það vel að einhver sinni „aðgengi“ og jafnvel „aðgengismálum“ við Efstaleiti. Alltof víða eru tröppur ófærar öðrum en þeim sem geta notað tröppur, og í öllu falli er ljóst að málfarsráðunautur sér ekki um prófarkalestur. Það kemur kjarna máls ekkert við þótt margt frjótt gerist á kynjapólitísku sviði tungumálsins. Eitt af þeim orðum sem þaðan eru sprottin er hugtakið „regnbogaþvottur“. Það er góð og gild þýðing á ensku orði um þá tilhneigingu gjarnan vafasamra fyrirtækja að þvo sig upp úr samúð með réttindabaráttu minnihlutahópa, gagngert í því skyni að torvelda gagnrýni á framferði fyrirtækisins almennt, því ekkert vottorð er til um hvort innan fyrirtækja grasseri ójafnrétti, hatur og mismunun. Ódýrari þvott er ekki hægt að fá því regnbogaþvottur er ókeypis og fyrirbærið getur verið með öllu innistæðulaust. Málstefna RÚV ber einnig merki um ákveðna bjartsýni — eða eigum við að segja oftrú? — á að þeim sem er í nöp við minnihlutahópa sé gersamlega fyrirmunað að finna upp ný orð sem tjái hatur þeirra á samkynhneigðum, eða hverjum sem vera vill. Líklega stendur málfarsráðunautur í þeirri trú að ef hún útrými orðum á borð við „hommatittur“ sé málið leyst. Svo er ekki. Það eru engin takmörk fyrir því hvaða orð má viðhafa til að tjá hug sinn og það eina sem málfarsstefna af þessu tagi áorkar er nýsköpun í tungumálinu úr hinni áttinni. „Hann býr í fokkíng Kynhverfinu,“ getur fólk allt eins sagt, eða: „Hann er helvítis Kynhverfingur“, og fært sér þannig í nyt gamla og mislukkaða tilraun til að færa homma undir hlutlaust orð með því horfna nýyrði „kynhverfur“. „Kynhverfir“ náði aldrei flugi sem orð, hommar ákváðu að nota hið niðrandi orð „hommi“ og breyta merkingu þess. Sjaldan hefur betri ákvörðun verið tekin. Ekki aðeins er slík málpólitísk stefna vita vonlaus, hún er algert aukaatriði í villubunkanum sem snýst um venjulega og gamaldags nýlendustefnu stórra tungumála. „Á horni Bayswater Road og Lækjargötu“ Langflestar villurnar eru af einni og sömu rótinni sprottnar: Innrás eins tungumál inn í annað. Það er að segja innrás enskunnar í íslenskuna. Þetta er ekki nýtt og ekki séríslenskt fyrirbæri, stór tungumál hafa alla tíð ráðist á önnur smærri og oftsinnis útrýmt þeim. Þau undanbrögð að heimfæra allt upp á málpólitík eru hjárænuleg því það er enginn stjórnmálaflokkur til á Íslandi sem er andvígur því að reynt sé að sporna við áhrifum ensku á íslensku. Við ambögum, innsláttarvillum, enskri setningargerð, beinþýðingum á enskum orðatiltækjum, misskilningi á íslensku máli, kunnáttuleysi sem stafar ekki af neinu nema skorti á einstaklingum sem geta frætt og upplýst. Það sem gerist þegar prófarkalesari starfar hjá miðli er að þekking kynslóðanna erfist. Ef enginn prófarkalesari starfar hjá miðli er engin von til þess að ungir fréttamenn læri eitt eða neitt. Og þar með lærir íslenska þjóðin ekki neitt og fyrr en varir er farið að „hrista“ í stoðum íslenskrar tungu. Er það ekki allt í lagi? Jú, svo sem, íslensk tunga deyr út fyrr eða síðar, en valið stendur um að tapa þeirri orrustu með reisn eða allsendis án nokkurrar tignar. Þeir sem hafa yfirleitt nokkurt gildismat vilja halda reisn sinni fram að banastundinni. En ég var víst í miðri ferðasögu. Hún hófst á því að það tók mig einn og hálfan klukkutíma að komast úr Laugardalnum vestur í bæ vegna umferðarteppu hinna menningarsinnuðu. Síðan þá gerðum við víðreist um byggð og óbyggð hverfi Reykjavíkur en stefnan var tekin austur yfir Fjall. Sennilega hef ég ekki vitnað í ljóðlínur Braga Ólafssonar um horn Bayswater Road og Lækjargötu, enda er hæpið að hún hafi nokkuð með íslenska málstefnu að gera, það er engin tungumálaleg vandlæting í þessari ljóðlínu heldur aðeins hið óvænta sjónarhorn á tilveruna sem einkennir góð ljóð. Enda er ég sjálfur heldur enginn engill, stundum gleður mig hreinlega að heyra enskuslettur. Íslensk tunga er lifandi og verður ekki varðveitt í formalíni. Það merkir ekki að réttast af öllu sé að hafa enga stefnu og enga skoðun, því stefnuleysi er líka stefna. Stefnan er sett rakleiðis út í skurð. Tunguskurður 1 Það var einmitt úti