Handbolti

Tvö Íslendingalið í Þýska­landi með áttunda sigurinn í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson skoraði níu stig en Ómar Ingi Magnússon var með sjö mörk.
Martin Hermannsson skoraði níu stig en Ómar Ingi Magnússon var með sjö mörk. Samsett/Getty

Þýska handboltaliðið Magdeburg og þýska körfuboltaliðið Alba Berlin héldu bæði sigurgöngu sinni áfram í dag en íslenskir leikmenn eru í aðalhlutverki hjá báðum liðum.

Alba Berlín fagnaði sigri í áttunda deildarleiknum í röð þegar liðið vann Hamburg 85-65 á heimavelli í þýsku úrvalsdeildinni í körfubolta í dag.

Íslenski landsliðsbakvörðurinn Martin Hermannsson var með níu stig og tvær stoðsendingar á nítján mínútum í leiknum í dag. Atkvæðamestur var Tim Schneider með 24 stig.

Alba Berlín er enn bara í þriðja sæti þýsku deildarinnar þrátt fyrir alla þessa sigurleiki í röð. Bayern og Chemnitz eru þremur sigurleikjum á undan.

Magdeburg sótti sigur á sama tíma til Eisenach í þýsku handboltadeildinni en liðið vann þar tíu marka sigur, 35-25.

Þetta var áttundi sigurleikur liðsins í röð í öllum keppnum og fimmti sigurinn í röð í þýsku deildinni.

Ómar Ingi Magnússon skoraði sjö mörk og Janus Daði Smárason skoraði fjögur mörk og gaf fjórar stoðsendingar. Gísli Þorgeir Kristjánsson var síðan með þrjú mörk og þrjár stoðsendingar.

Ómar Ingi og Janus Daði voru með tíu af fyrstu átján mörkum Magdeburgar liðsins í leiknum og í stöðunni 18-10 undir lok fyrri hálfleiksins voru þeir saman með jafnmörg mörk og mótherjarnir.

Magdeburg var með níu marka forystu í hálfleiknum, 22-13.

Magdeburg komst í efsta sæti deildarinnar og upp fyrir Füchse Berlin með þessum góða sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×