Sport

„Við hittum eins og við eigum að vera að hitta“

Andri Már Eggertsson skrifar
Ingvar Þór Guðjónsson, þjálfari Hauka, á hliðarlínunni í leik kvöldsins
Ingvar Þór Guðjónsson, þjálfari Hauka, á hliðarlínunni í leik kvöldsins Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Ingvar Þór Guðjónsson, þjálfari Hauka, var afar ánægður með stórsigur gegn Stjörnunni 64-90.

„Mér fannst við spila varnarlega mjög vel og vorum gríðarlega orkumiklar. Við létum þær taka þau skot sem við vildum að þær myndu taka og þær voru ekki að hitta úr þeim skotum. Varnarlega vorum við mjög góðar og síðan hittum við eins og við eigum að vera að hitta,“ sagði Ingvar sem var afar ánægður með skotnýtinguna.

Ingvar var ánægður með hvernig hans lið svaraði öllum áhlaupum Stjörnunnar í fyrri hálfleik.

„Mér fannst þetta hörkuleikur í fyrri hálfleik. Við vorum tíu stigum yfir í hálfleik og að gefa þeim mikið af sóknarfráköstum ásamt því að setja þær á vítalínuna. Í seinni hálfleik héldum við áfram að gera það sama varnarlega og sóknin fylgdi með í kjölfarið.“

Haukar spiluðu frábærlega í þriðja leikhluta og gestirnir gott sem kláruðu leikinn á þeim kafla.

„Það var sama orkan varnarlega og við fórum að hitta. Við vorum að stýra leiknum mjög vel og Keira og Þóra spiluðu mjög vel.“

Aðspurður hvernig honum finnist liðið hafa brugðist við því að Bjarni Magnússon steig til hliðar sem þjálfari liðsins. Haukar hafa unnið báða leikina og Ingvar grínaðist með að stelpurnar höfðu verið fegnar að losna við hann.

„Þær eru fegnar að losna við hann. Það getur ekki annað verið,“ sagði Ingvar Guðjónsson léttur og hélt áfram.“

„Þetta var erfitt og það var mikill uppgangur á meðan Bjarni var með liðið og við erum bara að halda áfram því verki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×