Körfubolti

Kynlífsleikfangi hent inn á völlinn í miðjum leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þetta er sjón sem enginn býst við að sjá á körfuboltaleik eða öðrum íþróttaviðburðum.
Þetta er sjón sem enginn býst við að sjá á körfuboltaleik eða öðrum íþróttaviðburðum. Skjámynd

Áhorfendurnir á WNBA leikjunum eru að skapa vandamál sem hafa ekki sést áður í körfuboltaleikjum og atvik í nótt vakti mikla furðu.

Flestir trúðu hreinlega ekki sínum eigin augum þegar þeir áttuðu sig á því hverju var hent inn á völlinn í leik Atlanta Dream og Golden State Valkyries.

Áhorfandi á leiknum í Atlanta henti nefnilega kynlífsleikfangi, svokölluðum dildo, inn á völlinn þegar tæp mínúta var eftir af leiknum.

Um leið vöknuðu ansi margar spurningar.

Það er eitt að eiga dildo en af hverju að taka hann með á körfuboltaleik og var ekkert mál að smygla honum inn á völlinn? Ofan á allt það af hverju að taka hann ekki bara aftur með heim?

Það fylgir sögunni að þarna voru 52 sekúndur eftir af leiknum og staðan var jöfn, 75-75. Það var því mikil spenna í höllinni.

Ekki er vitað hvort áhorfandinn hafi verið svo óánægður með dóm að hann ákvað að henda dildo inn a gólfið.

Leikmenn og flestir áhorfendur voru gapandi hissa yfir þessu en lögreglukona mætti á staðinn og fjarlægði kynlífsleikfangið þannig að hægt var að halda leik áfram.

Cecilia Zandalasini skoraði sigurkörfuna í leiknum fyrir Golden State Valkyries 3,2 sekúndum fyrir leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×