Körfubolti

Haltrandi Luka Doncic leiddi Dallas til sigurs og Boston tapaði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luka Doncic fagnar körfu í sigri Dallas Mavericks í Oklahoma City í nótt.
Luka Doncic fagnar körfu í sigri Dallas Mavericks í Oklahoma City í nótt. Getty/Joshua Gateley

Það er allt jafnt í tveimur undanúrslitaeinvígum í úrslitakeppni NBA deildarinnar í körfubolta eftir að Dallas Mavericks og Cleveland Cavaliers unnu bæði útisigra í nótt.

Luka Doncic skoraði 29 stig, tók 10 fráköst og gaf 7 stoðsendingar þegar Dallas Mavericks vann 119-100 sigur á Oklahoma City Thunder. Staðan er því 1-1 í einvíginu en þetta var fyrsti tapleikurinn hjá Thunder í allri úrslitakeppninni.

Doncic haltraði um völlinn, tognaður á öðru hnénu og blóðugur á hinu. „Ég held að þetta hafi verið einn erfiðasti leikurinn sem ég þurft að spila. Ég er að berjast þarna úti á gólfinu til að reyna að hjálpa mínu liði að vinna,“ sagði Doncic eftir leikinn.

Dallas fékk líka óvænta frammistöðu frá P.J. Washington sem var með 29 stig, 11 fráköst og hitti úr 7 af 11 þriggja stiga skotum sínum. Kyrie Irving var aðeins með 9 stig en gaf 11 stoðsendingar.

Shai Gilgeous-Alexander var með 33 stig, 12 fráköst og 8 stoðsendingar fyrir Thunder og Jalen Williams bætti við 20 stigum.

Donovan Mitchell var með 29 stig, 8 stoðsendingar og 71 prósent þriggja stiga nýtingu (5 af 7) fyrir Cleveland Cavaliers sem jafnaði einvígið á móti Boston Celtics með 118-94 sigri í Boston.

Celtics vann fyrsta leikinn með 25 stigum en það er ljóst á þessum úrslitum að Cleveland er sýnd veiði en ekki gefin í þessu einvígi. Þetta var fyrsti útisigur Cavaliers í þessari úrslitakeppni eftir að hafa unnið einvígið við Orlando Magic í fyrstu umferðinni í oddaleik.

Mitchell fékk líka meiri hjálp en í fyrsta leiknum en í þriðja leikhluta skoraði hann sextán stig og Cleveland vann hann með tólf stigum, 36-24. Eftir það var liðið með gott tak á leiknum og vann að lokum öruggan sigur. Evan Mobley var með 21 stig og 10 fráköst fyrir Cavs og Caris LeVert kom með 21 stig inn af bekknum.

Jayson Tatum skoraði 25 stig fyrir Boston og Jaylen Brown var með 19 stig. Derrick White skoraði 25 stig í leik eitt en var bara með 10 stig og klikkaði á sjö af átta þriggja stiga skotum sínum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×