Körfubolti

Jöfnuðu annað met sem enginn vill eiga

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jaden Ivey og félagar í Detroit Pistons eru búnir að tapa 28 leikjum í röð í NBA-deildinni.
Jaden Ivey og félagar í Detroit Pistons eru búnir að tapa 28 leikjum í röð í NBA-deildinni. Vísir/Getty

Leikmenn Detroit Pistons í NBA-deildinni í körfubolta hafa ekki haft mikla ástæðu til að fagna undanfarnar vikur og mánuði. Liðið tapaði sínum 28. leik í röð í nótt.

Pistons hafði þegar jafnað og bætt metið yfir flest töp í röð á einu tímabili þegar liðið tapaði sínum 27. leik í röð aðfararnótt 27. desember síðastliðinn þegar Pistons laut í lægra haldi fyrir Brooklyn Nets, 112-118, á heimavelli.

Tapið þýddi að Pistons á núna metið yfir flest töp í röð á einu tímabili í NBA og í stóru íþróttadeildunum fjórum í Bandaríkjunum (NBA, NFL, MLB og NHL).

Pistons bætti svo um betur, ef svo má að orði komast, þegar liðið tapaði sínum 28. leik í röð er liðið mætti Boston Celtics í nótt, lokatölur 128-122. Pistons hafði 21 stigs forskot á einum tímapunkti í leiknum, en liðið endaði á að tapa í framlengingu.

Þar með jafnaði liðið met Philadelphia 76ers yfir flest töp í röð í NBA-deildinni, en taphrina Philadelphia liðsins var í gangi tímabilin 2014-2015 og 2015-2016.

Detroit Pistons mætir Toronto Raptors annað kvöld, laugardag, þar sem liðið freistar þess að forðast það að eiga metið eitt liða.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×