Skoðun

Sumar­fríinu af­lýst

Sigurður Helgi Pálmason skrifar

Í sumar fengu yfir fjörutíu einstaklingar loks aðgang að lífsnauðsynlegri meðferð hjá SÁÁ á Vík. Þrátt fyrir að fjármunir hafi verið fyrir hendi hafa stjórnvöld síðustu ár tekið meðvitaða ákvörðun um að fjármagna ekki rekstur meðferðarheimilisins yfir sumarmánuðina. Afleiðingin hefur verið sú að veikum einstaklingum hefur í raun verið gert að senda grafalvarlegan sjúkdóm í „sumarfrí“. Afleiðingar þessara lokana hafa verið víðtækar, ekki aðeins fyrir þá sem þurfa á meðferð að halda, heldur einnig fyrir fjölskyldur þeirra, börn, foreldra og samfélagið í heild.

Sumaropnun SÁÁ markar tímamót í baráttunni gegn fíknisjúkdómum á Íslandi og sýnir svart á hvítu hvernig pólitískur vilji getur leitt til raunverulegra umbóta. Inga Sæland hefur allt frá því að Flokkur fólksins tók fyrst sæti á Alþingi árið 2017 haft það eitt af sínu helsta baráttumáli að afnema það furðulega fyrirkomulag að loka lífsnauðsynlegum meðferðarúrræðum yfir sumarmánuðina.

Því er sérstaklega ánægjulegt að sjá þessa baráttu skila árangri. Í fjáraukalögum í júní síðastliðnum samþykkti ríkisstjórn Flokks fólksins, Samfylkingar og Viðreisnar 350 milljóna króna aukafjárveitingu til að efla úrræði í fíknimeðferð. Með þeirri ákvörðun hefur verið tryggt að:

Engar sumarlokanir verða lengur hjá SÁÁ, Krýsuvíkursamtökunum eða meðferðarheimilinu Hlaðgerðarkoti; þessi úrræði geta nú haldist opin allan ársins hring. Göngudeildir geð- og fíknisjúkdóma á Landspítalanum hafa fengið aukið fjármagn til að styrkja þjónustuna og fjárstuðningur við ýmis skaðaminnkandi úrræði hefur verið aukinn.

Þetta er skýrt dæmi um hvað getur gerst þegar ríkisstjórn setur fólkið og velferð þess í forgang. Það leiðir til raunverulegra breytinga sem hafa bein áhrif á líf einstaklinga, fjölskyldur þeirra og samfélagið í heild. Þetta er kjarninn í því sem Flokkur fólksins stendur fyrir og við erum stolt af að hafa komið þessu máli í framkvæmd.

Höfundur er þingmaður Flokks fólksins. 




Skoðun

Sjá meira


×