Körfubolti

Pistons setti met með 27. tapinu í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cade Cunningham skoraði 41 stig gegn Brooklyn Nets. Það dugði þó skammt því Detroit Pistons tapaði enn einum leiknum.
Cade Cunningham skoraði 41 stig gegn Brooklyn Nets. Það dugði þó skammt því Detroit Pistons tapaði enn einum leiknum. getty/Nic Antaya

Detroit Pistons á núna met í NBA-deildinni í körfubolta sem enginn vill eiga.

Pistons laut í lægra haldi fyrir Brooklyn Nets, 112-118, á heimavelli í nótt. Þetta var 27. tap liðsins í röð.

Pistons á núna metið yfir flest töp í röð á einu tímabili í NBA og í stóru íþróttadeildunum fjórum í Bandaríkjunum (NBA, NFL, MLB og NHL). 

Philadelphia 76ers á enn metið yfir flest töp í röð, 28, en það gerðist á tveimur tímabilum, 2014-15 og 2015-16.

Pistons vann fyrsta heimaleik sinn á tímabilinu 28. október en hefur síðan ekki unnið leik. Liðið hefur tapað 28 af þrjátíu leikjum sínum á tímabilinu og er með versta árangurinn í NBA.

Pistons á enn eftir að spila tvo leiki á þessu ári. Liðið mætir Boston Celtics á föstudaginn og Toronto Raptors á laugardaginn.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×