í skurði sem við enduðum bílferðina, ekki lengur akandi. Af ýmsum ástæðum varð mér villugjarnt, og ég ók langt framhjá þeim viðburði sem við höfðum sett kúrsinn á, kannski vegna þess að ég hafði á tilfinningunni að þar yrði síst minna fjölmenni en á menningarnótt í Reykjavík og þótt ég sé kannski „margmenni“, eins og Þórarinn Eldjárn orðaði einhverju sinni það ástand að vera margir menn í senn, er ég lítt gefinn fyrir fjölmenni. Í huganum setti ég saman kröfugerð í tveimur liðum: Undirritaður krefst þess að útvarpsráð sjái til þess að vefur RÚV verði prófarkalesinn. Undirritaður krefst þess að barna- og menntamálaráðherra setji lög um að öllum þjónustustöðvum, svo sem veitingahúsum og kaffihúsum, verði gert skylt að sjá til þess að þjónustuaðilar fái fullnægjandi nám í íslensku, á eigin kostnað en með fulltingi stjórnvalda. Þetta er ekki galið heldur eiginlega sjálfsagt. Af gúgli sé ég að í útvarpsráði situr Stefán Jón Hafstein og síðast þegar ég vissi til var hann mjög vel máli farinn, með reynslu af fjölmiðlum og áhugasamur um íslenska tungu. Um barna- og menntamálaráðherra, Guðmund Inga Kristmundsson, er eftirfarandi að segja: Ráðherranum er sennilega fyrirmunað að panta sér kaffi á íslensku kaffihúsi því hann talar ekki ensku, eins og fram hefur komið. Augljóslega eru það hagsmunir hans að geta pantað kaffi á íslensku, þótt íslenskukunnáttan sé kannski ekki upp á marga fiska. Þetta eru skilyrðislausar kröfur mínar. Ég krefst umsvifalausra viðbragða frá útvarpsráði og menntamálaráðherra. Ef engin verða er aldrei að vita hverju ég tek upp á. Ég er ekki yfir hryðjuverk hafinn og ekki heldur eru mótmæli, þrungin möguleikanum á ofbeldi, neðan minnar virðingar. Þótt það kunni að koma íslenskum smáborgurum á óvart eru til þjóðir og þjóðarbrot, landfræðilega örskammt frá Íslandi, þar sem tungumálið þykir þess vert að efnt sé til mótmæla til að andæfa aðgerðum sem gera tungunni lægra undir höfði. Ég hef búið á þannig landsvæði á Spáni. Og nei, þetta eru ekki þjóðernisfasistar heldur ósköp venjulegt fólk, sumt hvert meira til vinstri en hægri í stjórnmálum og annað knúið áfram af nokkru sem kalla má ást á tungu og uppruna, ef slíkt inniheldur ekki of miklar fínessur til þess að nefndir smáborgarar botni neitt í því. Það er samt ekki flókið. Fjölmenningarsamfélag er aldrei án árekstra og þegar diktuð eru upp orð eins og „inngilding“ merkir það ekki neitt. *** Það fyrirfinnast nokkrir prófarkalesarar á Íslandi sem yrði ekki skotaskuld úr því að prófarkalesa vef RÚV jafnóðum. Um leið og fréttir birtast má hæglega hafa forbirtingu og einum manni — einu stöðugildi — væri hægðarleikur að leiðrétta verstu ambögurnar, fréttamenn eru ekki of góðir til að renna yfir það fyrir endanlega birtingu og allir myndu græða á þessu. Einn þessara prófarkalesara var á ferð með mér austur yfir Fjall. Að vísu endaði ferðin að heita má ofan í skurði. Samferðamaður okkar sat þar fastur, ég hafði rokið áfram og skilið þá tvo eftir en það var nokkrum vandkvæðum bundið að komast yfir skurðinn, eða upp úr honum, þótt ég sjálfur hefði rokið áfram og skilið samferðamenn mína eftir fasta í skurði. Að lokum var skurðurinn sigraður og upp úr honum komist. Þetta reddaðist allt. Það gerir það alltaf. Ekki síst ef vilji er til. En það dugir ekki að fara að eins og útvarpsráð og menntamálaráðherra og aðhafast nákvæmlega ekki neitt. Íslenskan situr föst í skurði. Það „hristir í stoðum“ RÚV. Hvað á að gera í því? Höfundur er prófarkalesari. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ríkisútvarpið Mest lesið Við getum öll bjargað lífi Kristófer Kristófersson Skoðun Fyrir hvern erum við að byggja? Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir Skoðun Finnst ykkur þetta í lagi? Opinn pistill til heilbrigðisráðherra, landlæknis og forystu heilbrigðiskerfisins Steindór Þórarinsson Skoðun Opið bréf til innviðaráðherra Eyjólfur Þorkelsson Skoðun Tímamót í velferðarmálum: Nýtt örorkulífeyriskerfi tekur gildi Guðmundur Ingi Guðbrandsson Skoðun „Hristir í stoðum“ RÚV? Hermann Stefánsson Skoðun Hugleiðing um rauð epli og skynjun veruleikans Gauti Páll Jónsson Skoðun Menntun til framtíðar Bryngeir Valdimarsson Skoðun Áfengissala: Þrýstingur úr tveimur áttum Ögmundur Jónasson Skoðun Hin dásamlega sturlun: Umræðan á Íslandi Davíð Bergmann Skoðun Skoðun Skoðun Það er heldur betur vitlaust gefið á Íslandi Jónas Yngvi Ásgrímsson skrifar Skoðun Að bera harm sinn í hljóði Gunnhildur Ólafsdóttir skrifar Skoðun Velferð sem virkar Guðrún Hafsteinsdóttir skrifar Skoðun Gleðileg ný fiskveiðiáramót …von eða ótti? Arnar Laxdal skrifar Skoðun „Hristir í stoðum“ RÚV? Hermann Stefánsson skrifar Skoðun Opið bréf til innviðaráðherra Eyjólfur Þorkelsson skrifar Skoðun Hin dásamlega sturlun: Umræðan á Íslandi Davíð Bergmann skrifar Skoðun Áhrif, evran, innviðir, öryggi Magnús Árni Skjöld Magnússon skrifar Skoðun Hugleiðing um rauð epli og skynjun veruleikans Gauti Páll Jónsson skrifar Skoðun Tumi þumall og blaðurmaðurinn Kristján Logason skrifar Skoðun Tímamót í velferðarmálum: Nýtt örorkulífeyriskerfi tekur gildi Guðmundur Ingi Guðbrandsson skrifar Skoðun Stefnum á að veita 1000 börnum innblástur fyrir framtíðina Dr. Bryony Mathew skrifar Skoðun Samgönguáætlun – skuldbinding, ekki kosningaloforð skrifar Skoðun Menntun til framtíðar Bryngeir Valdimarsson skrifar Skoðun Við getum öll bjargað lífi Kristófer Kristófersson skrifar Skoðun Finnst ykkur þetta í lagi? Opinn pistill til heilbrigðisráðherra, landlæknis og forystu heilbrigðiskerfisins Steindór Þórarinsson skrifar Skoðun Menntastefna stjórnvalda – ferð án fyrirheits? Sigvaldi Egill Lárusson skrifar Skoðun Fyrir hvern erum við að byggja? Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir skrifar Skoðun Beint og milliliðalaust Jón Steindór Valdimarsson skrifar Skoðun Áfengissala: Þrýstingur úr tveimur áttum Ögmundur Jónasson skrifar Skoðun Hver vill heyra um eitthvað jákvætt sem er gert í skólunum? Rakel Linda Kristjánsdóttir skrifar Skoðun Enn af ferðum Angelu Müller. Eru erlendir ferðamenn afætur? BJarnheiður Hallsdóttir skrifar Skoðun Ég er íslensk – en samt séð sem eitthvað annað Sóley Lóa Smáradóttir skrifar Skoðun Hin yndislega aðlögun Gunnar Hólmsteinn Ársælsson skrifar Skoðun Kristrún slær á puttana á Viðreisn Hjörtur J. Guðmundsson skrifar Skoðun Skóli án aðgreiningar: Að gefast upp er ekki valkostur Jóna Guðbjörg Ingólfsdóttir skrifar Skoðun Skóli án aðgreiningar: Að gefast upp er ekki valkostur Jóna Guðbjörg Ingólfsdóttir skrifar Skoðun Er félagsfælnifaraldur í uppsiglingu? Sóley Dröfn Davíðsdóttir skrifar Skoðun Hugleiðing við starfslok kennara í Reykjavík Elín Guðfinna Thorarensen skrifar Skoðun Bílahús í Reykjavíkurborg – aðgengi, lög og ójöfnuður Alma Ýr Ingólfsdóttir,Vilhjálmur Hjálmarsson,Bergur Þorri Benjamínsson,Sigurður Ágúst Sigurðsson skrifar Sjá meira
— Opið bréf til útvarpsráðs og mennta- og barnamálaráðherra Til þess að flýja menningarnótt, sem mér er ekki mikið um, ók ég áleiðis úr bænum með vini mínum og vini hans. Að vísu var menningarnóttin ekki jafn slæm og oft áður, skipulagið betra, en það borgar sig að reyna að koma sér sem lengst burt frá þessu árlega myrkri um miðdegisbil vegna alls þess umferðaröngþveitis og allrar þeirrar mannmergðar sem það hefur í för með sér, fyrir þá sem ekki hugnast slíkt almennt. Á leiðinni um og burt frá Reykjavík dunduðum við okkur við að búa til götuheiti úr heitum líffæra. „Meltingarveg“ bar á góma, „Öndunarvegur“ var nefndur, en eftir því sem ég best veit er orðið „botnlangi“ það eina þar sem þessir tveir flokkar orða skarast. Það mætti bæta úr því. Götuheiti bera sum hver vott um húmor, svo sem í Hvarfahverfinu, en heitið „Skrauthvörf“ hefur enn ekki litið dagsins ljós, jafn þarft og það væri, og „Geðhvörf“ eru engin. Í framhjáhlaupi hafði vinur minn á orði að hann hefði rekið sig, einu sinni sem oftar, á kyndugt orðalag á vef RÚV, þar sem gat að líta eftirfarandi setningu í frétt um hollensk stjórnmál: „Afsögn ráðherrans hristir enn í feysknum stoðum hollensku stjórnarinnar, sem er starfsstjórn eftir að harðlínuflokkur Geerts Wilders dró sig úr stjórninni í júní.