Innlent

„Við munum að sjálf­sögðu krefjast þess að sitja í þessum hópi“

Helena Rós Sturludóttir skrifar
Alma Ýr Ingólfsdóttir formaður ÖBÍ réttindasamtaka segir stöðuna afar alvarlega þegar kemur að börnum þessara hópa.
Alma Ýr Ingólfsdóttir formaður ÖBÍ réttindasamtaka segir stöðuna afar alvarlega þegar kemur að börnum þessara hópa. Vísir/Ívar Fannar

Formaður ÖBÍ segir nýtt samkomulag ríkis og sveitarfélaga um breytingu í þjónustu sveitarfélaga við fatlaða í gær fagnaðarefni. Samkomulagið eigi að tryggja fötluðum lögbundna þjónustu frá sveitarfélögum sem hingað til hafi reynst erfitt.

Ríki og sveitarfélög náðu loks samkomulagi í gær um breytingu á fjárhagsramma þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk. Frá því að yfirfærsla á þjónustu við fatlað fólk átti sér stað frá ríki til sveitarfélaga árið 2011 hefur fjármögnun við málaflokkinn verið mikið þrætuepli á milli ríkis og sveitarfélaga. Alma Ýr Ingólfsdóttir, formaður ÖBÍ, segir samkomulagið vera gleðiefni.

„Þetta ætti allavega að tryggja að þessi lögbundna þjónusta og skylda sem hvílir á sveitarfélögum  náist í veitingu,“ segir Alma og bætir við að það sé auðvitað fagnaðarefni. „Líka bara það að fatlað fólk geti þá gengið að því vísu að það fái þá þjónustu sem því ber. Það hefur verið að reyndin að sveitarfélögin hafa ekki getað staðið við þessar skuldbindingar sínar sem er náttúrulega agalegt fyrir alla aðila.“

Samkomulagið felur í sér að útsvarsprósenta sveitarfélaga hækkar um 0,23 prósent með samsvarandi lækkun tekjuskattprósentu ríkisins. Hækkunin nemur um sex milljörðum króna miðað við næsta ár. Þá á jafnframt að stofna sérstakan framtíðarhóp fulltrúa ríkis og sveitarfélaga sem mun vinna að þróun og nýsköpun í þjónustu við fatlað fólk. 

Alma segir að ÖBÍ muni gera þá kröfu að fá sæti við borðið í þessum framtíðarhópi.  „Það er mjög mikilvægt að hagsmunasamtökin fái það tækifæri. Það erum við sem veitum aðhald og krefjumst svara við erfiðum spurningum. Þannig að við munum að sjálfsögðu krefjast þess að sitja í þessum hópi,“ segir hún. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×