Innlent

Hæsti­réttur gefur grænt ljós á búvörulögin

Árni Sæberg skrifar
Allir sjö dómarar Hæstaréttar dæmdu í málinu. Stranglega bannað er að mynda inni í réttarsalnum eftir að dómarar ganga þar inn.
Allir sjö dómarar Hæstaréttar dæmdu í málinu. Stranglega bannað er að mynda inni í réttarsalnum eftir að dómarar ganga þar inn. Vísir/Sigurjón

Hæstiréttur hefur sýknað Samkeppniseftirlitið af öllum kröfum Innness í búvörulagamálinu. Hæstiréttur hefur því gefið grænt ljós á lögin umdeildu. Ríkisstjórnin hefur þegar boðað breytingu á lögunum til fyrra horfs.

Hæstiréttur kvað upp dóm þess efnis klukkan 14. Allir sjö dómarar Hæstaréttar dæmdu í málinu og það var tekið fyrir án viðkomu í Landsrétti.

Hafa þegar leikið nokkra leiki á grundvelli laganna

Málið sneri í grunninn að breytingum á búvörulögum, sem gerðu það að verkum að kjötafurðastöðvar væru undanþegnar samkeppnislögum. Á grundvelli laganna hefur Kaupfélag Skagfirðinga til að mynda getað keypt Kjarnafæði Norðlenska, án þess að Samkeppniseftirlitið fengi rönd við reist.

Héraðsdómur hafði áður fellt úr gildi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að verða ekki við kröfu Innes um inngrip í háttsemi framleiðendafélaga vegna þess að dómurinn taldi búvörulögin ekki hafa verið samþykkt á stjórnskipulegan hátt.

Ætlaði að vera á undan Hæstarétti

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra lagði í febrúar fram frumvarp um breytingar á búvörulögunum þess efnis að þau færu aftur í fyrra horf. Til stóð að breyta lögunum áður en dómur yrði kveðinn upp í Hæstarétti, sem var harðlega gagnrýnt af þingmönnum stjórnarandstöðunnar.

Fyrsta umræða um frumvarpið fór fram í þinginu í mars og var vísað til atvinnuveganefndar, þar sem það situr enn.

Hvenær er frumvarp orðið að öðru frumvarpi?

Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að horfa yrði til þess að matskennt væri hvenær breytingartillaga við frumvarp fæli í sér slíka gerbreytingu að Alþingi væri rétt að fara með hana sem nýtt og sjálfstætt frumvarp samkvæmt ákvæði stjórnarskrár sem mælir fyrir um að ekkert lagafrumvarp megi samþykkja fyrr en það hefur verið rætt við þrjár umræður á Alþingi. 

Þótt svigrúm Alþingis væri ekki óheft að þessu leyti yrði að ætla þinginu víðtækt svigrúm til mats um þau atriði sem hér skiptu máli. 

Hæstiréttur vísar til aðdraganda að setningu breytingalaganna og þess að tekist hefði verið á um eftir hvaða leiðum bæri að ná markmiðum þess frumvarps sem upphaflega hafði verið lagt fram af matvælaráðherra. Væri það ekki á valdsviði dómstóla að endurskoða það pólitíska mat kjörinna fulltrúa á Alþingi sem búið hefði að baki þeirri breytingartillögu við frumvarpið sem komið hefði fram og þingið samþykkt við aðra og þriðju umræðu. 

Að öllu virtu hafi því ekki verið á það fallist að við setningu laga búvörulaganna hefði verið farið út fyrir það svigrúm sem þingið nyti til breytinga á frumvarpi þannig að brotið hefði verið gegn áðurnefndu ákvæði stjórnarskrárinnar. 

Þá hafi ekki verið talið að Innnes hefði sýnt fram á að félaginu hefði verið mismunað með ólögmætum hætti með setningu laganna þannig að brotið hefði verið gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Því hafi Samkeppniseftirlitið verið sýknað af kröfum Innness.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Skilur ekkert í afstöðu samtakanna

Til stendur að snúa umdeildri breytingu á búvörulögum í fyrra horf áður en Hæstiréttur kveður upp sinn dóm um lögin. Formaður Bændasamtakanna segir breytingu í fyrra horf vega að hagsmunum bænda, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekanda segir afstöðu samtakanna óskiljanlega.

Hæstiréttur fer beint í búvörulagamálið

Hæstiréttur hefur samþykkt að taka fyrir dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að búvörulög sem voru samþykkt á Alþingi í mars hefðu strítt gegn stjórnarskrá. Málið mun því fara beint fyrir Hæstarétt, en ekki koma við hjá áfrýjunardómstólnum Landsrétti.

Áfrýjar búvörulagamálinu til Hæstaréttar

Samkeppniseftirlitið hefur ákveðið að óska eftir leyfi til að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, í máli sem varðar gildi breytinga á búvörulögum, beint til Hæstaréttar. Óbreyttur kemur dómurinn í veg fyrir að kjötafurðastöðvar séu undanþegnar samkeppnislögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×