Skoðun

Gott um­hverfi er gott fyrir okkur

Pall Jakob Líndal skrifar

Nú í aðdraganda alþingiskosninga er mikið talað um húsnæðismál og þá einkum í því samhengi að gera þurfi gangskör að uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Að ekki sé nægjanlega mikið byggt og íbúðaverð of hátt. Sumir vilja brjóta nýtt land undir íbúðabyggð og telja landrými nægjanlegt. Aðrir tala fyrir þéttingu byggðar. Eiginlega allir vilja byggja hratt og helst hagkvæmt fyrir almenning og/eða uppbyggingaraðila.

Á sama tíma eru viðraðar áhyggjur af andlegri líðan þjóðarinnar og sagt að geðheilbrigðismálum sé ekki sinnt sem skyldi. Líkamlegt heilbrigði hefur einnig verið til umræðu og ekki af góðu. Þá er talað um breytingar á félagslegum þáttum samfélagsins, að samfélagið sé harðara og klofnara og umræðan á margan hátt miskunnarlausari en áður.

En það sem er áhugavert í þessari umræðu er að þessir tveir mikilvægu málaflokkar, þ.e. uppbygging húsnæðis og heilbrigði okkar, eru sjaldnast tvinnaðir saman. Það er sum sé lítið litið til þess að umrædd húsnæðisuppbygging þurfi að stuðla að andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði fólks og samfélags.

Tilfellið er að við erum býsna oft að hanna, skipuleggja og byggja flatneskjulegt og lítt gefandi umhverfi. Við byggjum jafnvel umhverfi sem vinnur á móti okkur, umhverfi sem gerir líf okkar á hverjum degi pínulítið erfiðara en það þyrfti að vera. Hart, grátt, einsleitt og lífvana umhverfi í óheppilegum mælikvörðum, sem oftar en ekki tekur lítið tillit til staðhátta, sögu og/eða menningar. Umhverfi sem hvorki gleður augað né hefur umgjörð eða veitir skjól. Umhverfi jafnvel án nægjanlegrar dagsbirtu. Umhverfi sem hvetur hvorki til hreyfingar og/eða útiveru né félagslegra samskipta eða býður upp á einveru og íhugun. Umhverfi sem oft virðist meira í þágu bíla en fólks, meira í þágu fjárhagslegs hagnaðar en velferðar, meira í þágu hraða, firringar og náttúruleysis en meðvitundar, samkenndar og ánægju. Margt af því umhverfi sem byggt er upp er án aðdráttarafls og tilgangs, það er skeytingarlaust gagnvart skynjun okkar og hugsun, tilfinningu, þörfum og atferli, hugar ekki að því hvernig við erum samsett af náttúrunnar hendi.

Mig langar því að skora á þá stjórnmálamenn sem láta sig varða húsnæðisuppbyggingu og heilbrigði okkar allra, að hugsa hlutina í stærra samhengi og huga vel að því að binda þessa tvo málaflokka saman. Verkefnið er ekki bara að móta og byggja upp einhvers konar umhverfi, heldur að móta og byggja upp heilbrigt, uppbyggilegt og manneskjulegt umhverfi sem styður við okkur og hjálpar okkur í dagsins önn – þó ekki væri nema pínulítið á hverjum degi.

Hönnun, skipulag og uppbygging byggðar er nefnilega heilbrigðismál og meginreglan er þessi: Gott umhverfi er gott fyrir okkur en slæmt umhverfi slæmt.

Höfundur er doktor í umhverfissálfræði.




Skoðun

Skoðun

Konur hlusta á konur og karla, karlar hlusta á karla

Ásta Björg Björgvinsdóttir,Elíza Geirsdóttir Newman,Helga Ragnarsdóttir,Katla Vigdís Vernharðsdóttir,Lára Rúnarsdóttir,Lilja Sól Helgadóttir,Sóley Stefánsdóttir,Steinunn Camilla Stones skrifar

Skoðun

Enginn á að vera hryggur um jólin

Aldís Amah Hamilton,Hulda Jónsdóttir Tölgyes,Klara Ósk Elíasdóttir,Ragnheiður Gröndal,Rósa Líf Darradóttir,Valgerður Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×