“ Hvað merkir þetta? Er hægt að „hrista í stoðum“? Eða er einfaldlega verið að rugla saman tveimur orðatiltækjum, að „hrista upp“ í einhverju og þegar „hriktir í stoðum“ einhvers? Þekkja fréttamennirnir ekki sögnina að „hrikta“ og vita ekki hvað hún merkir og hver föst tenging hennar við „stoðir“ er? Venjulegur og starfi sínu vaxinn prófarkalesari hefði umsvifalaust lagt til að setningin yrði svofelld: „Með afsögn ráðherrans hriktir enn í feysknum stoðum hollensku stjórnarinnar, sem er starfsstjórn eftir að harðlínuflokkur Geerts Wilders dró sig úr stjórninni í júní.“ Hver hefði tapað á því? Getur verið að íslensk tunga hefði grætt agnarögn á því? Getur ekki verið að RÚV sé lögum samkvæmt hreinlega skuldbundið til að sinna íslenskri tungu? Barlómur 2, 105 Reykjavík Það er nú það. Er þetta ekki óttalegt nöldur í mér og „linnulaust væl“ um rétt málfar, eins og Helgi Hrafn Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður Pírata, komst nýlega að orði? Varla stendur Helgi Hrafn í þeirri trú að málflutningur af því tagi sem hann ástundar sé nokkur nýlunda eða til marks um róttæka og ferska hugsun? Þetta er ríkjandi skoðun, að það sé svo hundleiðinlegt að hlusta á fólk færa það í orð að til sé rétt málfar og rangt málfar og setja út á orðfæri menntamálaráðherra sem segir „mér langar“ og „ég vill“. En hvað er svona leiðinlegt við það? Hvaða málefnalegu rök standa til þess að áhugi almennings á íslenskri tungu sé væl, fremur en að ástæða sé til að kalla svör þeirra sem verður fótaskortur á tungunni í fjölmiðlum ekkert annað en einskært helvítis sífur? Nú er Helgi Hrafn fjörlegur og frjór náungi og í ofanálag fremur málefnalegur og til í að hlusta með opnum huga á hvaða málflutning sem er, sama hvaðan hann kemur. Ætti ekki að vera einkennismerki fyrir þannig mann að geta tekið því af stóískri ró og möglunarlaust þótt einhver álíti málfar hans fólks rangt? Er ekki menntun einmitt í því fólgin að geta tekið gagnrýni? Þarf Helgi Hrafn, eða hver sem er, að kippa sér nokkurn hlut upp við að einhver álíti að málfari hans eða annarra sé ábótavant? Varla er umburðarlyndið, eða óumburðarlyndisumburðarleysið, ég man ekki hvort, svo mikið að jafnt gangi yfir allt, ekkert sé til sem heiti „rétt“ og „rangt“ í einu eða neinu? Að öll viðhorf (ég flutti nýverið úr Viðhorfi 17 yfir í Fráhvarfahverfi) skuli vera svo einsleit að okkur beri beinlínis skylda til að álíta „eðlilega málþróun“ að það hreinlega „hristi“ í stoðum alls og á sama tíma samþykkja, væntanlega, möglunarlaust að það sé „eðlileg þróun“ að fólk í alræðisríkjum úti í heimi einfaldlega hverfi stöðugt oftar eða sé sprengt í tætlur í flugvélum, fremur en að það hrapi fram af svölum eins og áður gerðist um stjórnleysingjana, þótt það búi ekki við þá ágætlega nefndu götu Álfkonuhvarf? Hvarfahverfi í Hverfahvarfi Það getur varla verið neinum til meins að vita hvaða hugmyndirnar sem viðkomandi viðrar eru komnar, hver uppruni þeirra og rætur eru og hver saga, fremur en að sagan gufi sporlaust upp, líkt og álfkona í hvarfi í Hvarfahverfi, og svo skjóti hugmyndir upp kollinum og látist vera splunkunýjar. Hugmyndin um „málótta“ er komin til ára sinna. Hún felur í sér að við eilíft nöldur og skammir um málfar verði fólk hrætt við að nota tungumál sitt, fyllist svokölluðum „málótta“. Hugtakið birtist fyrst í íslenskum fjölmiðli árið 1971 og það var um þær mundir sem hugmyndin um hversu skelfilegt athæfi það væri að leiðrétta fólk festi rætur. Stefnan, sem var uppnefnd „Reiðareksstefnan“, var eðlilegt andsvar við „málhreinsunarstefnunni“ og hún hefur fyrir margt löngu orðið ríkjandi. Þarna á árinu 1973 birtist í ljóðabókinni Kvæði, ákvæði og önnur sératkvæði eftir Regínald Hrossdal úr Syðri Heykvísl eftirfarandi ferskeytla: Ég er svo hryllilega hræddur við að tala að það hristir í stoðum lífs míns. Á brag mínum bruna- er útsala og mér bregður í kút vegna máls þíns. Eða nei annars. Það birtist ekkert slíkt kvæði, ég er bara að ljúga. En það er ekkert til sem heitir „málótti“ lengur, spurning hvort mætti ekki endurvekja ögn af honum og sleppa þeirri leiðu tuggu að það sé í eðli sínu slæmt að leiðrétta málfar