Sport

Hall­dór Garðar: Þetta var fyrir alla Kefl­víkinga

Andri Már Eggertsson skrifar
Halldór Garðar Hermannsson, fyrirliði Keflavíkur, lyfti VÍS-bikarnum
Halldór Garðar Hermannsson, fyrirliði Keflavíkur, lyfti VÍS-bikarnum Vísir/Hulda Margrét

Keflavík vann Tindastól í úrslitum VÍS-bikarsins 79-92. Keflavík lenti mest 14 stigum undir en fagnaði að lokum þrettán stiga sigri. Halldór Garðar Hermannsson, fyrirliði Keflavíkur, var í skýjunum með bikarmeistaratitilinn.

„Þetta var ólýsanlegt og ég er enn þá að melta þetta. Djöfull var þetta gaman,“ sagði Halldór Garðar í samtali við Vísi eftir leik.

Halldór Garðar var mjög ánægður með hugarfarið í leiknum þar sem Keflavík hætti ekki þrátt fyrir að hafa lent fjórtán stigum undir.

„Við hættum aldrei. Það skipti ekki máli hvort við vorum fjórtán stigum undir eða yfir. Við spiluðum okkar leik og enduðum sem sigurvegarar.“

„Við höfum verið að gera þetta í vetur. Sama hvað staðan er þá höldum við alltaf áfram. Ég veit að þetta er klisja en við vorum að spila okkar leik. Mér fannst við vera að flýta okkur of mikið þar sem við viljum vera skynsamir og þegar við fórum að taka góð skot þá small þetta.“

Keflavík spilaði frábæra vörn síðustu fimmtán mínúturnar þar sem Tindastóll gerði aðeins átján stig.

„Við vorum að frákasta mjög vel. Það var það sem var að ganga illa hjá okkur síðustu tuttugu og fimm mínúturnar. Um leið og við stoppuðum sóknarfráköst þeirra þá læstum við vörninni.“

Halldór Garðar er fyrirliði Keflavíkur og aðspurður hvernig það hafi verið fyrir hann að lyfta bikarnum sagði hann að það hafi verið ólýsanlegt.

„Það var ólýsanlegt. Ég er ekkert eðlilega þakklátur og þetta var fyrir alla þessa Keflvíkinga,“ sagði Halldór Garðar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×