Körfubolti

Situr límdur við skjáinn að fylgjast með Njarðvíkingunum sínum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elvar Már Friðriksson lék síðast með Njarðvík tímabilið 2018-19.
Elvar Már Friðriksson lék síðast með Njarðvík tímabilið 2018-19. vísir/bára

Atvinnu- og landsliðsmaðurinn í körfubolta, Elvar Már Friðriksson, fylgist grannt með gengi sinna manna í Njarðvík sem hefur gengið flest í haginn í vetur.

Njarðvíkingar hafa komið flestum á óvart í vetur og eru á toppi Subway-deildar karla með fjórtán stig. Í árlegri spá forráðamanna liðanna í deildinni var Njarðvík spáð 9. sæti og liðið myndi þar með missa af úrslitakeppninni. Ólíklegt verður að teljast að sú spá rætist því strákarnir hans Benedikts Guðmundssonar hafa unnið sjö af fyrstu níu leikjum sínum í deildinni. 

„Þetta kemur mér skemmtilega á óvart,“ sagði Elvar aðspurður um gengi Njarðvíkur í vetur. „Þeir hafa verið mjög vel spilandi og skemmtilegir í ár. Ég er mjög ánægður að sjá það.“

Elvar kveðst líka ánægður með liðsstyrkinn sem Njarðvíkingum barst á dögunum þegar Þorvaldur Orri Árnason samdi við liðið.

„Ég held að það hjálpi þeim mjög mikið upp á breiddina að fá Þorra inn í þetta. Hann er frábær leikmaður, ungur og vill sanna sig í góðu liði,“ sagði Elvar. „Ég er mjög spenntur að sjá framhaldið hjá Njarðvík og vona að þeir haldi áfram að vinna leiki og séu við toppinn.“

Elvar fylgist vel með sínum mönnum frá Grikklandi þar sem hann spilar með PAOK í Þessalónikíu.

„Ég er við skjáinn á fimmtudögum og föstudögum. Ég fylgist mjög vel með deildinni og umfjölluninni heima. Það lætur manni líða eins og maður sé nær heima og með puttann á púlsinum. Deildin í ár hefur verið mjög skemmtileg,“ sagði Elvar.

Næsti leikur Njarðvíkur er grannaslagur gegn Keflavík á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×