Selfoss trónir á topp Grill-66 deildarinnar og fyrir leikinn í kvöld hafði liðið ekki tapað leik og gat því tryggt sér deildarmeistaratitilinn, þrátt fyrir að eiga enn þrjá leiki eftir.
Liðið sótti ungmennalið Vals heim á Hlíðarenda í kvöld og hafði mikla yfirburði í leiknum en lokatölur urðu 26-40. Landsliðskonurnar Perla Rut Albertsdóttir og Katla María Magnúsdóttir fóru mikinn í sóknarleik gestanna í kvöld, Perla með 14 mörk og Katla með tíu.
Það er því ljóst að Selfoss ætlar að stoppa eins stutt og mögulegt er í 1. deild, en liðið féll úr Olís-deildinni síðasta vor. Þessi úrslit þýða þá einnig að liðið fer rakleiðis upp og sleppur við umspil um laust sæti í efstu deild.