Körfubolti

Var í kringum NBA-stjörnurnar á hverjum degi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þorvaldur Orri Árnason segist vera reynslunni ríkari eftir veruna í Clevaland.
Þorvaldur Orri Árnason segist vera reynslunni ríkari eftir veruna í Clevaland. Vísir/Sigurjón

Þorvaldur Orri Árnason er nýjasti leikmaður Njarðvíkur í körfuboltanum en hann er kominn heim eftir mikið ævintýri í Bandaríkjunum þar sem hann spilaði með venslaliði NBA félagsins Cleveland Cavaliers.

Svava Kristín Gretarsdóttir hitti Þorvald Orra og vildi fyrst fá að vita af hverju hann valdi Njarðvík en hann er uppalinn KR-ingur.

„Mér leist rosalega vel á það sem þeir höfðu að segja og þekki náttúrulega Benna (Benedikt Guðmundsson þjálfara Njarðvíkur) rosalega vel. Ég veit hvernig hann vill spila,“ sagði Þorvaldur Orri Árnason.

Hann segir að ef KR hefði verið í Subway deild karla en ekki í 1. deildinni þá hefði valið verið mjög auðvelt og hann þá endað í Vesturbænum.

„Það er rosa spennandi að koma heim og fá stökkpall til að fara aftur út. Njarðvík var rétti staðurinn fyrir mig,“ sagði Þorvaldur Orri.

Þorvaldur var út í Bandaríkjunum og var að spila hjá venslaliði Cleveland Cavaliers sem heitir Cleveland Charge. Svava vildi fá að vita hvernig þessi tími hafi verið.

„Þetta var bara ævintýri. Ég var í kringum allar þessar stjörnur eins og Donovan Mitchell. Þetta var flott prógramm og ég kem reynslunni ríkari heim,“ sagði Þorvaldur.

Hann var að umgangast leikmenn Cleveland Cavaliers liðsins.

„Þeir voru þarna eins og við. Á æfingum, í lyftingarsalnum og matsalnum. Þú varst bara í kringum þessa gæja á hverjum degi,“ sagði Þorvaldur.

„Það tók alveg tíma að venjast því. Ég er búinn að horfa á þessa gæja í sjónvarpinu. Þetta eru stjörnur en bara rosalega venjulegir gæjar og almennilegir þegar þú hittir þá,“ sagði Þorvaldur.

Hér fyrir neðan má sjá allt viðtal Svövu við Þorvald.

Klippa: Þorvaldur Orri um Njarðvík og tímann í Cleveland



Fleiri fréttir

Sjá meira


×