Skoðun

Van­þekking eða vís­vitandi blekkingar?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

„Mikilvægt er að fá opna og faglega umræðu um kosti og galla aðildar að ESB,“ ritaði Þorvaldur Ingi Jónsson, stjórnarmaður í Öldungaráði Viðreisnar, í grein sem birtist á Vísi í gær þar sem hann taldi upp ýmis atriði sem hann sagði að myndu fylgja inngöngu í Evrópusambandið og koma sér vel fyrir hérlenda eldri borgara. Hins vegar eru flest þau atriði sem hann nefndi eitthvað sem þegar fylgir aðild Íslands að EES-samningnum eða öðru samstarfi við sambandið.

Til að mynda eftirfarandi atriði sem Þorvaldur nefndi til sögunnar: „Eldri borgarar myndu hafa rétt til frjálsrar farar, búsetu og dvalar í öllum ESB-löndum. Það gerir ferðalög innan Evrópu einfaldari og ódýrari. […] Með Evrópsku sjúkratryggingakortinu gætu eldri borgarar fengið heilbrigðisþjónustu á sama verði og heimamenn í öllum ESB-löndum – mikilvæg trygging fyrir þá sem ferðast eða dvelja tímabundið erlendis.“ Þetta er þannig allt þegar hluti af EES-samningnum.

Hið sama er að segja um þetta atriði: „Eldri borgarar gætu tekið þátt í menningar- og fræðsluverkefnum á vettvangi ESB, líkt og Erasmus+ hefur þegar boðið upp á fyrir eldri hópa í aðildarlöndum.“ Vonandi byggjast skrif Þorvaldar á vanþekkingu og fela þannig ekki í sér vísvitandi tilraun til þess að blekkja eldri borgara á Íslandi til stuðnings við inngöngu í Evrópusambandið með alröngum staðhæfingum. Þessi framganga getur í öllu falli engan veginn talizt sérlega málefnaleg.

Hvað tal Þorvaldar um styrki frá Evrópusambandinu „til verkefna í öldrunarmálum, heilbrigðisþjónustu og félagslegrar nýsköpunar“ varðar hafa allar úttektir sýnt að Ísland yrði nettó-greiðandi til sambandsins ef til inngöngu í það kæmi. Myndi sem sagt greiða meira til þess en landið fengi til baka einkum í formi styrkja. Einungis hafa verið skiptar skoðanir um það hversu marga milljarða við myndum greiða með okkur. Við myndum því greiða fyrir þetta sjálf og vel það.

Varðandi síðan evruna sem Þorvaldur nefnir er vert að hafa í huga að lágir vextir á evrusvæðinu hafa engan veginn verið birtingarmynd heilbrigðs efnahagsástands heldur þvert á móti efnahagslegrar stöðnunar með tilheyrandi víðast hvar litlum sem engum hagvexti og viðvarandi verulegu atvinnuleysi. Vöxtunum hefur verið ætlað að reyna að koma efnahagslífinu í gang. Stöðnun felur vissulega í sér ákveðinn stöðugleika en hins vegar ekki sérlega eftirsóknarverðan.

Við erum þá ekki farin að tala um margt annað eins og framsal fullveldis yfir flestum okkar málaflokkum til stofnana Evrópusambandsins sem fyrri kynslóðir börðust fyrir og fólu þeim sem á eftir komu að standa vörð um, vægi ríkja við ákvarðanatöku innan sambandsins einkum út frá íbúafjölda sem allajafna þýddi til dæmis að Ísland hefði vægi í ráðherraráði þess á við 5% hlutdeild í alþingismanni og þróun sambandsins allt frá upphafi í átt til sambandsríkis.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).




Skoðun

Sjá meira


×