fólks, málfar barna sinna, málfar fólks í fjölmiðlum, málfar ráðherra, málfar allra, fyrst enn tórir áhugi almennings á íslenskri tungu. Það er ekki bara raunhæf staðreynd heldur frekar líklegt og jafnvel aðeins tímaspursmál hvenær íslenska hverfur af sjónarsviðinu. Hvaða afstöðu við tökum til þess fer eftir heimsmyndinni. Reiðarekspölur 18, Einn af þeim helstu sem hefur með réttu eða röngu verið kallaður „reiðareksmaður“ í málfarsefnum er Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emerítus í íslenskri málfræði. Eins og sést á nýlegum pistli hans er þetta þó ekki einhlítt. Þegar gengur fram af þeim allra opnustu í málfarslegum efnum er augljóslega eitthvað að. Athugasemd Eiríks er skýr og skorinorð og laukrétt. Það er ólöglegt að birta auglýsingar á ensku á skjá RÚV. Það á ekki að líðast. *** Og af hverju eru ekki til lög sem skylda eigendur veitingahúsa, kaffihúsa og kráa til þess að sjá til þess að starfsfólkið læri nægilega mikla íslensku til þess að geta afgreitt á þeirri tungu? Nú er það ekki svo til dæmis á Spáni að tyrkneskur þjónn sé til þjónustu reiðubúinn á einhverju öðru tungumáli en spænsku. Nei, þar talar allt þjónustufólk spænsku. Þá kemur gjarnan klisjan um að það sé svo ofboðslega erfitt að læra íslensku, hún sé svo snúið tungumál. Það er bull. Það er miklu erfiðara að læra finnsku en íslensku. Á spænsku eru ótal myndbönd á Youtube þar sem þjónar geta lært að afgreiða á spænsku. Á Íslandi þykir jafn sjálfsagt og að gefa börnum í skóinn að það sé kúnninn sem skipti yfir ensku, einkum í ljósi þess að Íslendingar séu svo góðir í ensku að eiginlega sé það til skammar fyrir enskumælandi þjóðir hversu mjög enska leiki á tungu Íslendinga og þeir tali tunguna langtum betur en þeir sem hafa ensku að móðurmáli. Það er della. Íslendingar eru ekkert sérstaklega góðir í ensku. Þá má lengi japla á því að eiginlega jafngildi það rasisma að vilja fá þjónustu á íslensku. Hvílík ekkisens þvæla! Fólk kjamsar á nýyrðinu „inngilding“, sem í mínum eyrum hljómar eins og orð yfir íslenskt-þýskt kynlífsleikfang. En hvaða fjandans „inngilding“ er það að tönnlast á því við fólk sem hefur ekki íslensku að móðurmáli að það sé eiginlega ekki hægt að læra tungumálið? Það er vel hægt. Ég hef rætt við fjölmarga innflytjendur sem tala ágæta íslensku. „Inngildingahverfið“ í grennd við Geldingaholt gæti haft rauðar götur, bláar götur og gular götur og haft Geldingahnappa að afleggjurum svo tryggt yrði að fólk villtist þar. Þeyst framhjá Þarmahverfinu Ef einhver hefur misst þráðinn er sá sem hér skrifar staddur í bíltúr til þess að reyna að flýja menningarnótt og var rétt í þessu að þeysa framhjá Þarmahverfinu, en þar eru ýmis götuheiti til mikillar prýði, þótt þeir hefðu getað sleppt nafninu á einum botnlanganum eða blindgötunni, sem ekki er við hæfi að nefna hér. Við erum að ræða ýmislegt um íslenska tungu. Auðvitað er ekki hægt að prófarkalesa útvarp, þar ríkir talmálið, og ekki heldur sjónvarp, nema þegar lesinn er upp ritaður texti. En svo vill til að eitt form RÚV er nákvæmlega eins og dagblað, að öðru leyti en því að ekki er prentað á pappír heldur birt á netinu. Er sá hluti prófarkalesinn? Nei. Það getur verið vandi að aka og vandinn minnkar ekki þegar ég og ferðafélagarnir dælum upp úr okkur götuheitum sem eru ekki til og það eru áhöld um hvort nokkuð skáni þótt maður stilli leiðsögutækið á íslensku. Sú sem þar hefur orðið talar nefnilega um „afleggjara“ þegar réttara væri að tala um „afrein“ og þegar hún vill að maður beygi talar hún um að „byggja til hægri“ og „byggja til vinstri“. Að vísu væri ekki vanþörf á allri þessari byggingarstarfsemi en maður veltir fyrir sér hvort einhver skilji hvað hún á við. Blokkirnar skjótast upp og allar þessar götur sem rísa samhliða akstrinum kalla á ný heiti. Það er svo sem ekki vandinn. Frá Skjáhverfinu yfir í Arkahverfi Í Skjáahverfinu, rétt við Útvarpsráðhústorgið, kennir margra skjáa. Þar er meðal annars Skjásætið, maður situr í því þegar maður les af skjá. Þessi bílferð mun taka óratíma, ég er ekki einu sinni kominn út fyrir borgarmörkin eftir þrjá