Körfubolti

Tók sinn tíma að jafna sig

Aron Guðmundsson skrifar
Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur
Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur Vísir/Hulda Margrét

Bene­dikt Guð­munds­son, þjálfari Njarð­víkur segir það hafa tekið sig langan tíma að ná sér niður á jörðina eftir dramatískan sigur liðsins í odda­leik gegn Þór Þor­láks­höfn í átta liða úr­slitum Subway deildar karla á dögunum. Það ein­vígi sé þó nú að fullu að baki, bæði hjá honum og leik­mönnum Njarð­víkur sem mæta aftur til leiks í kvöld.

Undan­úr­slitin í Subway deild karla í körfu­bolta hefjast í kvöld þegar að deildar­meistarar Vals taka á móti Njarð­vík í fyrsta leik liðanna í N1 höllinni að Hlíðar­enda.

Njarð­vík tryggði sér far­miðann í undan­úr­slitin á dramatískan átt eftir spennu­þrungið ein­vígi gegn Þórsurum. Flautu­þristur Þor­valdar Orra Árna­sonar, í odda­leik liðanna í Ljóna­gryfjunni, reið þar bagga­muninn og vissi Bene­dikt, þjálfari liðsins, þá um leið að það tæki sig langan tíma að ná sér niður.

„Ég vissi það strax af fenginni reynslu eftir leik að eftir svona móment yrði adrena­línið ansi lengi að fara úr líkamanum. Ég held að ég hafi sofnað um sex morguninn eftir. Það tók sinn tíma að jafna sig.“

Hann telur þó að ein­vígið sé nú að fullu að baki, bæði hjá sér og leik­mönnum.

„Auð­vitað tók það okkur nokkrar klukku­stundir að ná okkur niður en svo voru menn bara mættir á æfingu daginn eftir og þá fór full ein­beiting á næsta ein­vígi. Það hefst í kvöld og við höfum undir­búið okkur vel og reynt um leið, eftir langt og strangt ein­vígi gegn Þór, að safna kröftum. Vonandi verður engin þreyta í kvöld. Það eru allir klárir og menn segjast vera orðnir góðir bæði líkam­lega og and­lega. Við erum klárir í þetta verk­efni.“

Engin minnimáttarkennd

And­stæðingurinn í undan­úr­slitunum er vel þekkt stærð. Ríkjandi deildar­meistarar Vals sem stefna á að tryggja sér sæti í úr­slita­ein­vígi deildarinnar þriðja tíma­bilið í röð.

„Þetta verk­efni leggst vel í okkur og á sama tíma gerum við okkur grein fyrir því að við erum að fara mæta liðinu sem endaði sem deildar­meistari. Þeir enduðu í efsta sæti og það þýðir þá að þeir hafi verið besta liðið í vetur. Verk­efnið er stórt.

Við töpuðum báðum leikjunum fyrir þeim í deildar­keppninni en teljum okkur samt eiga fínan mögu­leika og mætum í leik kvöldsins sem og þetta ein­vígi með enga minni­máttar­kennd. Við teljum okkur eiga 50/50 mögu­leika og nú er það okkar að spila okkar besta bolta. Fá frammi­stöður frá öllum. Þá er ég viss um að mögu­leikar okkar séu góðir.“

Hvar sérðu þetta ein­vígi ráðast?

„Það er kannski ekki á ein­hverjum tveimur til þremur at­riðum. Við vitum að Vals­liðið er með fá veik­leika en ein­hverja samt. Eins og öll lið. Þeir eru með sterkan heima­völl. Ég held að þeir hafi að­eins tapað einum heima­leik í allan vetur. Við þurfum samt að stela einum sigri þar. Mögu­leikinn er þá kannski mestur strax í fyrsta leik. Reyna að koma þeim að ó­vörum. Hirða heima­vallar­réttinn. Svo spilar alls konar inn í þetta. Við þurfum frá­bæran stuðning bæði heima og að heiman. Það getur hjálpað okkur.“

Njarðvíkingar þurfa að finna leiðir til að stöðva Kristinn Pálsson sem fór á kostum síðast þegar að Njarðvík mætti Val. Setti niður fjörutíu og eitt stig Vísir/Anton Brink

„Fyrst og fremst þurfum við hins vegar bara spila okkar leik. Ná fram þessum varnar­stoppum sem við þurfum til að fá hraða­upp­hlaupin. Svo þurfum við að stoppa menn eins og Kristinn Páls­son og Justas Tamulis sem að eru frá­bærar skyttur. Kristinn setti niður 41 stig á móti okkur í loka­um­ferð deildar­keppninnar. Við þurfum að stoppa þessar skyttur og svo höfum við verið að reyna setja upp varnar­plön gegn Kristófer Acox og öðrum. Vonandi smellur þetta bara allt.“

Leikur Vals og Njarðvíkur í undanúrslitum Subway deildar karla í körfubolta verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport í kvöld. Útsendingin frá N1-höllinni á Hlíðarenda hefst klukkan korter í átta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×