Handbolti

Þjóð­verjar klúðruðu ís­lenska þjóð­söngnum

Sindri Sverrisson skrifar
Íslenska landsliðið.
Íslenska landsliðið. Vísir/Vilhelm

Gestgjafarnir í Þýskalandi gerðu slæm mistök þegar spila átti þjóðsöngvana fyrir leik Íslands og Þýskalands á EM karla í handbolta í kvöld, í Lanxess Arena í Köln.

Gestgjafarnir í Þýskalandi gerðu slæm mistök þegar spila átti þjóðsöngvana fyrir leik Íslands og Þýskalands á EM karla í handbolta í kvöld, í Lanxess Arena í Köln.

Eftir að þjóðsöngur Þýskalands hafði verið spilaður án nokkurra vandkvæða, og hann sunginn af tæplega 20 þúsund áhorfendum í höllinni, kom babb í bátinn þegar sá íslenski var spilaður.

Einhverra hluta vegna var spilað rangt lag, eða að minnsta kosti kolröng útgáfa af þjóðsöngnum. Strákarnir okkar ætluðu í upphafi að syngja með, sem og þeir íslensku stuðningsmenn sem eru í höllinni, en hættu fljótt við. Sjá mátti leikmenn Íslands með spurnarsvip í andlitinu, eða jafnvel hálfhneykslaða, og fljótlega var byrjað að baula í stúkunni.

Tónlistin var þá stöðvuð og vallarþulur baðst afsökunar. Hann hvatti fólk til að klappa og allir í höllinni hófu að kyrja „Ísland! Ísland!“ þar til að rétta útgáfan af þjóðsöngnum fannst loksins. Hún var svo spiluð og leikurinn gat hafist.

Ísland spilaði þrjá leiki í Ólympíuhöllinni í München og þar voru engin vandræði með þjóðsönginn. Leikurinn við heimamenn í kvöld er sá fyrsti af að minnsta kosti fjórum sem Ísland spilar í Köln.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×