Körfubolti

Curry fyrstur allra til að setja 3.500 þrista

Siggeir Ævarsson skrifar
Stephen Curry er skotviss með afbrigðum
Stephen Curry er skotviss með afbrigðum Vísir/Getty

Stephen Curry, leikmaður Golden State Warriors, skráði sig í sögubækurnar í nótt þegar hann varð fyrstur allra til að rjúfa 3.500 þrista múrinn. Talan er þó fyrst og fremst táknræn því hann er löngu orðinn efstur í skoruðum þristum í sögu deildarinnar.

Curry, sem er 35 ára, kom inn í deildina árið 2009 og hefur alla tíð þótt mjög skotviss. Hann fór þó hlutfallslega nokkuð rólega af stað og setti niður 166 þrista sitt fyrsta tímabil. 

Sitt fjórða tímabil fór hann sannarlega á flug og skoraði 272 þriggjastigakörfur og tímabilið 2015-16 skoraði hann 402 þrista, sem er það mesta sem einn leikmaður hefur skorað á einu tímabili. Ef litið er á listann yfir flesta þrista á einu tímabili er Curry fjórum sinnum efstur á blaði. Aðeins James Harden kemst inn á topp 5 listann með 378 þrista tímabilið 2018-19.

Ray Allen var lengi efstur á blaði yfir flestar skoraðar þriggjastigakörfur í deildinni, með 2973 þrista í sarpanum sem hann skoraði í 1.300 leikjum. Curry sló það met í desember árið 2021 og virðist hvergi nærri hættur. Það sem gerir met Curry ekki síður merkilegt er að hann hefur spilað tæplega 400 færri leiki en Allen, eða 905.

Næsti maður á lista sem enn er að spila er James Harden með 2.801 þrist og verður að teljast ólíklegt að þeir leikmenn á topp tíu listanum sem enn eru að spila muni ná Curry á næstunni.

Twitter@NBAIndia



Fleiri fréttir

Sjá meira


×