klukkutíma. Ég held að ég hafi lært mest í íslensku af prófarkalesurum. Þeir eru að vísu misjafnir. Sumir eru slettirekur og skilja ekki að þeir eru í þjónustuhlutverki, ekki einræðisherrar tungumálsins sem þiggja vald sitt frá æðri máttarvöldum, né heldur áhrifavaldar sem erfa glæsileika sinn og hlutverk sitt frá gömlum sögum um álfa. Ég gæti nefnt nokkra framúrskarandi prófarkalesara. Einn þeirra sat þarna með mér í bílnum. Ég er sjálfur prófarkalesari. Hver einasta auglýsingastofa með sjálfsvirðingu er með prófarkalesara. Öll bókaforlög nota prófarkalesara. Allar helstu stofnanir landsins eru með prófarkalesara. Hver einasta ræða á Alþingi er prófarkalesin margsinnis. Það er ekki þar með sagt að prófarkalesarar séu hálfguðir sem aldrei geri villur sjálfir og hafi alltaf á réttu að standa. Þeir eru mennskir, vinna við það sem mætti kalla afskiptasemi, getur orðið á í messunni eins og öllum öðrum, því allir gera villur, og þeir bestu hreykja sér ekki af störfum sínum heldur vilja vera ósýnilegir. Prentuðum dagblöðum hefur farið fækkandi á Íslandi, eins og víðar. Þetta væri eðlileg þróun ef það vinnulag sem tíðkast á prentmiðlum erfðist yfir á netið. Þannig er Morgunblaðið prófarkalesið. Nú má fólk skattyrðast út í Morgunblaðið að vild mín vegna en staðreyndin er óneitanlega sú að miðað við vef RÚV er staðan í prófarkalestri tíu-núll fyrir Morgunblaðinu. Stoðgata Af hverju ætli þetta sé? Af hverju „hristir í stoðum“ RÚV? Hugsanlega er ástæðan sú að vefur RÚV á engar rætur í prentuðu máli, hann er vefútgáfa miðla sem að miklu leyti eru talmál en ekki ritmál. Enda þótt það sé óvenju spaugileg villa að það „hristi“ svona í stoðum RÚV er langt frá því að hún sé einsdæmi. Suma daga má lesa allar fréttir á RÚV-vefnum og hver einasta þeirra er með villum, sumar með mörgum. Ég hirði ekki um þann sparðatíning sem þyrfti til að sanna mál mitt, það hafa aðrir margsinnis gert og sömuleiðis ég sjálfur. Villurnar á vef RÚV eru slíkur mýgrútur að engu tali tekur. Eitt sinn spurðist ég fyrir og var sagt með nokkrum þjósti að vefurinn væri víst prófarkalesinn, sem breyttist síðan yfir í að hann væri prófarkalesinn eftir á. Til hvers? Er það ekki svolítið eins og að fara í reiðtúr og söðla svo hrossið á eftir? Gæða sér á lambahrygg og slátra því næst lambinu? Það blasir við að vefurinn er ekki prófarkalesinn fyrir fimm aura. Sú staðreynd er einfaldlega smánarleg. Eins og segir í málstefnu RÚV, sem Eiríkur Rögnvaldsson getur um í pistlinum sem vísað er til hér að ofan, hefur RÚV „ríkar skyldur við íslenskt mál og því ber, samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið nr. 23/2013, að leggja rækt við íslenska tungu.“ Með því að vefur RÚV er ekki prófarkalesinn eru brotin lög. Það hriktir í raun og veru í sjálfum stoðum RÚV. Öllvelkomin-hverfið Eitt það lúalegasta sem fyrir ber og notað er til varnar ríkjandi ástandi er að beita fyrir sig kynjapólitískum atriðum íslenskunnar og segja þá sem andmæla slælegri frammistöðu RÚV í málefnum íslenskunnar bara ekki vilja nota kynhlutlaust orðfæri á borð við „öll velkomin“, nýyrði um kynsegin fólk og þvíumlíkt. Þannig er allri hugsun um íslenska tungu þröngvað inn í litla kompu í Skotgrafahverfinu. Álitamál af þessum toga eru örfá prósent af þeim villukræsingum sem RÚV ber á borð á vef sínum. Lítið þýðir að bera umkvartanir og nöldur undir málfarsráðunaut RÚV, því í þeirri sömu málstefnu og getið er um hér að ofan segir að málfarsráðunautur fari „með aðgengismál í miðlum RÚV“. Nú hef ég að vísu ekki minnstu hugmynd um hvað því orði er ætla að merkja, ef nokkuð, en í öllu falli er það vel að einhver sinni „aðgengi“ og jafnvel „aðgengismálum“ við Efstaleiti. Alltof víða eru tröppur ófærar öðrum en þeim sem geta notað tröppur, og í öllu falli er ljóst að málfarsráðunautur sér ekki um prófarkalestur. Það kemur kjarna máls ekkert við þótt margt frjótt gerist á kynjapólitísku sviði tungumálsins. Eitt af þeim orðum sem þaðan eru sprottin er hugtakið „regnbogaþvottur“. Það er góð og gild þýðing á ensku orði um þá tilhneigingu gjarnan vafasamra fyrirtækja að þvo