Sport

Pétur: Vorum með leikinn í te­skeið í fyrri hálf­leik

Andri Már Eggertsson skrifar
Pétur Pétursson, þjálfari Vals, á hliðarlínunni í leik kvöldsins
Pétur Pétursson, þjálfari Vals, á hliðarlínunni í leik kvöldsins Vísir/Haraldur Guðjónsson Thors

Valur tapaði gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli í toppslag 6. umferðar Bestu deildar kvenna 2-1. Pétur Pétursson, þjálfari Vals, var svekktur eftir leik.

„Mér fannst við vera með yfirburði í fyrri hálfleik og vorum með leikinn í teskeið,“ sagði Pétur Pétursson í viðtali eftir leik og hélt áfram.

„Á tíu mínútna kafla í seinni hálfleik töpuðum við boltanum illa og fengum hornspyrnu á okkur og allt í einu var staðan 2-1 en svona er þetta.“

Valur var betra liðið í fyrri hálfleik sem skilaði einu marki en Pétur viðurkenndi að hann hefði viljað nýta þá yfirburði betur.

„Já ég hefði viljað fá fleiri mörk í fyrri hálfleik. Aðstæður voru ekkert sérstakar og boltinn fór út um allt stundum. Mér fannst við bara tapa þessum leik á 10-15 mínútna kafla.“

Aðspurður hvernig honum fannst hans lið eiga við veðuraðstæður sem voru mjög krefjandi og höfðu áhrif á leikinn sagði Pétur að honum fannst það ganga vel.

„Bara mjög vel.“

Eftir að Breiðablik komst yfir á 70. mínútu gerði Pétur tvöfalda breytingu tólf mínútum síðar. Pétur var spurður hvort hann hefði átt að bregðast fyrr við með skiptingum en honum fannst það ekki.

Uppbótartíminn var aðeins þrjár mínútur sem var óvenju lítið en Pétur vildi ekki kvarta yfir því.

„Ef þú ert að tapa viltu örugglega lengri uppbótartíma og ef þú ert að vinna viltu styttri uppbótartíma,“ sagði Pétur Pétursson að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×