Körfubolti

Setji skugga á fyrsta leik að hann sé við Ísrael

Valur Páll Eiríksson skrifar
Elvar Örn Friðriksson segir synd að fyrsti leikur á stórmóti í átta ár sé við Ísrael. Hvað ísraelska liðið varðar henti það því íslenska ágætlega.
Elvar Örn Friðriksson segir synd að fyrsti leikur á stórmóti í átta ár sé við Ísrael. Hvað ísraelska liðið varðar henti það því íslenska ágætlega. Vísir/Hulda Margrét

„Við höfum beðið lengi eftir þessu. Síðustu fimm eða sex mánuðir hafa farið í undirbúning fyrir þetta augnablik. Það er kominn fiðringur í magann,“ segir Elvar Örn Friðriksson, landsliðsmaður í körfubolta, í aðdraganda fyrsta leik Íslands á EM sem er við Ísrael á morgun.

„Við höfum tekið skref upp á við í hverjum einasta leik og ég held við séum orðnir klárir núna eftir góðan undirbúning,“ segir Elvar en liðið hefur verið saman í allt sumar við undirbúning.

Klippa: Von á skipulagðri óreiðu

Ísrael er andstæðingur morgundagsins. Töluverð óánægja ríkir víða vegna þátttöku liðsins á mótinu í ljósi ítrekaðra árása Ísraels á Gasa.

Kallað hefur verið eftir sniðgöngu íslenska liðsins á leiknum sem KKÍ hefur ekki í hyggju. Þó hefur sambandið kallað eftir brottreksti Ísraela af mótinu, samkvæmt framkvæmdastjóra þess.

Setur það skugga á leikinn að hann sé við Ísrael?

„Já, algjörlega. Það tekur athyglina af körfuboltalegu hliðinni. En það er eitthvað sem við megum alls ekki einblína á. Við þurfum að fókusa á okkur sjálfa. Við stjórnum því ekki á móti hverjum við spilum. Við stjórnum því sem við getum stjórnað. Fleira getum við ekki gert,“ segir Elvar.

Hvað ísraelska liðið varðar segir Elvar það vera andstæðing sem geti hentað íslenska liðinu nokkuð vel. Stefnan sé að vinna leik á Evrópumóti í fyrsta sinn.

„Ég býst við svolítið hröðum leik. Þeir eru óhefðbundnara lið en þetta týpíska evrópska lið sem vill spila á hálfum velli. Þeir eru hraðir og ófyrirsjáanlegir, svipað og við. En svo er ein stórstjarna þarna sem er mikið með boltann í höndunum og vill ráðast á körfuna. Það mun taka góðan liðsvarnarleik að hægja á honum. Þetta verður krefjandi verkefni en ég hef fulla trú á að við munum vinna þá,“

„Það hentar okkur mjög vel að vera í skipulagðri óreiðu og hleypa hraðanum upp. Ég held að við séum betri en þeir í þeim leik,“ segir Elvar.

Viðtalið má sjá í spilaranum.

Leikur Íslands og Ísrael fer fram klukkan 12:00 á morgun og verður lýst í beinni textalýsingu á Vísi.

Vísir fylgir liðinu eftir hvert fótmál fram að leik.


Tengdar fréttir

„Þetta var sjokk fyrir hann“

Craig Pedersen, landsliðsþjálfari karla í körfubolta, segir leikmenn liðsins sjaldan, eða jafnvel aldrei, hafa verið eins vel undirbúna og þeir eru fyrir komandi Evrópumót sem hefst í dag. Ísland mætir Ísrael klukkan tólf.

„Við erum bara að hugsa um körfubolta“

„Það er fiðringur og þetta er frábært. Þetta er að kikka inn núna eftir mikinn aðdraganda og bið. Það er loksins komið að þessu og partíið er að byrja,“ sagði spenntur Martin Hermannsson á hóteli körfuboltalandsliðsins í Katowice í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×