sig upp úr samúð með réttindabaráttu minnihlutahópa, gagngert í því skyni að torvelda gagnrýni á framferði fyrirtækisins almennt, því ekkert vottorð er til um hvort innan fyrirtækja grasseri ójafnrétti, hatur og mismunun. Ódýrari þvott er ekki hægt að fá því regnbogaþvottur er ókeypis og fyrirbærið getur verið með öllu innistæðulaust. Málstefna RÚV ber einnig merki um ákveðna bjartsýni — eða eigum við að segja oftrú? — á að þeim sem er í nöp við minnihlutahópa sé gersamlega fyrirmunað að finna upp ný orð sem tjái hatur þeirra á samkynhneigðum, eða hverjum sem vera vill. Líklega stendur málfarsráðunautur í þeirri trú að ef hún útrými orðum á borð við „hommatittur“ sé málið leyst. Svo er ekki. Það eru engin takmörk fyrir því hvaða orð má viðhafa til að tjá hug sinn og það eina sem málfarsstefna af þessu tagi áorkar er nýsköpun í tungumálinu úr hinni áttinni. „Hann býr í fokkíng Kynhverfinu,“ getur fólk allt eins sagt, eða: „Hann er helvítis Kynhverfingur“, og fært sér þannig í nyt gamla og mislukkaða tilraun til að færa homma undir hlutlaust orð með því horfna nýyrði „kynhverfur“. „Kynhverfir“ náði aldrei flugi sem orð, hommar ákváðu að nota hið niðrandi orð „hommi“ og breyta merkingu þess. Sjaldan hefur betri ákvörðun verið tekin. Ekki aðeins er slík málpólitísk stefna vita vonlaus, hún er algert aukaatriði í villubunkanum sem snýst um venjulega og gamaldags nýlendustefnu stórra tungumála. „Á horni Bayswater Road og Lækjargötu“ Langflestar villurnar eru af einni og sömu rótinni sprottnar: Innrás eins tungumál inn í annað. Það er að segja innrás enskunnar í íslenskuna. Þetta er ekki nýtt og ekki séríslenskt fyrirbæri, stór tungumál hafa alla tíð ráðist á önnur smærri og oftsinnis útrýmt þeim. Þau undanbrögð að heimfæra allt upp á málpólitík eru hjárænuleg því það er enginn stjórnmálaflokkur til á Íslandi sem er andvígur því að reynt sé að sporna við áhrifum ensku á íslensku. Við ambögum, innsláttarvillum, enskri setningargerð, beinþýðingum á enskum orðatiltækjum, misskilningi á íslensku máli, kunnáttuleysi sem stafar ekki af neinu nema skorti á einstaklingum sem geta frætt og upplýst. Það sem gerist þegar prófarkalesari starfar hjá miðli er að þekking kynslóðanna erfist. Ef enginn prófarkalesari starfar hjá miðli er engin von til þess að ungir fréttamenn læri eitt eða neitt. Og þar með lærir íslenska þjóðin ekki neitt og fyrr en varir er farið að „hrista“ í stoðum íslenskrar tungu. Er það ekki allt í lagi? Jú, svo sem, íslensk tunga deyr út fyrr eða síðar, en valið stendur um að tapa þeirri orrustu með reisn eða allsendis án nokkurrar tignar. Þeir sem hafa yfirleitt nokkurt gildismat vilja halda reisn sinni fram að banastundinni. En ég var víst í miðri ferðasögu. Hún hófst á því að það tók mig einn og hálfan klukkutíma að komast úr Laugardalnum vestur í bæ vegna umferðarteppu hinna menningarsinnuðu. Síðan þá gerðum við víðreist um byggð og óbyggð hverfi Reykjavíkur en stefnan var tekin austur yfir Fjall. Sennilega hef ég ekki vitnað í ljóðlínur Braga Ólafssonar um horn Bayswater Road og Lækjargötu, enda er hæpið að hún hafi nokkuð með íslenska málstefnu að gera, það er engin tungumálaleg vandlæting í þessari ljóðlínu heldur aðeins hið óvænta sjónarhorn á tilveruna sem einkennir góð ljóð. Enda er ég sjálfur heldur enginn engill, stundum gleður mig hreinlega að heyra enskuslettur. Íslensk tunga er lifandi og verður ekki varðveitt í formalíni. Það merkir ekki að réttast af öllu sé að hafa enga stefnu og enga skoðun, því stefnuleysi er líka stefna. Stefnan er sett rakleiðis út í skurð. Tunguskurður 1 Það var einmitt úti í skurði sem við enduðum bílferðina, ekki lengur akandi. Af ýmsum ástæðum varð mér villugjarnt, og ég ók langt framhjá þeim viðburði sem við höfðum sett kúrsinn á, kannski vegna þess að ég hafði á tilfinningunni að þar yrði síst minna fjölmenni en á menningarnótt í Reykjavík og þótt ég sé kannski „margmenni“, eins og Þórarinn Eldjárn orðaði einhverju sinni það ástand að vera margir menn í senn, er ég lítt gefinn fyrir fjölmenni. Í huganum setti ég saman kröfugerð í tveimur liðum: