Sport

Nadal stefnir á endur­komu í janúar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Rafael Nadal stefnir á endurkomu á tennisvöllinn á nýju ári.
Rafael Nadal stefnir á endurkomu á tennisvöllinn á nýju ári. Borja B. Hojas/Getty Images for Kia

Rafael Nadal, einn besti tenniskappi sögunnar, stefnir á að snúa aftur á völlinn í janúar þegar Opna ástralska risamótið fer fram.

Hinn 37 ára gamli Nadal hefur verið frá keppni síðan á Opna ástralska fyrr á þessu ári þegar hann þurfti að draga sig úr keppni vegna meiðsla. Hann stefnir því á að mæta aftur til leiks nánast sléttu ári eftir meiðslin.

Hins vegar verður að teljast ólíklegt að hinn litríki Nick Kyrgios verði með þegar Opna ástralska hefst í næsta mánuði.

Kyrgios, sem komst alla leið í úrslit á Wimbeldon-mótinu árið 2022, hefur þurft að glíma við margvísleg meiðsli á árinu og hefur misst af öllum fjórum risamótunum. Ástralinn hefur þurft að glíma við meiðsli í úlnlið, hné og fæti og greindi frá því í síðasta mánuði að allt þyrfti að ganga upp ef hann ætlaði sér að taka þátt á Opna ástralska.

Þá má hins vegar búast við því að ríkjandi meistarinn, Novak Djokovic, mæti til leiks. Djokovic mun þá freista þess að vinna risamótið í tólfta sinn og sinn 25. risatitil í heildina.

Nadal og Djokovic hafa háð harða baráttu á tennisvellinum undanfarin ár og hefur Nadal fagnað sigri á risamóti 22 sinnum. Hann greindi þó frá því fyrr á þessu ári að árið 2024 yrði líkleg hans síðasta keppnisár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×