Undirritaður krefst þess að útvarpsráð sjái til þess að vefur RÚV verði prófarkalesinn. Undirritaður krefst þess að barna- og menntamálaráðherra setji lög um að öllum þjónustustöðvum, svo sem veitingahúsum og kaffihúsum, verði gert skylt að sjá til þess að þjónustuaðilar fái fullnægjandi nám í íslensku, á eigin kostnað en með fulltingi stjórnvalda. Þetta er ekki galið heldur eiginlega sjálfsagt. Af gúgli sé ég að í útvarpsráði situr Stefán Jón Hafstein og síðast þegar ég vissi til var hann mjög vel máli farinn, með reynslu af fjölmiðlum og áhugasamur um íslenska tungu. Um barna- og menntamálaráðherra, Guðmund Inga Kristmundsson, er eftirfarandi að segja: Ráðherranum er sennilega fyrirmunað að panta sér kaffi á íslensku kaffihúsi því hann talar ekki ensku, eins og fram hefur komið. Augljóslega eru það hagsmunir hans að geta pantað kaffi á íslensku, þótt íslenskukunnáttan sé kannski ekki upp á marga fiska. Þetta eru skilyrðislausar kröfur mínar. Ég krefst umsvifalausra viðbragða frá útvarpsráði og menntamálaráðherra. Ef engin verða er aldrei að vita hverju ég tek upp á. Ég er ekki yfir hryðjuverk hafinn og ekki heldur eru mótmæli, þrungin möguleikanum á ofbeldi, neðan minnar virðingar. Þótt það kunni að koma íslenskum smáborgurum á óvart eru til þjóðir og þjóðarbrot, landfræðilega örskammt frá Íslandi, þar sem tungumálið þykir þess vert að efnt sé til mótmæla til að andæfa aðgerðum sem gera tungunni lægra undir höfði. Ég hef búið á þannig landsvæði á Spáni. Og nei, þetta eru ekki þjóðernisfasistar heldur ósköp venjulegt fólk, sumt hvert meira til vinstri en hægri í stjórnmálum og annað knúið áfram af nokkru sem kalla má ást á tungu og uppruna, ef slíkt inniheldur ekki of miklar fínessur til þess að nefndir smáborgarar botni neitt í því. Það er samt ekki flókið. Fjölmenningarsamfélag er aldrei án árekstra og þegar diktuð eru upp orð eins og „inngilding“ merkir það ekki neitt. *** Það fyrirfinnast nokkrir prófarkalesarar á Íslandi sem yrði ekki skotaskuld úr því að prófarkalesa vef RÚV jafnóðum. Um leið og fréttir birtast má hæglega hafa forbirtingu og einum manni — einu stöðugildi — væri hægðarleikur að leiðrétta verstu ambögurnar, fréttamenn eru ekki of góðir til að renna yfir það fyrir endanlega birtingu og allir myndu græða á þessu. Einn þessara prófarkalesara var á ferð með mér austur yfir Fjall. Að vísu endaði ferðin að heita má ofan í skurði. Samferðamaður okkar sat þar fastur, ég hafði rokið áfram og skilið þá tvo eftir en það var nokkrum vandkvæðum bundið að komast yfir skurðinn, eða upp úr honum, þótt ég sjálfur hefði rokið áfram og skilið samferðamenn mína eftir fasta í skurði. Að lokum var skurðurinn sigraður og upp úr honum komist. Þetta reddaðist allt. Það gerir það alltaf. Ekki síst ef vilji er til. En það dugir ekki að fara að eins og útvarpsráð og menntamálaráðherra og aðhafast nákvæmlega ekki neitt. Íslenskan situr föst í skurði. Það „hristir í stoðum“ RÚV. Hvað á að gera í því? Höfundur er prófarkalesari.
Finnst ykkur þetta í lagi? Opinn pistill til heilbrigðisráðherra, landlæknis og forystu heilbrigðiskerfisins Steindór Þórarinsson Skoðun
Tímamót í velferðarmálum: Nýtt örorkulífeyriskerfi tekur gildi Guðmundur Ingi Guðbrandsson Skoðun
Skoðun Tímamót í velferðarmálum: Nýtt örorkulífeyriskerfi tekur gildi Guðmundur Ingi Guðbrandsson skrifar
Skoðun Finnst ykkur þetta í lagi? Opinn pistill til heilbrigðisráðherra, landlæknis og forystu heilbrigðiskerfisins Steindór Þórarinsson skrifar
Skoðun Hver vill heyra um eitthvað jákvætt sem er gert í skólunum? Rakel Linda Kristjánsdóttir skrifar
Skoðun Enn af ferðum Angelu Müller. Eru erlendir ferðamenn afætur? BJarnheiður Hallsdóttir skrifar
Skoðun Bílahús í Reykjavíkurborg – aðgengi, lög og ójöfnuður Alma Ýr Ingólfsdóttir,Vilhjálmur Hjálmarsson,Bergur Þorri Benjamínsson,Sigurður Ágúst Sigurðsson skrifar
Finnst ykkur þetta í lagi? Opinn pistill til heilbrigðisráðherra, landlæknis og forystu heilbrigðiskerfisins Steindór Þórarinsson Skoðun
Tímamót í velferðarmálum: Nýtt örorkulífeyriskerfi tekur gildi Guðmundur Ingi Guðbrandsson Skoðun